Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 458/1987

Gjaldár 1986

Lög nr. 75/1981 — 40. gr. — 41. gr.  

Fyrnanleg eign — Fyrnanlegt lausafé — Gjaldfærsla — Endingartími fyrnanlegs lausafjár — Eignasamstæða — Tímamörk gjaldfærsla — Gjaldfærsla eigna og eignasamstæðna án tillits til endingartíma — Hámarksfjárhæð gjaldfærslu eigna og eignasamstæðna — Gjaldfærsla kostnaðarverðs lausafjár með tilliti til endingartíma — Lausafé

Málavextir eru þeir, að með úrskurði uppkveðnum 3. nóvember 1986, gerði skattstjóri m.a. eftirfarandi breytingar á framtalsgögnum og skattframtali kæranda 1986:

„Skv. 41. gr. laga nr. 75/1981 er heimilt að færa kostnaðarverð einstakra eigna eða eignasamstæðna að fullu til gjalda á því ári sem þeirra er aflað, ef kostnaðarverð þeirra er undir kr. 61.200.

Gjaldfærð tölva kr. 65.800 er því ekki heimilt að færa að fullu til frádráttar tekjum á kaupári sbr. 41. gr. né fellur hún undir ákvæði 40. gr. sömu laga.

Á efnahagsreikningi færist því tölva kr. 65.800 (sic), en til gjalda á rekstursreikningi fyrning kr. 13.160.“

Úrskurði skattstjóra hefur af hálfu kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar. Er þess krafist, að heimilað verði að færa alla fjárhæðina, þ.e. 65.800 kr., til gjalda á árinu 1985. Að sögn var kostnaðarverð umræddrar tölvu með skjá 58.010 kr., en aukaskjár sem keyptur var með henni kostaði 7.790 kr. Kærandi heldur því enn fremur fram, að tölvan sé orðin úrelt, þar sem framþróun á þessu sviði hafi orðið mikil á árunum 1985 og 1986. Sé því heimilt að færa kostnaðarverð hennar að fullu til gjalda árið 1985, sbr. 40. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Kröfugerð ríkisskattstjóra f.h. gjaldkrefjenda, dags. 25. apríl 1987, er á þá leið að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans. Kærandi hafi ekki sýnt fram á að tölva sem keypt var á árinu 1985, sé þegar orðin úrelt.

Kærandi þykir ekki hafa fært sönnur á endingartíma umræddrar eignar, sbr. 40. gr. laga nr 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Ennfremur verður að líta svo á, að um sé að ræða eignasamstæðu á kostnaðarverði ofan þeirra marka, er frá greinir í 41. gr. nefndra laga. Þykir því bera að synja kæranda um hina umkröfðu gjaldfærslu.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja