Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 438/1987

Gjaldár 1986

Lög nr. 75/1981 — 31. gr. l.tl. — 32. gr. — 34. gr. — 38. gr. 4.tl. — 40. gr. — 54. gr. — 95. gr. — 96. gr.  

Lausafé — Fyrnanleg eign — Gjaldfærsla kostnaðarverðs fyrnanlegs lausafjár á kaupári — Fjárfestingarsjóðstillag — Málsmeðferð áfátt — Skilyrði frádráttarbærni fjárfestingarsjóðstillags

Málavextir eru þeir, að kærandi, sem rekur kranaleigu, keypti hinn 30. apríl 1985, bílkrana af A. h.f., Reykjavík, og var kaupverð hans 1.100.000 kr., sbr. sérstakt eyðublað um kaup og sölu eigna, sem fylgdi skattframtali hans árið 1986. í rekstrarreikningi sínum fyrir árið 1985 gjaldfærði kærandi þessa eign að fullu.

Með bréfi, dags. 22. júlí 1986, tilkynnti skattstjóri kæranda, að sú breyting hefði m.a. verið gerð á skattframtali hans árið 1986, að gjaldfærsla nefndrar kranabifreiðar væri óheimil og því felld niður. Hér væri um að ræða fyrnanlega eign í skilningi 32. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og bæri að fyrna hana samkvæmt ákvæðum 4. tl. 38. gr. laganna og færa til eignar á bókfærðu verði. Samkvæmt framtalsgögnum hefur skattstjóri eignfært umrædda kranabifreið og reiknað 20% almenna fyrningu af henni eða 220.000 kr. og fært kæranda til gjalda.

Í kæru til skattstjóra, dags. 13. ágúst 1986, var þessum breytingum mótmælt af hálfu kæranda. Kom þar fram, að gert hefði verið tilboð í verkefni hjá Vita— og hafnarmálastofnun að fjárhæð samtals 3.000.000 kr. og til þess verkefnis sérstaklega keyptur grindarbómukrani af árgerð 1969. Ekki hefði verið gert ráð fyrir því, að kraninn yrði notaður í önnur verkefni en þeim hefði þó að sjálfsögðu verið tekið, sbr. tekjuliði í rekstrarreikningi. Ekki sé hægt að gera ráð fyrir því, að endingartími þessa krana sé sá sami og tækja, sem eru í fullum rekstri og eru enn á eðlilegum afskriftartíma. Því bæri að beita ákvæðum 40. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og gjaldfæra eignina að fullu á kaupári samkvæmt þargreindri heimild. Mætti benda á m.a. til staðfestingar, að kraninn hefði ekki fengist húftryggður og varahlutir í þessa tegund og árgerð væru ófáanlegir og hefði það verið vitað við kaupin á krananum.

Með kæruúrskurði, dags. 3. desember 1986, hafnaði skattstjóri kröfu kæranda. Forsendur skattstjóra eru svohljóðandi:

„Í 34. gr. laga nr. 75/1981 eru ákvæði um gjaldfærslu fyrnanlegra eigna, sem verða ónothæfar. í 32. gr. eru taldar upp fyrnanlegar eignir og fellur umrædd kranabifreið í þann flokk. Bifreið þessi er enn á skrá hjá Bifreiðaeftirliti ríkisins undir númerinu R. Ljóst er því að bifreiðin er ekki ónýt. Þar af leiðir að 34. gr., sem heimilar gjaldfærslu, á ekki við. Ekki skiptir máli þótt húftrygging hafi ekki fengist né varahlutir. Telja verður því að hér sé um fyrnanlegt tæki í skilningi skattalaga að ræða.“

Kæruúrskurði skattstjóra hefur af hálfu kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 17. desember 1986. í bréfi, dags. 22. janúar 1987, greinir kærandi frá kröfugerð sinni í málinu. Aðalkrafa kæranda er sú, að breytingum skattstjóra verði hnekkt og gjaldfærsla umræddrar kranabifreiðar heimiluð, sbr. 40. gr. laga nr. 75/1981. Varakrafa kæranda er svohljóðandi: „Til vara, ef úrskurði verði ekki hnekkt, og þá með þeim breytingum, sem verða á niðurstöðum reikninga (eignfæra krana kr. 1.100.000 og gjaldfæra afskrift kr. 220.000), er óskað eftir því að tillit verði tekið til 10. gr. 1. nr. 8/1984, en þá er heimild til að leggja í fjárfestingarsjóð kr. 626.008, og fullnægt er skilyrðum laganna, að leggja inn minnst 50% af fjárfestingarsjóðstillegginu inn á bundinn reikning í innlendum banka fyrir 1. júní næsta ár á eftir.“

Með bréfi, dags. 30. apríl 1987, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Gerð er krafa um staðfestingu á úrskurði skattstjóra með vísan til forsendna hans.

Í kæru er verið að fara fram á heimild til gjaldfærslu krana skv. 40. gr. laga nr. 75/1981. Ríkisskattstjóri lítur svo á að nefnd grein eigi ekki við í tilviki kæranda þar sem þegar er ljóst að endingartími kranans, sem er árgerð 1969, er meiri en 3 ár. Um er að ræða fyrnanlega eign sem fyrna á með 20% fyrningu sbr. 4. tl. 38. gr. laga nr. 75 1981. í tilviki kæranda á 34. gr. s.l. ekki heldur við og vísast þar um til úrskurðar skattstjóra.

Varðandi varakröfu kæranda er ekki fallist á hana þar sem lagaheimild skortir til þess.“

Skattstjóri fór með hinar kærðu breytingar eftir ákvæðum 3. ml. 1. mgr. 95. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Réttara hefði verið að fara eftir 1. og 3. mgr. 96. gr. sömu laga við framkvæmd þessara breytinga. Eigi þykir þó næg ástæða til þess að hnekkja breytingunum af þessum ástæðum svo sem á stendur. Kærandi þykir eigi hafa sýnt fram á, að honum sé heimil sú gjaldfærsla kostnaðarverðs kranabifreiðarinnar, sem hann krefst. Er aðalkröfu hans því hafnað. Að gerðum breytingum skattstjóra nema hreinar tekjur kæranda af atvinnurekstri 1.609.020 kr. án frádráttar fjárfestingarsjóðstillags. Samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi lagt 320.000 kr. inn á bundinn reikning skv. 54. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 10. gr. laga nr. 8/1984, um breyting á þeim lögum, innan þess tímamarks, sem þar greinir. Þessa fjárhæð hefur skattstjóri heimilað kæranda til frádráttar tekjum. Hámark frádráttar fjárfestingarsjóðstillags er 40% af hreinum tekjum til skatts svo sem þær eru skilgreindar í fyrrnefndu lagaákvæði og meðal skilyrða fyrir frádrættinum er að skattaðili leggi a.m.k. 50% tillagsins inn á bundinn reikning. Að því virtu, sem hér hefur verið rakið, og málavöxtum að öðru leyti er fallist á varakröfu kæranda um leiðréttingu skattskila hans með tilliti til hækkunar fjárfestingarsjóðstillags til frádráttar, er ákvarðast 640.000 kr.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja