Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 328/1987
Gjaldár 1986
Lög nr. 75/1981 — 7. gr. A-liður — 106. gr.
Vanframtaldar tekjur — Álag — Reiknað endurgjald — Sameignarfélag
Kærð er endurákvörðun skattstjóra á opinberum gjöldum kæranda árið 1986.
Málavextir eru þeir að við samanburð skattstjóra á innsendum launamiðum og tilfærðum launum í skattframtali kæranda árið 1986 kom í ljós að hann hefði vanframtalið tekjur að fjárhæð 80.717 kr. frá fyrirtækinu P. s.f., sem kærandi er eigandi að ásamt tveimur öðrum. Færði skattstjóri fjárhæð þessa kæranda til tekna og tók tillit til 15% álags samkvæmt heimild í 2. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Er þess krafist fyrir ríkisskattanefnd að álagsbeitingin verði felld niður þar sem um mistök hefði verið að ræða í framtali tekna hjá þeim aðila er annaðist framtalsgerð af hálfu kæranda.
Með bréfi dags. 24. febrúar 1987 krefst ríkisskattstjóri þess að úrskurður skattstjóra verði staðfestur.
Eftir atvikum er fallist á kröfu kæranda. Það athugist að kæranda bar að færa sér til tekna reiknað endurgjald vegna vinnu sinnar í þágu nefnds sameignarfélags, sbr. 2. mgr. 1. tl. A-liðs 7. gr. nefndra laga.