Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 305/1987

Gjaldár 1978 og 1979

Lög nr. 75/1981 — 96. gr. — 97. gr.  

Endurákvörðun skattstjóra — Tímamörk endurákvörðunar

Úrskurði skattstjóra, dags. 15. september 1986, varðandi endurákvörðun opinberra gjalda á kæranda gjaldárin 1978 og 1979 hefur umboðsmaður hans skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 23. september 1986. Er þess krafist, að hin álögðu gjöld gjaldárin 1978 og 1979 verði felld niður. Telur umboðsmaður kæranda, að lagaheimild skorti til endurálagningarinnar. Hún hafi átt sér stað þann 6. maí 1985 og hafi þá verið liðin tímamörk þau, er sett séu í 1. mgr. 97. gr. skattalaga til endurákvörðunar skatta. Þá eigi túlkun skattstjóra á úrskurði ríkisskattanefndar nr. 610/1984 ekki við í þessu máli, enda sé ekki deilt um ákvæði 2. mgr. 97. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt.

Ríkisskattstjóri hefur með bréfi, dags. 6. mars 1987, gert svofelldar kröfur í máli þessu fyrir gjaldkrefjenda hönd:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur. Breytingar þær sem gerðar voru á álagningu gjalda gjaldárin 1978—1981 leiddu beinlínis af leiðréttingum og endurgerð á framtölum kæranda. Réttmæti þeirra gjaldstofna sem breytingamar byggðu á hefur af kæranda hálfu á engan hátt verið dregið í efa.

Með vísan til þessa og að öðru leyti til forsendna í hinum kærða úrskurði og að öðru leyti til málsatvika og málsgagna er gerð krafa um staðfestingu á umræddri gjaldaálagningu.“

Með skírskotun til ótvíræðs ákvæðis 1. mgr. 97. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, þykir verða að taka kröfu kæranda til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja