Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 317/1987

Gjaldár 1986

Lög nr. 35/1985   Lög nr. 75/1981 — 30. gr. 1. mgr. C-liður l.tl. og 2.tl. — 100. gr. 2. mgr.  

Fiskimannafrádráttur — Fiskveiðar — Fiskiskip — Rannsóknarskip — Verkfræðingur — Hafrannsóknarstofnun — Sjómaður — Ríkisstarfsmaður — Lögskráning — Rannsóknarstörf — Sjómannafrádráttur — Lögskýring — Lögskýringargögn — Greinargerð með lagafrumvarpi — Kjarasamningur — Sjómennska — Sjómannsstörf — Kæruheimild ríkisskattstjóra

I.

Málavextir eru þeir, að kærandi færði til frádráttar tekjum sínum í skattframtali árið 1986 44.109 kr. sem fiski- og farmannafrádrátt í reit 49 í skattframtalinu, sbr. 2. tl. C-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, eins og tölulið þessum hefur verið breytt með 5. gr. laga nr. 9/1985, um aðgerðir til þess að bæta hag sjómanna og sjávarútvegs. Kærandi er starfsmaður Hafrannsóknarstofnunarinnar og tekur laun úr ríkissjóði. Hann var lögskráður árið 1985 á rannsóknarskipin m/s A. og m/s B. alls 70 daga skv. siglingavottorði Lögskráningarstjórans í Reykjavík, dags. 20. febrúar 1986, er fylgdi skattframtalinu. Þá fylgdi skattframtalinu yfirlit kæranda um tekjur af sjómennsku, þar sem hann leiddi fram þann hluta tekna sinna, þ.m.t. fastra tekna, er hann áleit stafa frá sjómennsku. Alls námu þessar tekjur 367.573 kr. Af þessum tekjum reiknaði hann fyrrnefndan frádrátt 12%, er nam frádráttarfjárhæðinni 44.109 kr. Þá hafði kærandi fært til frádráttar í reit 48 í skattframtalinu sjómannafrádrátt skv. 1. tl. C-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, að fjárhæð 17.150 kr. er miðaðist við lögskráningartíma kæranda 70 daga 245 kr. pr. dag.

II.

Með bréfi, dags. 23. júlí 1986, tilkynnti skattstjóri kæranda m.a., að sú breyting hefði verið gerð á skattframtali hans, að umræddur frádráttur 44.109 kr. hefði verið felldur niður, þar sem hann skv. fyrrnefndu lagaákvæði takmarkaðist við 12% af beinum tekjum af fiskveiðum á íslenskum fiskiskipum og launum vegna sjómannsstarfa um borð í rannsóknarskipum. Tekjur kæranda af rannsóknarstörfum og leiðangursstjórn féllu ekki undir þessa skilgreiningu. Ekki hreyfði skattstjóri við tilfærðum sjómannafrádrætti.

Með kæru, dags. 11. ágúst 1986, mótmælti kærandi þessari breytingu skattstjóra. Með kæruúrskurði, dags. 13. október 1986, hafnaði skattstjóri kröfu kæranda. Forsendur skattstjóra fyrir synjuninni eru svofelldar:

„Samkvæmt 1. mgr. 29. gr. laga nr. 75/1981 er frá tekjum manns, sem ekki tengjast atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, aðeins heimill sá frádráttur sem sérstaklega er getið um í frádráttarkafla laganna; þ.e. 30. gr. þeirra. Tekjur kæranda eru endurgjald fyrir vinnu sem innt er af hendi fyrir annan aðila og sem skattskyldar eru því samkvæmt 1. mgr. 1. tl. A-liðar 7. gr. áðurnefndra laga.

Um frádrátt þann sem um er þrætt er fjallað í 2. tl. C-liðar 1. mgr. nefndrar 30. gr., sbr. 5. gr. laga nr. 9/1985. Þar segir: „(frá tekjum má draga:) Frádrátt er nema skal 12% af beinum tekjum sjómanna af fiskveiðum á íslenskum fiskiskipum og launum vegna sjómannsstarfa um borð í farmskipum, farþegaskipum, rannsóknarskipum, varðskipum, björgunarskipum og sanddæluskipum. Þessi ákvæði eiga einnig við um hlutaráðna landmenn“.

Af orðalagi ákvæðisins er ljóst að gerður er greinarmunur á launum vegna sjómannsstarfa og launum vegna annarra starfa um borð í tilgreindum skipum. Sá skilningur kemur einnig fram í athugasemdum um frumvarp það sem varð að áðurnefndum lögum nr. 9/1985 þar sem segir svo um tilvitnað ákvæði:

„Með þessari grein er lagt til að hundraðshluti hins svonefnda fiskimannafrádráttar hækki úr 10% í 12% í samræmi við fyrirheit ríkisstjórnarinnar. Þá er lagt til að frádráttur samkvæmt þessum lið nái jafnt til farmanna sem fiskimanna.

Þau rök sem lágu til grundvallar fiskimannafrádrættinum eiga einnig við um þá farmenn sem starfa langdvölum frá heimilum sínum. Verður því að telja eðlilegt að jöfnuð sé skattaleg meðferð sjómanna. Ætla má að fyrirheit um breytingu í þessa átt hafi stuðlað að því að samningar tókust í kjaradeilum farmanna. Frádráttur þessi tekur einungis til launa samkvæmt kjarasamningum sjómanna“.

Samkvæmt siglingavottorði sem kærandi lagði fram sem fylgiskjal með skattframtali sínu var skráð staða hans á árinu 1985 um borð í tveimur rannsóknarskipum annars vegar rannsóknarmaður í samtals 37 daga og leiðangursstjóri í 33 daga. Samkvæmt upplýsingum á launamiða frá Launadeild Fjármálaráðuneytisins hefur kærandi á árinu 1985 haft laun sem yfirverkfræðingur, og verið greitt skv. samningi kjarafélags opinberra starfsmanna í Verkfræðingafélagi Íslands.

Ljóst er því að kærandi hefur hvorki stundað sjómannsstörf né unnið skv. kjarasamningi sjómanna. Af því sem að framan er rakið er einnig ljóst að honum er hinn umdeildi frádráttur ekki heimill.“

III.

Með kæru, dags. 5. nóvember 1986, hefur kærandi skotið kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar og krefst hann þess, að tilfærður frádráttur í reit 49 í skattframtali árið 1986 44.109 kr., verði að fullu tekinn til greina. Máli sínu til stuðnings vísar kærandi til 5. gr. laga nr. 9/1985, er breytti 2. tl. C-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og athugasemda við frumvarp til laga þessara. Komi þar fram, að rétt sé, að 12% frádrátturinn skuli ná jafnt til sjómanna, er starfi langdvölum frá heimilum sínum. Þá komi fram í athugasemdunum, að um sjómennskuna skuli gilda sérstakur kjarasamningur. Kveðst kærandi sem starfsmaður Hafrannsóknarstofnunarinnar hafa verið 70 daga að störfum á rannsóknarskipum á árinu 1985. Hafi harm í samræmi við þetta fært umræddan frádrátt. Verði ekki séð, að fjarvistir hans frá heimili séu frábrugðnar fjarvistum annarra lögskráðra sjómanna á sama skipi. Þá verði ekki séð rök fyrir þeirri túlkun skattstjóra, að störf sumra lögskráðra manna á rannsóknarskipi teljist sjómennska en ekki störf annarra. Kærandi vísar og til samkomulags milli fjármálaráðherra og starfsmanna Hafrannsóknarstofnunarinnar, dags. 27. febrúar 1981, um greiðslur vegna starfa á sjó, en gagn þetta fylgdi kærunni. Sé þar fjallað um atriði, sem einkenni sjómennsku.

IV.

Með bréfi, dags. 6. mars 1987, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu, að hinn kærði úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

V.

Svo sem fram kemur í málinu er kærandi starfsmaður Hafrannsóknarstofnunar og tekur laun úr ríkissjóði sem yfirverkfræðingur skv. launakerfi opinberra starfsmanna. Hann var lögskráður á nefnd skip stofnunarinnar hluta ársins 1985 vegna rannsóknarstarfa um borð í þeim. Hann verður eigi talinn hafa stundað sjómannsstörf svo sem áskilið er í 2. tl. C-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, sbr. 5. gr. laga nr. 9/1985, eftir því sem skýra verður ákvæði þetta, sbr. lög nr. 35/1985, sjómannalög, svo og tilgang ákvæðisins, er kemur fram í athugasemdum við ákvæði það í frumvarpi til laga um aðgerðir til að bæta hag sjómanna og sjávarútvegs, er varð að nefndri 5. gr. laga nr. 9/1985. Með þessum athugasemdum þykir bera að staðfesta hinn kærða úrskurð skattstjóra. Eins og áður er komið fram haggaði skattstjóri eigi tilfærðum sjómannafrádrætti kæranda skv. 1. tl. C-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981 með síðari breytingum og er eigi ágreiningur um þann frádráttarlið í málinu og ríkisskattstjóri eigi neytt kæruheimildar sinnar skv. 2. mgr. 100. gr. laga nr. 75/1981 að því er þetta varðar.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja