Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 468/1987

Gjaldár 1986

Lög nr. 75/1981 —10 32. gr. — 38. gr. — 40. gr. — 41. gr. — 99. gr. — 100. gr. — 106. gr. 1. og 3. mgr.  

Fyrnanleg eign — Fyrningarhlutfall — Gjaldfærsla kostnaðarverðs lausafjár með tilliti til endingartíma — Lausafé — Gjaldfærsla kostnaðarverðs eigna og eignasamstæðna án tillits til endingartíma — Síðbúin framtalsskil — Álag — Kæruframtal — Kærumeðferð — Innheimta opinberra gjalda — Valdsvið ríkisskattanefndar

Málavextir eru þeir, að kærendur töldu ekki fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 1986 og sættu því áætlun skattstjóra á skattstofnum við frumálagningu opinberra gjalda þetta gjaldár. Skattstjóri hafði móttekið skattframtal kærenda árið 1986 hinn 2. júlí 1986 samkvæmt áritun hans á framtalið um móttöku þess. Tók hann skattframtalið sem kæru, sbr. 2. ml. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Áður en skattstjóri kvað upp kæruúrskurð krafði hann kæranda, X., með bréfi, dags. 29. október 1986, um nákvæma sundurliðun á gjaldaliðnum „skrifstofuvörur, tölvubúnaður o.fl.“ 179.411,05 kr. á rekstrarreikningi fyrir árið 1985 vegna verkfræðistarfa hans. Skyldu ljósrit gagna til staðfestingar á kostnaði fylgja. Kærandi svaraði með bréfi, dags. 30. október 1986, og fylgdu bréfinu umbeðnir reikningar og fylgiskjöl úr rekstri kæranda árið 1985. Kærandi tók fram, að kaup á tölvu með milligöngu Ríkisskips hafi verið gert til þess að njóta afsláttar „sem ríkisfyrirtæki og Innkaupastofnun Ríkisins fá hjá viðkomandi söluaðila tölvubúnaðarins.“.

Með kæruúrskurði, dags. 15. desember 1986, féllst skattstjóri á að leggja skattframtalið til grundvallar álagningu opinberra gjalda kærenda gjaldárið 1986 með þeirri breytingu, að skattstjóri felldi niður gjaldfært kostnaðarverð Macintosh 512k tölvu 93.873 kr. á rekstrarreikningi, er óheimilt væri að gjaldfæra, sbr. 41. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Væri þessi eign færð til eignar á efnahagsreikningi og fyrnd með 20% eða 18.774 kr., sbr. 32. og 38. gr. nefndra laga. Þá bætti skattstjóri 15% álagi á skattstofna samkvæmt framtalinu þannig breyttu vegna síðbúinna framtalsskila, sbr. heimildarákvæði 2. ml. 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, enda hefði ekki verið sýnt fram á, að þær ástæður hefðu legið fyrir, er leiddu til þess að fella bæri álagið niður samkvæmt ákvæðum 3. mgr. greinarinnar.

Með kæru, dags. 13. janúar 1987, hefur kæruúrskurði skattstjóra af hálfu kærenda verið skotið til ríkisskattanefndar. í bréfum, dags. 25. mars 1987 og 1. apríl 1987, er lögð fram kröfugerð kærenda. Er þess annarsvegar krafist, að breytingu skattstjóra varðandi meðferð á tölvu verði hrundið og gjaldfærsla kostnaðarverðs hennar verði heimiluð. Þá er þess hins vegar krafist, að álag það (15%), sem skattstjóri bætti við skattstofna kæranda vegna síðbúinna framtalsskila, verði fellt niður.

Varðandi fyrrnefnda kæruefnið færir kærandi fram svofelldan rökstuðning í bréfi, dags. 25. mars 1987:

„Sú breyting er gerð á skattframtali umbjóðanda okkar með vísan til 41. gr. laga 75/1981 um tekju- og eignarskatt að kaup hans á Maclntosh 512 K tölvu kr. 93.873 eru færð til eignar og hún síðan afskrifuð um 20% skv. 32. og 38. gr. 1. 75/1981. Hagnaður og hrein eign hækkuð samsvarandi. Umbjóðandi okkar mótmælir alfarið þessari breytingu og krefst þess að hann fái að gjaldfæra tölvubúnaðinn að fullu á kaupári sbr. 40. gr. 1. 75/1981 en í þeirri grein segir að „Þrátt fyrir ákvæði 38. gr. er heimilt að færa kostnaðarverð lausafjár, sem hefur skemmri endingartíma en þrjú ár, að fullu til gjalda á því ári þegar eignanna er aflað og þær teknar í notkun“.

Umbjóðandi okkar rökstyður þessa kröfu sína þannig:

„Í framtali eru tíundaðar fullar afskriftir af kaupum á tölvubúnaði (einkatölvu — Maclntosh) á árinu 1985. Við endurskoðun hafa slíkar afskriftir verið lækkaðar niður í 20% á ári, sbr. gildandi reglur um skrifstofutæki. Undirritaður telur að dreifing afskrifta slíks tölvu búnaðar fái ekki staðist. Afskriftir, eða eins og það heitir alþjóðlega, „rýrnun andvirðis“ (depreciation), eru leyfðar til að skapa eðlilegan grundvöll fyrir endurnýjun á nauðsynlegum atvinnutækjum. Umræddur tölvubúnaður er afgerandi í starfi mínu sem verkfræðingur og órjúfanlegur hluti starfsgrundvallar míns. Eins og auðveldlega má staðfesta hjá söluaðilum, þá er líftími alls slíks búnaðar í upphaflegu formi mjög skammur. í tilfelli umrædds tölvubúnaðar, frá miðju ári 1985, þá varð sá búnaður án breytinga, úreltur í lok árs 1985. Ástæður úreldingar voru að framleiðandi breytti stjórnkerfi, innra minni, geymslugetu ytri minna, tengingum harðra diska og prenturum. Slíkt leiddi af sér að nauðsynleg endurnýjun forrita (stöðugar endurbætur) varð óframkvæmanleg á vélbúnaðinn, en endurnýjun forrita er forsenda bæði notkunar búnaðarins og starfsgrundvallar. í byrjun árs 1986 var því búnaður minn úreltur án verulegra endurbóta. í mínu tilfelli fjárfesti ég í búnaðinum á árinu 1986 u.þ.b. kr. 65.000.- til að gera búnaðinn sambærilegan við endurbættan nýjan búnað framleiðanda. Var búnaður minn þá aftur orðinn samsvarandi nýjum búnaði. Framleiðandi hefur nú boðað nýjar breytingar, sem munu útheimta ekki minni fjárfestingar til að gera búnaðinn samsvarandi nýjum búnaði frá framleiðanda, á meðan útsöluverð nýs búnaðar er óbreytt frá útsöluverði þess búnaðar sem hann kemur í staðinn fyrir. í ljósi fyrrnefnds, er í ítrustu tilfellum hægt að afskrifa tölvubúnað (einkatölvur) á tveimur árum, en miðað við hvað tækni þessa búnaðar fleygir hratt fram er eitt ár raunhæfari viðmiðun“.“

Að því er álagið varðar hafa þær skýringar verið gefnar á síðbúnum framtalsskilum, að annir umboðsmanns kærenda, er séð hafi um framtalsgerðina, hafi valdið drættinum svo og fjærvera kærenda erlendis. í bréfi, dags. 1. apríl 1987, kemur fram af hálfu kærenda, að framtalsskil hafi áður verið innan tilskilinna tímamarka. Þá eru afleiðingar hinna síðbúnu framtalsskila gjaldárið 1986 reifaðar, m.a. áhrif áætlunar skattstofna á innheimtu og fyrirframgreiðslur.

Með bréfi, dags. 18. maí 1987, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:

„Gerð er krafa um staðfestingu á úrskurði skattstjóra með vísan til forsendna hans. Ríkisskattstjóri lítur svo á að kærandi hafi ekki sýnt fram á að endingartími tölvunnar Macintosh 512 K sé skemmri en þrjú ár. Ljóst er af kæru að kærandi notar enn umrædda tölvu og það breytir engu um endingartíma hennar þó framleiðendur breyta næstu framleiðslu af tölvunni (þróa hana). Það styður það, að endingartími tölvunnar sé lengri en kærandi vill halda fram, að framleiddur er búnaður til að gera eldri tölvur sambærilegar við endurbættar tölvur framleiðanda en skv. kæru hefur kærandi keypt slíkan búnað og notar ásamt tölvunni. Ekki er fallist á niðurfellingu álags þar sem ekki hefur verið sýnt fram á tilvik kæranda sé þess eðlis að 3. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981 eigi við.“

Af þeim gjaldalið, sem fyrr greinir, samtals að fjárhæð 179.411,05 kr., hefur skattstjóri eigi leyft að fullu til gjalda kostnaðarverð tölvu af gerðinni Macintosh 512k 93.873 kr., sbr. reikning frá Ríkisskip, dags. 16. september 1985, en ljósrit hans liggur fyrir í málinu. í hinum kærða úrskurði styður skattstjóri þessa ákvörðun sína við 41. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, er heimilar gjaldfærslu kostnaðarverðs einstakra eigna eða eignasamstæðna undir 82.600 kr. gjaldárið 1986 að fullu á því ári, þegar þeirra er aflað, þótt endingartími sé lengri en þrjú ár. Kærandi vill í kröfugerð sinni fyrir ríkisskattanefnd byggja gjaldfærslu þessarar eignar á ákvæðum 40. gr. fyrrnefndra laga, er heimilar færslu kostnaðarverðs lausafjár, sem hefur skemmri endingartíma en 3 ár, að fullu til gjalda á því ári, þegar eignanna er aflað og þær teknar í notkun, þrátt fyrir ákvæði 38. gr. laganna. Að virtum málsatvikum og þess, er fram kemur í kröfugerð ríkisskattstjóra, þykir kærandi eigi hafa sýnt fram á, að hann uppfylli skilyrði nýnefndrar lagagreinar til þar umræddrar gjaldfærslu. Er kröfu hans því hafnað varðandi þetta kæruatriði. Kröfu kærenda um niðurfellingu álags þykir með hliðsjón af skýringum þeirra mega taka til greina að þessu sinni. Rétt þykir að taka fram í tilefni af málflutningi kærenda í bréfi, dags. 1. apríl 1987, að eigi verður séð, að skattframtal þeirra árið 1985 hafi borist skattstjóra innan tilskilinna tímamarka. Að öðru leyti liggja eigi fyrir í málinu gögn um fyrri framtalsskil. Vegna þessa bréfs kærenda þykir og rétt að taka fram, að kærumeðferð sú, sem kveðið er á um í 99. og 100. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, tekur eigi til ágreiningsefna varðandi innheimtu álagðra opinberra gjalda. Er það því eigi á valdsviði ríkisskattanefndar að fjalla um þau atriði.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja