Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 379/1987
Gjaldár 1986
Lög nr. 75/1981 — 30. gr. 1. mgr. C-liður 3. tl. — 106. gr.
Námsfrádráttur — Skólavottorð — Nám — Námstími — Sönnun — Sönnunargögn — Álag
Málavextir eru þeir, að í skattframtali sínu árið 1986 færði kærandi til frádráttar tekjum námsfrádrátt 43.357 kr. vegna 9 mánaða náms við Háskóla Íslands. Með bréfi, dags. 27. ágúst 1986, boðaði skattstjóri kæranda, að fyrirhuguð væri endurálagning opinberra gjalda hans gjaldárið 1986, þar sem ekki kæmi fram á skólamiða frá Háskóla Íslands að hann hefði stundað nám á árinu 1985. Ekki barst svar við þessu bréfi og með bréfi, dags. 17. september 1986, tilkynnti skattstjóri kæranda, að skattstofnar samkvæmt framtali árið 1986 hefðu verið hækkaðir um 54.196 kr. er væri offærður skólafrádráttur ásamt reiknuðu 25% álagi.
Í kæru, dags. 22. október 1986, kom fram af hálfu kæranda, að hann taldi sig eiga rétt á námsfrádrætti, þar sem hann hefði verið skráður til náms skólaárið 1984 — 1985 í Háskóla Íslands og stundað nám það skólaár. Upplýsingar um þetta kvaðst kærandi hafa fengið staðfestar frá skrifstofu skólans, þegar framtalsgerð fór fram og á þeim grundvelli hefði námsfrádrátturinn verið færður. Með vísan til þessa krafðist kærandi þess, að námsfrádrátturinn yrði látinn óbreyttur standa. Þá kom fram hjá kæranda að hann taldi ekki stætt á álagsbeitingu í þessu tilviki. Með kæruúrskurði, dags. 30. október 1986, hafnaði skattstjóri kröfu kæranda með vísan til þess, að samkvæmt gögnum frá Háskóla Íslands hefði hann ekki stundað nám við skólann á árinu 1985. Kærandi hefði fært sem námsfrádrátt 43.375 kr. (sic) vegna 9 mánaða náms við skólann, en samkvæmt 3. tl. C-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, ætti hann ekki rétt á námsfrádrætti. Þar sem hér væri um offærðan frádrátt að ræða, væri 25% álagi beitt samkvæmt 106. gr. nefndra laga.
Með kæru, dags. 27. nóvember 1986, hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar af hálfu kæranda. Er þess krafist aðallega, að breytingu skattstjóra verði hnekkt og hinn tilfærði námsfrádráttur í skattframtalinu verði að fullu tekinn til greina. Til vara er þess krafist, að álag það, sem skattstjóri beitti, verði niður fellt. Með kærunni fylgdi vottorð Háskóla Íslands, dags. 4. nóvember 1986, þar sem fram kemur, að kærandi hafi verið skráður í viðskiptadeild skólans síðan 1983. Hann hafi verið skráður í nám og tekið próf á vor- og haustmisseri 1984. A vor- og haustmisseri 1985 hafi hann einungis verið skráður í nám en engin próf tekið. Í kærunni segir svo: „í námi sem Háskóli Íslands býður upp á hafa námsmenn frelsi innan ákveðinna marka til þess að stjórna námi sínu og ákveða þar með próflok. Upp geta komið tilvik sem koma í veg fyrir að próftaka fari fram á tilsettum tíma, svo sem veikindi eða annað því um líkt. Gögn varðandi próftökur á ákveðnu tímabili sýna ekki fram á að nám hafi eigi verið stundað þann tíma þó svo að próftöku hafi verið frestað um stundarsakir vegna persónulegra aðstæðna. Því verður eigi unað að starfsmaður skattstofu úrskurði að nám í viðkomandi skóla hafi eigi verið stundað án þess að afla sér viðhlítandi upplýsinga um frestun prófa.“
Með bréfi, dags. 12. mars 1987, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.
Samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi stundað atvinnu 50 vikur á árinu 1985. Í vottorðum Háskóla Íslands, sem liggja fyrir í málinu, dags. 24. október 1986 og 4. nóvember 1986, kemur fram, að kærandi var skráður í viðskiptadeild skólans bæði vor — og haustmisseri 1985 en tók engin próf, en fyrrnefnda vottorðinu fylgdi yfirlit yfir námsferil kæranda við skólann. A skólamiða kemur fram, að kærandi hafi ekkert nám stundað við skólann á árinu 1985. Þegar það er virt, sem hér hefur verið rakið, þykir kærandi eigi hafa sýnt fram á, að hann uppfylli skilyrði til námsfrádráttar samkvæmt 3. tl. C-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, í skattframtali árið 1986. Er aðalkröfu hans því hafnað, en varakröfu um niðurfellingu álags þykir rétt að taka til greina, enda var það fyrst tilkynnt kæranda í endurákvörðun skattstjóra, dags. 17. sept. 1986.