Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 368/1987

Gjaldár 1986

Lög nr. 75/1981 — 7. gr. A-liður l. tl. — 30. gr. 1. mgr. A-liður 9. tl.  

Starfslokafrádráttur — Launatímabil — Ellilífeyrir — Ellilífeyrisgreiðsla vegna eldri ára

I

Málavextir eru þeir, að í skattframtali sínu árið 1986 gat kærandi þess að hann hygðist láta af störfum á árinu 1986 og leggja þá fram yfirlýsingu og greinargerð á þar til gerðu eyðublaði R3.08 vegna frádráttar samkvæmt 9. tl. A - liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 1. gr. laga nr. 119/1984, um breyting á þeim lögum. Kærandi færði að svo stöddu engan frádrátt í reit 36 í skattframtalinu. Næst gerðist það í málinu, að skattstjóra barst hinn 20. júní 1986 umrætt eyðublað útfyllt af kæranda og dagsett hinn 19. júní 1986. Fylgdu því tvö fylgiskjöl varðandi tekjur kæranda. Annars vegar var um að ræða bréf Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, dags. 2. maí 1986, til kæranda, þar sem fram kom, að kærandi hefði fengið greiddan ellilífeyri úi lífeyrissjóðnum á árinu 1985 fyrir tímabilið 1. janúar 1983 til 31. desember 1985 alls 490.400 kr., er sundurliðað var eftir árum. Hins vegar var lagt fram bréf Fjármálaráðuneytisins, launadeildar, dags. 12. júní 1986, þar sem upplýst var, að heildarlaun til kæranda voru alls 540.244 kr. á tímabilinu 1. maí 1985 til 30. apríl 1986. í fyrrgreindu eyðublaði R3.08 taldi kærandi þessar greiðslur að fullu til frádráttar auk ellilífeyris frá Tryggingastofnun ríkisins 121.087 kr. og lífeyrisgreiðslna frá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins tímabilið 1. janúar 1986 til 30. apríl 1986 79.751 kr. Samkvæmt þessu var frádráttarfjárhæð alls 1.231.482 kr. í greinargerð kæranda en hámark frádráttarbærrar fjárhæðar í reit 36 í skattframtalinu var 1.088.000 kr. gjaldárið 1986.

Við frumálagningu opinberra gjalda gjaldárið 1986 var ekki byggt á neinum frádrætti kæranda til handa í reit 36 í skattframtalinu. Með kæru, dags. 29. júlí 1986, krafðist kærandi þess, að tekið yrði tillit til framlagðrar skýrslu hans um nefndan frádrátt, enda hefði hann látið af störfum hinn 30. apríl 1986. í bréfi, dags. 2. október 1986, krafði skattstjóri kæranda um upplýsingar um launatekjur hans fyrir tímabilið 1. maí 1985 til 31. desember 1985 svo og ellilífeyrissgreiðslur og lífeyrissjóðsgreiðslur, sem honum hefðu verið greiddar fyrir sama tímabil. Umbeðnar upplýsingar gaf kærandi í bréfi, dags. 3. október 1986, og samkvæmt þeim námu þessir tekjuliðir kæranda umrætt tímabil alls 500.302 kr. Að þessum upplýsingum fengnum tók skattstjóri kæru kæranda til úrlausnar með kæruúrskurði, dags. 24. október 1986. Féllst hann á að heimila kæranda til frádráttar í reit 36 í skattframtali árið 1986 500.302 kr. og endurákvarðaði áður álögð opinber gjöld kæranda gjaldárið 1986 í samræmi við það.

II

Með kæru, dags. 30. október 1986, hefur kærandi skotið kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar. Krafa kæranda er sú, að ellilífeyrisgreiðslur úr Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins fyrir tímabilið 1. janúar 1983 til 31.desember 1984 samtals 281.647 kr. verði teknar sem tekjur ársins 1985, þar sem hann hefði fengið þær greiddar á því ári. Myndi tekjuskattsstofn kæranda lækka um 8/12 hluta af 281.647 kr. frá því sem skattstjóri ákvað, ef krafan næði fram að ganga, en starfslok hefðu verið hinn 1. maí 1986.

III

Með bréfi, dags. 25. mars 1987, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu f. h. gjaldkrefjenda:

„Að úrskurður skattstjóra, sem byggður er á upplýsingum sem fram koma í bréfi kærandans, dags. 3. október 1986, um launatekjur hans fyrir tímabilið 1. maí - 31. des. 1985, verði staðfestur.“

IV

Telja verður að með framlagningu yfirlýsingar og greinargerðar sinnar R3.08 ásamt fylgiskjölum hinn 20. júní 1986 hafi kærandi verið að fara fram á leiðréttingu skattframtals síns árið 1986. Skattstjóri sinnti þá eigi erindi kæranda svo sem rétt hefði verið en sýnist hafa ráðgert að taka það sem kæru. Þrátt fyrir þetta þykja eigi efni til þess, að þessi meðferð skattstjóra orki að neinu leyti á niðurstöðu málsins svo sem það liggur fyrir og málatilbúnaði er háttað. í hinum kærða úrskurði hefur skattstjóri dregið frá tekjum kæranda á skattframtali árið 1986 tekjur hans samkvæmt 1. tl. A - liðs 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, er hann hafði aflað á tímabilinu 1. maí 1985 til 31. desember 1985 samkvæmt skýrslu kæranda sjálfs þar um, en frádráttur þessi byggist á 9. tl. A - liðs 1. mgr. 30. gr. nefndra laga, sbr. 1. gr. laga nr. 119/1984, um breyting á þeim lögum. Hefur kærandi sætt sig við þessa niðurstöðu skattstjóra að öðru leyti en því, að hann krefst þess, að við ákvörðun þessa frádráttar verði tekið tillit til þeirra ellilífeyrisgreiðslna frá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins vegna áranna 1983 og 1984, sem inntar voru af hendi af sjóðsins hálfu á árinu 1985. Samkvæmt gögnum málsins m.a. bréfi Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, dags. 2. maí 1986, stafa þessar greiðslur frá umræddum árum, enda þótt þær hafi verið fyrst greiddar á tekjuárinu 1985. Samkvæmt þessu verður eigi talið, að hér sé um tekjur að ræða, sem kærandi hefur aflað á síðustu tólf starfsmánuðum sínum, áður en hann lét af störfum vegna aldurs, sbr. fyrrnefnt lagaákvæði. Verður því að hafna kröfu kæranda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja