Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 302/1987

Gjaldár 1986

Lög nr. 75/1981 — 95. gr. 1. mgr. — 96. gr. 1. og 3. mgr.   Lög nr. 58/1961 — 40. gr.  

Oddviti — Oddvitalaun — Ákvörðun oddvitalauna — Endurgreiddur útlagður kostnaður — Sönnun — Málsmeðferð áfátt — Andmælareglan

I.

Samkvæmt launauppgjöf vegna tekjuársins 1985 fékk kærandi greitt frá J-hreppi annars vegar stjórnarlaun að fjárhæð 173.208 kr. og hins vegar greiðslu að fjárhæð 10.700 kr., er tilgreind var sem verktakagreiðsla. Greiðslur þessar samtals að fjárhæð 183.908 kr. færði kærandi sér til tekna í skattframtali sínu árið 1986 sem launatekjur í reit 21. í reit 34 í skattframtalinu sem hlunnindi til frádráttar færði kærandi 46.567 kr. í sérstöku fylgiskjali með skattframtalinu kom fram, að frádráttur þessi var kostnaður vegna oddvitalauna. Féllst hann í orku-, síma-, risnu- og bifreiðakostnaði, er sundurliðað var í fylgiskjalinu.

II.

Með bréfi, dags. 22. júlí 1986, tilkynnti skattstjóri kæranda, að sú breyting hefði verið gerð á skattframtali hans árið 1986, að fyrrgreindur frádráttarliður væri felldur niður „þar sem ekki er heimilt að draga kostnað frá oddvitalaunum“, eins og segir í bréfinu. Í kæru, dags. 28. ágúst 1986, krafðist kærandi þess, að framtalin oddvitalaun yrðu lækkuð um 46.567 kr., þar sem þessi fjárhæð væri í raun endurgreiðsla á upptöldum kostnaði á fylgiskjali með skattframtali og því ranglega talin með oddvitalaunum.

Skattstjóri tók kæruna til úrlausnar með kæruúrskurði, dags. 23. október 1986. í kæruúrskurðinum segir svo m.a.: „Í kæru er ekki sýnt fram á hvernig laun oddvita hefðu átt að ákvarðast rétt, eða lagðir fram reikningar eða annar rökstuðningur fyrir umræddum kostnaðarliðum. Að svo stöddu verður því ekki fallist á kröfu umboðsmanns kæranda. Rétt þykir þó að lækka framtalin oddvitalaun til samræmis við launamiða frá J-hreppi, eða úr kr. 183.908 í kr. 173.208. Á sama launamiða er einnig tilfærð verktakagreiðsla, kr. 10.700, og má ætla að kærandi hafi borið kostnað á móti þeirri fjárhæð.“

III.

Af hálfu kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 5. nóvember 1986. Krafa kæranda er sú, að hann fái frádreginn beinan útlagðan kostnað vegna starfa sinna sem oddviti J-hrepps. Oddvitalaunin árið 1985 hafi verið reiknuð 6% af hefðbundnum tekjum hreppsins eins og áður alls 173.208 kr. Hafi verið mistök að gefa út launamiða vegna oddvitalaunanna án þess að draga frá beinan kostnað við þau. Kveðst kærandi eins og áður ekki hafa tekið laun vegna bifreiðanotkunar í oddvitastarfinu, þar sem honum hafi þótt fyrrnefnd prósentutala vera nægjanlega há til þess að greiða útlagðan kostnað þannig að nettólaun yrðu 100.000 kr. Kærandi getur þess, að hann hafi að meðaltali þurft að fara eina ferð á viku til A. árið 1985. Vegalengdin frá E. til A. sé 65 km eða 130 km báðar leiðir. Bensíneyðsla í vetrarferðum hafi verið 500 - 1.000 kr. Hafi hann því metið hverja ferð á 1.000 kr. í beinan útlagðan kostnað. Annar kostnaður við starfið væri fólginn í því, að hann hefði haldið alla hreppsnefndarfundi á heimili sínu eins og venja væri í hreppnum alls 9 fundi. Væri því um að ræða kaffi- og matarkostnað auk húsnæðis. Krefst kærandi þess, að til frádráttar komi 50.000 kr. vegna aksturs og 20.000 kr. vegna fundarhalda eða alls 70.000 kr. Kærandi tekur fram, að greiðsla frá J-hreppi 10.700 kr. eigi ekkert skylt við oddvitalaunin og ætti að skattleggjast sem aðrar tekjur.

IV.

Með bréfi, dags. 6. mars 1987, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:

„Eins og mál þetta liggur fyrir eru að áliti ríkisskattstjóra engin efni til að verða við kröfu kæranda.

Er því farið fram á að henni verði synjað.“

V.

Skattstjóri fór með hina kærðu breytingu eftir ákvæðum 3. ml. 1. mgr. 95. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, en rétt hefði verið, að hann hefði um vélað eftir 1. og 3. mgr. 96. gr. laganna. Greiðslur til kæranda vegna starfa hans sem oddviti hafa byggst á 40. gr. laga nr. 58/1961, sveitarstjórnarlaga, sbr. 1. gr. laga nr. 41/1976, um breyting á þeim lögum. Að því er varðar oddvita í hreppi, þar sem ekki er starfandi sveitarstjóri eða annar starfsmaður við stjórn sveitarfélagsins, er annars vegar um að ræða launagreiðslur, er skulu nema 6% af rekstrartekjum sveitarsjóðs og fyrirtækja sveitarfélaga og hins vegar er gert ráð fyrir greiðslum til handa oddvita að mati sveitarstjórnar vegna aðstöðu til skrifstofuhalds, fundarhalda, umsjá með sérstökum framkvæmdum o.fl. Kærandi í máli þessu hefur haldið því fram, að í tilgreindum oddvitalaunum samkvæmt launauppgjöf 173.208 kr. hafi að hluta til falist greiðsla vegna kostnaðar, er hann hafi haft vegna oddvitastarfsins og launauppgjöfin því að þessu leyti eigi verið rétt. Eigi þykja efni til þess að vefengja þessa staðhæfingu kæranda, er hefur og raunar eigi verið dregin í efa af skattstjóra og ríkisskattstjóra. Kærandi hefur nokkra grein gert fyrir þeim kostnaði, er hann telur sig hafa orðið fyrir vegna oddvitastarfsins og sundurliðað þann kostnað í fylgiskjali með skattframtalinu. Eftir öllum atvikum þykir mega taka þá fjárhæð til greina, enda þykir sú fjárhæð sem kærandi krefst fyrst í kæru til ríkisskattanefndar 70.000 kr. eigi nægilega rökstudd. Samkvæmt þessu verða skattskyldar launatekjur kæranda af oddvitastörfum 126.641 kr. Þá færast honum til tekna í reit T6 10.700 kr. skv. upplýsingum hans sjálfs í kæru.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja