Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 341/1987

Gjaldár 1986

Lög nr. 75/1981 — 106. gr. 2. mgr  

Vanframtaldar tekjur — Álag

Málavextir eru þeir, að hinn 14. nóvember 1986, endurákvarðaði skattstjóri áður álögð opinber gjöld kærenda gjaldárið 1986 í framhaldi af bréfi sínu, dags. 28. október 1986. Byggðist endurákvörðunin á tekjufærslu vanframtaldra vinnulauna kæranda, V, frá S. að fjárhæð 305.479 kr. og sjúkradagpeninga 6.775 kr. frá sama aðila að viðbættu 25% álagi skv. 2. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Af hálfu kæranda, V, eru engin andmæli gegn umræddri tekjufærslu. Hins vegar er farið fram á, að álagið verði fellt niður, þar sem hreint gáleysi hafi valdið því, að umræddar tekjur voru ekki taldar fram til skatts. Hefðu launamiðar glatast og því ekki fylgt framtalsgögnum, þegar þau voru afhent þeim sérkunnáttumanni, er aðstoðaði kærendur við framtalsgerðina.

Í kæruúrskurði, dags. 5. desember 1986, hafnaði skattstjóri þeirri kröfu kæranda, að álagið yrði fellt niður. Svo sem fram kæmi í kæru virtist sökin liggja hjá kæranda sjálfum, þar sem gögnin hefðu ekki verið send umboðsmanni og skattframtalið síðan undirritað án þess að því væri veitt athygli, að mestan hluta tekna vantaði. Með tilliti til þessa og þeirrar staðreyndar, að ekkert hefði verið gert af hálfu kærenda til þess að leiðrétta álagninguna, sem svo augljóslega hlyti að vera röng, væri kröfu um niðurfellingu álagsins hafnað.

Í kæru til ríkisskattanefndar, dags. 16. desember 1986, ítrekar kærandi tilmæli sín um að álagið verði fellt niður, enda mætti ljóst vera, að ekki hefði verið um ásetningsbrot að ræða, þar sem kærandi hefði verið í fullu starfi hjá S. í mörg ár og mistök sem þessi aldrei áður komið fyrir.

Með bréfi, dags. 18. febrúar 1987, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu f.h. gjaldkrefjenda, að hinn kærði úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Að virtum málsatvikum þykja fram komnar skýringar eigi geta gefið tilefni til niðurfellingar álags skv. heimildarákvæðum 2. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Er kæruúrskurður skattstjóra því staðfestur.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja