Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 327/1987

Gjaldár 1986

Lög nr. 75/1981 — 30. gr. 2. mgr. — 69. gr. 1. mgr. — 99. gr. — 100. gr. — 106. gr.  

Húsnæðishlunnindi — Lögheimili — Dvalarstaður — Einstætt foreldri — Einstæður faðir — Síðbúin framtalsskil — Síðbúin kæra — Álag — Álagsbeiting skattstjóra — Kærumeðferð skattstjóra — Kærufrestur

I

Málavextir eru þeir, að skattframtal kæranda árið 1986 barst skattstjóra ekki fyrr en 11. ágúst 1986. Með bréfi, dags. 30. september 1986, krafði skattstjóri kæranda ýmissa gagna og skýringa varðandi skattframtalið, m.a. um rekstrarreikning, landbúnaðarskýrslu og greiðslumiða vegna húsaleigu. Þá skyldi kærandi upplýsa um húsnæðishlunnindi. Ekki barst svar við bréfi þessu og með kæruúrskurði, dags. 30. október 1986, lagði skattstjóri skattframtal kæranda til grundvallar álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1986 í stað áætlaðra skattstofna. Skattstjóri gerði ýmsar breytingar á skattframtalinu. Af tekjum í reit 21 í skattframtalinu alls 361.295 kr. færði hann 360.500 kr. sem reiknað endurgjald í reit 24. Þá tekjufærði skattstjóri feðralaun 38.224 kr. og reiknuð húsnæðishlunnindi 36.000 kr. Ennfremur bætti skattstjóri 15% álagi við skattstofna vegna síðbúinna framtalsskila, sbr. heimildarákvæði 106. gr. laga nr. 75/1981. Með bréfi, dags. 18. desember 1986, hefur skattstjóri endurákvarðað skattstofna kæranda til lækkunar.

II

Með kæru, dags. 16. janúar 1987, hefur kærandi skotið kæruúrskurði skattstjóra, dags. 30. október 1986, til ríkisskattanefndar og vill telja kærufrest frá fyrrnefndu bréfi skattstjóra, dags. 18. desember 1986. Kærandi mótmælir tekjufærslu húsnæðishlunninda 36.000 kr. Kveðst hann eiga lögheimili í A-hreppi, en dvalist undanfarið hluta árs fyrir sunnan vegna vinnu og skólasóknar dóttur sinnar og haft aðsetur í Kópavogi, hjá foreldrum sínum. Þá fer kærandi fram á, að álag vegna síðbúinna framtalsskila verði niður fellt. Gerir hann grein fyrir þeim ástæðum, sem ullu hinum síðbúnu framtalsskilum, m.a. að framtalseyðublað hefði borist honum seint og um síðir og sérstökum önnum hans, sem hann nánar lýsir. Þá fer kærandi fram á, að athugað verði, hvort hann hafi við álagningu notið þeirra reglna við skattlagningu, sem gilda um einstæð foreldri.

III

Með bréfi, dags. 20. mars 1987, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:

„Að kærunni verði vísað frá ríkisskattanefnd þar sem hún er of seint fram komin. Það bréf skattstjóra sem kærandi ber fyrir sig og dags. er 18. des. sl., gefur engan kærurétt til ríkisskattanefndar.“

IV

Svo sem á stendur þykir mega taka kröfu kæranda til efnismeðferðar þó svo, að hún hafi borist að liðnum kærufresti vegna kæruúrskurðar skattstjóra, dags. 30. október 1986. Kæranda hafa verið reiknuð húsnæðishlunnindi til tekna vegna dvalar hans í foreldrahúsum í Kópavogi, en kærandi á lögheimili í A-hreppi. Ekki er lagaheimild til þess að ákvarða skattskyld húsnæðishlunnindi í þessu tilfelli og eru þau því felld niður. Skattstjóri ákvað kæranda 15% álag á skattstofna vegna síðbúinna framtalsskila, en skattframtalið barst í kærufresti til hans. Álag þetta er ranglega ákvarðað, sbr. 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981. Að því athuguðu og með hliðsjón af skýringum kæranda er það niður fellt. Kærandi er einstætt foreldri og er álagningu opinberra gjalda, þ.m.t. ákvörðun barnabóta, hagað í samræmi við það.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja