Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 435/1987

Gjaldár 1986

Lög nr. 112/1985   Lög nr. 75/1981   Lög nr. 35/1960 — 8. gr.   Lög nr. 73/1952 — 9. gr.  

Barnabætur — Barnabótaauki — Barn — Framfærandi — Aðsetursskipti — Lögheimili — Hjón — Skilnaður — Hagstofa Íslands

Kærð er álagning opinberra gjalda gjaldárið 1986. Kæruefnið er ákvörðun barnabóta og barnabótaauka þetta gjaldár.

Málavextir eru þeir, að við frumálagningu opinberra gjalda kæranda gjaldárið 1986 voru kæranda ekki ákvarðaðar barnabætur og sérstakur barnabótaauki vegna barns hennar, X., sem fæddur er 4. október 1972. Í framhaldi af kæru til skattstjóra, dags. 28. ágúst 1986, krafðist umboðsmaður kæranda þess í bréfi, dags. 1. september 1986, að kæranda yrðu ákvarðaðar barnabætur og barnabótaauki vegna þriggja barna í stað tveggja. Svo virtist sem nafn sonar kæranda, X., hefði fallið niður af árituðu skattframtali kæranda. Við skilnað kæranda og A. á árinu 1984 hefði verið ákveðið, að kærandi hefði forræði barnanna. Í byrjun septembermánaðar 1985 hefði A. tilkynnt um breytt lögheimili X. án heimildar frá kæranda, en barnið hefði dvalist hjá föður sínum skamma hríð eða frá því í september 1985 þar til í desember sama ár. Hefði þessi dvöl ekki átt að hafa áhrif á heimilisfesti, barnabætur eða skattlagningu. Bæri því að telja barnið heimilisfast hjá kæranda í árslok 1985 og ákvarða kæranda barnabætur vegna þess. Var þess krafist, að kæranda yrðu reiknaðar barnabætur vegna þriggja barna eftir reglum um einstæð foreldri eða 61.200 kr., aukafjárhæð vegna eins barns innan 7 ára 10.200 kr. og sérstakan barnabótaauka vegna þriggja barna 61.200 kr. að frádreginni skerðingu 13.008 kr. eða alls sem barnabætur og barnabótaauka 119.592 kr. Þá var þess krafist, að lækkun útsvars vegna fjölskyldu yrði 4.896 kr.

Skattstjóri tók kæruna til úrlausnar með kæruúrskurði, dags. 9. febrúar 1987, og ákvað að kæranda skyldu ákvarðaðar barnabætur og barnabótaauki vegna nefnds barns frá 1. janúar 1985 til 1. júní 1985 og útsvarslækkun reiknuð einnig í samræmi við þetta. Skattstjóri byggði á því, að samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands hefði lögheimili X. verið flutt að B-götu, Hafnarfirði hinn 1. júní 1985 og síðan að H., hinn 9. september 1986.

Af hálfu umboðsmanns kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 19. febrúar 1987, og ítrekaðar þær kröfur, sem gerðar voru í kærunni til skattstjóra. Séu málsrökin þau, að tilkynning fyrrverandi eiginmanns kæranda til Hagstofu Íslands um aðsetursskipti barns þeirra sé ólögleg og óskuldbindandi fyrir kæranda og geti ekki leitt til þess, að kærandi verði svipt barnabótum vegna barnsins, er hún hafi fengið fullt forræði yfir við skilnað. Er bent á ákvæði 1. mgr. 9. gr. laga nr. 73/1952, um tilkynningar aðsetursskipta, svo og 1. mgr. 8. gr. laga nr. 35/1960, um lögheimili. Þessi lagaákvæði taki af allan vafa um það, að tilkynning um aðsetursskipti barns sé ekki gild nema með samþykki forráðanda. Auk þess að vera lögformlega ógild sé tilkynning fyrrverandi eiginmanns um aðsetursskipti barnsins beinlínis röng. Hann hafi tilkynnt, að X. hefði verið hjá honum frá 1. júní 1985, en hið rétta sé, að barnið hafi verið hjá honum frá septemberbyrjun 1985 og fram í desember sama ár. Er vísað til vottorðs S., dags. 11. febrúar 1987, þessu til stuðnings, en ljósrit þess fylgdi kærunni. Tekið er fram, að kærandi og fyrrverandi eiginmaður hafi á engan hátt verið að breyta forræði barnsins, heldur hafi það einungis farið skamma hríð til föður síns til reynslu. Þá fylgdi kærunni vottorð skólastjóra, dags. 15. desember 1986, varðandi skólavist X.

Með bréfi, dags. 18. maí 1987, fellst ríkisskattstjóri á kröfur kæranda í máli þessu.

Með vísan til skýringa kæranda og framlagðra gagna er fallist á framkomnar kröfur í máli þessu. Verða barnabætur gjaldárið 1986 71.400 kr. og sérstakur barnabótaauki samkvæmt lögum nr. 112/1985 22.176 kr. eða samtals 93.576 kr. Þá verður lækkun útsvars vegna fjölskyldu 4.896 kr.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja