Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 439/1987

Sölugjald árin 1980 — 1983

Lög nr. 10/1960  

Sölugjald — Söluskattsskyld velta — Frádráttarbærni tapaðra sölutekna — Tapaðar kröfur, tímamörk — Afborgunarviðskipti — Eignarréttarfyrirvari — Söluskilmálar — Þvingunarúrræði seljanda vöru — Innheimtutilraunir — Álag

Kærð er endurákvörðun ríkisskattstjóra á sölugjaldi vegna allra söluskattstímabila rekstraráranna 1980, 1981, 1982 og 1983. Hin kærða endurákvörðun er byggð á skýrslu rannsóknardeildar ríkisskattstjóra, dags. 12. september 1984, um athugun á skattskilum kæranda gjaldárin 1981, 1982, 1983 og 1984 og bókhaldi og söluskattsskilum rekstrarárin 1980,1981, 1982 og 1983.

Í máli þessu liggja fyrir ítarlegar greinargerðir og gögn af hálfu aðila þess. Kærandi rekur húsgagnaverslun í Reykjavík. Samkvæmt gögnum málsins fer sala húsgagna m.a. fram með afborgunarkjörum og er þá gerður sérstakur skriflegur kaupsamningur, þar sem kærandi áskilur sér eignarrétt að hinu selda, þar til kaupandinn hefur efnt samninginn af sinni hálfu. Jafnframt hefur kærandi samkvæmt slíkum samningi „heimild til að höfða þegar í stað mál til heimtu skuldarinnar“, svo sem þar greinir, verði um vanskil að ræða af hálfu kaupanda. Eigi er ágreiningur með málsaðilum um tekjufærslu heildarandvirðis hins selda á söludegi. Hins vegar lýtur ágreiningur í máli þessu að því, hvernig með skuli fara í söluskattsuppgjöri kæranda, þegar svo háttar til að kaupandi efnir eigi greiðsluskyldu sína samkvæmt slíkum kaupsamningi. Eftir gögnum málsins hefur kærandi viðhaft í bókhaldi sínu þá reglu að bakfæra áður tekjufærða sölu um áætlaða fjárhæð vanskila, þegar þau voru orðin þriggja mánaða eða eldri. Var það gert mánaðarlega með þeim hætti að færa vanskil til frádráttar sölu og lækkunar á útistandandi skuldum vegna afborgunarsölu. Sérstök leiðrétting á færslum þessum var gerð í árslok hvers árs og þá miðað við það, að tapaðar viðskiptakröfur væru allar vanskilakröfur vegna afborgunarviðskipta, sem voru þriggja mánaða og eldri. Við hinar kærðu endurákvarðanir hafnaði ríkisskattstjóri þessari uppgjörsaðferð kæranda með þeim rökum, að eigi þætti það fá staðist að áætla skuldatöp eftir umræddri reglu án þess að fullreynt væri að innheimta sérhverja skuld með honum tiltækum þvingunarúrræðum. Ríkisskattstjóri áætlaði því kæranda söluskattskylda veltu öll söluskattstímabil rekstraráranna 1980, 1981, 1982 og 1983 til viðbótar áður framtalinni söluskattsskyldri veltu. Af hálfu kæranda er því haldið fram, að framangreind framtalsaðferð hans sé í samræmi við reynslu, venju, og er sú staðhæfing studd gögnum og skýringum, m. a. um það hvernig staðið hafi verið að innheimtutilraunum vanskilaskulda. Hefur hann mótmælt afstöðu ríkisskattstjóra og gerir svofelldar kröfur í málínu: Aðalkrafa að viðbótarálagning ríkisskattstjóra verði felld niður, sbr. hér að framan og framkomnar greinargerðir af hálfu kæranda.

Varakrafa að söluskattsviðbót ríkisskattstjóra verði lækkuð og álag verði fellt niður

eða stórlega lækkað. Fyrir kröfum þessum færir kærandi fram svofelld rök:

„1. Í meðfylgjandi greinargerð E. hf., dags. 19. ágúst 1985, er gerð nákvæm grein fyrir ógreiddu sölugjaldi, ef við það er miðað að ekki eigi að taka á neinn hátt tillit til vanskila. Samkvæmt útreikningum endurskoðunarskrifstofunnar, nemur ógreitt sölugjald kr. 59.573 og ógreiddir dráttarvextir kr. 571.147, eða samtals kr. 630.720. Sést af þessu, að áætlanir ríkisskattstjóra eru óraunhæfar, sérstaklega er það áberandi að því er varðar árið 1983, en það ár ofgreiddi kærandi söluskatt sinn, þar sem hann hóf að greiða söluskatt af brúttóveltu sinni án frádráttar vegna vanskila, en greiddi jafnframt söluskatt af innborguðum vanskilum þriggja mánaða og eldri, án tillits til þess hvort þau vanskil höfðu verið dregin frá á eldri árum eða voru vegna vanskila yfirstandandi árs. Sést af þessu að áætlanir eru óhæfilega miklar.

Í úrskurði ríkisskattstjóra frá 8. maí 1985, bls. 3 rekur ríkisskatt stjóri innheimtu kæranda á útistandandi viðskiptakröfum sínum og kemst að þeirri niðurstöðu að í árslok 1983 hafi kæranda tekist að innheimta 58% af vanskilakröfum 1980—1982, og sé því engan veginn raunhæft að telja allar þær vanskilakröfur, sem orðnar eru þriggja mánaða tapaðar. Ljóst er að vanskil hafa stóraukist á síðustu árum og er því ekki óeðlilegt að frambúðar vanskil séu metin án þess að þau séu nákvæmlega tíunduð hver fyrir sig vegna mikils fjölda krafna. 42% af framtöldum van skilum eða af kr. 3.370.323, eins og ríkisskattstjóri virðist reikna með í útreikningum sínum, er ekki óeðlileg aðferð. Að minnsta kosti ætti ríkisskattstjóri að taka til greina yfirlýsingu lögfræðiskrifstofu frá 4. júní 1985, er lögð hefur verið fram, þar sem því er lýst yfir að kröfur að fjárhæð kr. 533.233,28 séu mjög vafasamar og glataðar.

2. Þá er krafist þess að álag verði fellt niður sbr. 6. mgr. 21. gr. laga nr. 10/1960 um söluskatt. Skal í þessu sambandi bent á að reglur skortir um skattalega meðferð sölu sem hér um ræðir og er því eðlilegt að álagi sé sleppt, ef ekki er fallist á kröfur kæranda. Til vara er þess krafist að álag lækki með hliðsjón af yfirliti E. hf., en þar er tekið tillit til raunverulegs greidds sölugjalds, sem ekki er gert í úrskurði ríkisskattstjóra.“

Þrautavarakrafa „er sú að ógreitt sölugjald og álag verði talið kr. 854.193 eins og ríkisskattstjóra reiknast miðað við fullt álag, að frá dregnu sölugjaldi og álagi af áætluðum töpuðum viðskiptakröfum samkvæmt framanrituðu, eða kr. 2.020.052 miðað við að 42% sé óinnheimtanlegt, eða a.m.k. af kr. 974.323, eins og ríkisskattstjóri taldi tapað í áætlunum sínum.“

Af hálfu ríkisskattstjóra er þess krafist í málinu, að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og að kröfum kæranda verði að öllu leyti hafnað. Gerir ríkisskattstjóri grein fyrir kröfu sinni og var kæranda gefinn kostur á að gera athugasemdir við hana. Var það gert af hálfu kæranda.

Á það verður að fallast með ríkisskattstjóra að af hálfu kæranda þykir eigi hafa verið nægilega sýnt fram á, að umræddar útistandandi kröfur teljist tapaðar í skilningi skattalaga eftir þeirri aðferð sem kærandi notar við mat sitt á því. Er því aðalkröfu kæranda hafnað. Að því er varðar varakröfu hans, þykja eigi efni til annars en að leggja til grundvallar framlagða skýrslu E. hf., dags. 19. ágúst 1985, varðandi fjárhæð ætlaðs ógreidds sölugjalds og er þá ekki tekið tillit til meintra vanskila kaupenda húsgagna, þar eð krafa þar að lútandi þykir eigi nægilega rökstudd. Að virtu eðli ágreiningsefnis þess, sem hér er til úrlausnar og með skírskotun til málsatvika, þykir rétt að fella niður álag vegna síðbúinna sölugjaldsskila. Er því fallist á varakröfu kæranda að þessu marki og kemur þá þrautavarakrafa hans ekki til skoðunar. Vegna áhrifa niðurstöðu þessa úrskurðar á sölugjaldsskil kæranda öll söluskattstímabil rekstrarársins 1984 og fjögurra fyrstu tímabila ársins 1985, sbr. áðurnefnda skýrslu E. hf., þykir rétt að benda kæranda á að láta innheimtumanni ríkissjóðs í té leiðréttar söluskattsskýrslur fyrir sérhvert þessara tímabila, sbr. t.d. úrskurði ríkisskattanefndar nr. 132 og 133 frá árinu 1986, enda er sölugjald vegna þeirra tímabila ekki undir kærumeðferð eftir 13. gr. laga nr. 10/1960 um söluskatt.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja