Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 446/1987

Gjaldár 1985

Lög nr. 75/1981 — 13. gr. — 29. gr. 2. mgr. — 31. gr. 1. tl. — 32. gr. — 44. gr. 1. mgr.  

Sendibifreið — Fyrnanleg eign — Atvinnutæki — Upphafstími atvinnurekstrar — Fyrningartími eignar, upphaf — Almenn fyrning — Sérstök fyrning — Söluhagnaðarfyrning — Tekjufærsla frestaðs söluhagnaðar með álagi — Álag — Kæruúrskurður skattstjóra — Endurákvörðun skattstjóra — Kröfugerð ríkisskattstjóra

Málavextir eru þeir, að skattframtali kæranda árið 1985 fylgdi ársreikningur vegna sendibifreiðar. Í tekjuhlið rekstrarreikningsins var einungis um að ræða tekjufærðan framreiknaðan söluhagnað frá árinu 1982. Gjaldaliðir voru skráning bifreiðar 1.190 kr. og trygging 1.255 kr. svo og fyrningar samtals að fjárhæð 184.633 kr. Samkvæmt fyrningarskýrslu var þar annars vegar um að ræða almenna fyrningu sendibifreiðar (A) 44.000 kr. og hins vegar fyrningu á móti söluhagnaði 140.633 kr. sbr. 1. ml. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Bifreið þessi var eina eignin í reikningsskilum þessum og skuldir voru engar tilgreindar.

Með bréfi, dags. 14. nóvember 1986, tilkynnti skattstjóri kæranda, að bifreiðin A hefði ekki verið notuð til tekjuöflunar skv. skattframtali 1985. Yrði því ekki á það fallist, að hún teldist til fyrnanlegra eigna, en fyrnanlegar eignir væru varanlegir rekstrarfjármunir, sem notaðir væru til öflunar tekna í atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, sbr. 32. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Væri fyrirhugað að fella niður fyrningu bifreiðarinnar svo og kostnað 2.445 kr., sem gjaldfærður væri á rekstrarreikningi, sbr. 2. mgr. 29. gr. og 1. mgr. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Þá væri jafnframt fyrirhugað að fella niður hreina eign 35.367 kr. í reit 01 í skattframtali og eignfæra bifreiðina A í lið E2 á kaupverði 220.000 kr. Þá yrði söluhagnaður, sem frestað var á framtali 1983 að skattleggja, tekjufærður að viðbættu 10% álagi eða með samtals 205.785 kr., sbr. 13. gr. laga nr. 75/1981, enda hefði ekki verið aflað eigna, sem fyrna mætti á móti söluhagnaði.

Í bréfi kæranda, dags. 17. nóvember 1986, kom fram, að umrædd bifreið hefði verið keypt á árinu 1984 í þeim tilgangi að afla atvinnutækis, sem dóttir hans, gæti starfað við. Af heilsufarsástæðum hefði hún ekki getað hafið störf. Var þess krafist, að bifreiðin yrði viðurkennd sem atvinnutæki.

Með bréfi, dags. 2. desember 1986, tilkynnti skattstjóri kæranda, að áður álögð opinber gjöld hans gjaldárið 1985 hefðu verið endurákvörðuð vegna þeirra breytinga, sem boðaðar voru í bréfinu frá 14. nóvember 1986. Tók skattstjóri m.a. fram, að ekki skipti máli í þessu sambandi, þótt bifreiðin kynni að vera ætluð til tekjuöflunar. Þá væri aðeins heimilt að draga rekstrarkostnað frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, sbr. 2. mgr. 29. gr. og 31. gr. laga nr. 75/1981. Engar tekjur af atvinnurekstri væru færðar á rekstrarreikning. Félli gjaldfærður kostnaður því niður. Kærandi mótmælti breytingum skattstjóra í kæru, dags. 29. desember 1986, og vísaði til fyrri skýringa. Þá gat hann þess, að hann hefði haft tekjur af bifreiðinni á árinu 1986. Með kæruúrskurði, dags. 24. mars 1987, hafnaði skattstjóri kröfum kæranda með því að bifreiðin A hefði ekki verið notuð til tekjuöflunar á árinu 1984.

Með kæru, dags. 26. mars 1987, hefur kærandi skotið kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar og krefst þess, að ársreikningur sá, er framtalinu fylgdi, verði tekinn til greina. Ítrekar kærandi áður fram komnar skýringar og röksemdir.

Með bréfi, dags. 4. maí 1987, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:

„Gerð er krafa um frávísun frá ríkisskattanefnd þar sem ekki er fyrir hendi kæranlegur úrskurður til hennar. Sá úrskurður sem kærandi vitnar í er dags. 24. 03. 1987 og með kærufresti til skattstjóra.“

Jafnframt því að fella fyrrnefndan kæruúrskurð út af álagningu opinberra gjalda kæranda gjaldárið 1985 endurákvarðaði skattstjóri sama dag áður álögð opinber gjöld kæranda gjaldárið 1986 út af hliðstæðu ágreiningsefni það gjaldár. Engin ástæða er að álíta að kærandi sé að kæra þessa endurákvörðun, enda á kæran efni sínu samkvæmt við breytingar skattstjóra gjaldárið 1985. Er framkominni frávísunarkröfu ríkisskattstjóra því hafnað. Kærandi þykir eigi hafa stutt kröfur sínar þeim gögnum og rökum, að efni séu til þess að hagga við þeim breytingum, sem skattstjóri gerði á skattframtali hans árið 1985.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja