Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 346/1987
Gjaldár 1986
Reglugerð nr. 748/1983 — 2. gr. Lög nr. 75/1981 — 30. gr. 1. mgr. E-liður 2. tl. — 30. gr. 2. mgr. — 100.
Trúfélag — Gjafir til trúfélags — Frádráttarheimild — Fastur frádráttur — Kærufrestur
I
Málavextir eru þeir, að til frádráttar tekjum í skattframtali sínu árið 1986 færði kærandi í reit 61 107.698 kr. sem gjafir til trúfélags, sbr. 2. tl. E - liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og reglugerð nr. 748, 3. nóvember 1983, um frádrátt vegna gjafa til menningarmála o.fl. Kvittanir fyrir framlögum kæranda fylgdu skattframtalinu. Kom þar fram, að móttakandi var X., trúfélag.
Með bréfi, dags. 25. júlí 1986, tilkynnti skattstjóri kæranda, að sú breyting hefði verið gerð á skattframtali hans árið 1986, að frádráttur vegna gjafa til kirkjufélaga takmarkaðist við 10% af tekjuskattsstofni gefanda og bæri því að lækka þennan frádrátt kæranda um 47.785 kr. í 59.913 kr. Í kæru til skattstjóra, dags. 26. ágúst 1986, mótmælti kærandi þessari breytingu skattstjóra og taldi sig hafa í öllu fylgt ákvæðum reglugerðar nr. 748/1983 varðandi færslu frádráttarins og ætti því fullan rétt á frádrætti þessum. Með kæruúrskurði hafnaði skattstjóri kröfu kæranda. Ódagsett afrit kæruúrskurðar skattstjóra liggur fyrir í málinu. Forsendur skattstjóra eru svohljóðandi: „Frádráttur v/gjafa til menningarmála leyfist aðeins til lækkunar tekjuskattsstofni og takmarkast við 10% af stofni skv. 2. tl. E-liðar 30. gr. nefndra laga. Hafa þessi 10% eða kr. 66.570 verið færð til lækkunar tekjuskattsstofni og samsvarar nefndur frádráttur föstum 10% frádrætti.“
II
Með kæru, dags. 18. janúar 1986, hefur kærandi skotið kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar og krefst þess, að tilfært framlag til menningarmála í skattframtali verði leyft til frádráttar tekjum með skírskotun til þeirra röksemda, sem fram koma í kærunni til skattstjóra. Tekur kærandi fram, að um sé að ræða frjáls framlög til X., sbr. reglugerð nr. 748/1983.
III
Með bréfi, dags. 22. apríl 1987, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu f.h. gjaldkrefjenda, að kærunni verði vísað frá ríkisskattanefnd, þar sem hún sé of seint fram komin.
IV
Hvorki dagsetning né póstlagningardagur hins kærða úrskurðar liggja fyrir í málinu. Verður því eigi óyggjandi byggt á því, að kæran sé of seint fram komin og er frávísunarkröfu ríkisskattstjóra því hrundið og kæran tekin til efnismeðferðar. Kærandi færði til frádráttar framlög til trúfélags þess, sem í málinu greinir. Byggist frádráttur þessi á þeirri heimild, sem um ræðir í 2. tl. E-lið 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Samkvæmt lagaákvæði þessu skulu þar umræddar gjafir sæta þeirri takmörkun á frádráttarbærni, að þær mega ekki fara yfir 10% af skattstofni gefenda, áður en gjöfin hefur verið dregin frá honum. Samkvæmt 2. mgr. nefnds töluliðs E-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981 ákveður fjármálaráðherra með reglugerð hvaða málaflokkar og stofnanir falli undir þennan tölulið. Um þetta hefur fjármálaráðherra sett reglugerð nr. 748 frá 3. nóvember 1983, um frádrátt vegna gjafa til menningarmála o.fl. Gjafir kæranda í máli þessu eru til trúfélags, sbr. fyrrnefnt lagaákvæði og d. lið 2. gr. reglugerðarinnar. Breyting sú, sem skattstjóri gerði og kærð hefur verið, miðaði að því að færa fjárhæð umrædds frádráttar til samræmis við fyrrnefnda takmörkun lagaákvæðisins um hámark frádráttarbærrar fjárhæðar. Sá annmarki er á meðferð skattstjóra, að hann hefur reiknað hámark frádráttarins í tilviki kæranda af skattstofni kæranda að frádregnum frádrætti þeim, sem um ræðir í 2. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, sbr. bréf skattstjóra, dags. 25. júlí 1986, þ.e.a.s. svonefndum föstum frádrætti. Slíkur frádráttur átti vitaskuld eigi við í tilviki kæranda, þar sem hann nýtir sér frádráttarheimild E-liðs 1. mgr. nefndrar lagagreinar. Málum er hins vegar þannig háttað í tilviki kæranda, að nefndur fastur frádráttur og frádráttur samkvæmt D- og E-liðum 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981 nema sömu fjárhæð 66.571 kr. svo sem kemur fram í kæruúrskurði skattstjóra eftir að fjárhæð þess frádráttar, sem deilt er um í máli þessu, hefur verið færð til lögmælts hámarks. Að því er tekur til fjárhæðar hefur skattstjóri byggt á fjárhæð fasts frádráttar og því í reynd á réttri fjárhæð, er hann færði hinn umdeilda frádráttarlið til samræmis við lögmælt hámark. Þrátt fyrir þessa ágalla á meðferð skattstjóra á málinu þykir eigi næg ástæða til þess að hnekkja hinni kærðu breytingu af þessum sökum. Með skírskotun til þess, sem hér hefur verið rakið, er kröfu kæranda í máli þessu hafnað.