Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 482/1987
Gjaldár 1986
Lög nr. 75/1981 — 106. gr.
Síðbúin framtalsskil – Álag – Vítaleysisástæður – Framtalsfrestur – Ríkisskattstjóri – Álagsheimild – Greinargerð með lagafrumvarpi – Tilgangur lagaákvæðis – Ríkisskattanefndarúrskurðir – Forsendur kæruúrskurðar skattstjóra
I.
Málavextir eru þeir, að af hálfu kæranda var ekki talið fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 1986. Við frumálagningu opinberra gjalda það ár sætti kærandi því áætlun skattstjóra á skattstofnum að viðbættu 25% álagi samkvæmt heimildarákvæðum l. ml. 1. mgr. l06. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.
Skattframtal kæranda árið 1986, sem ekki er dagsett, hafði borist skattstjóra hinn 11. júlí 1986 samkvæmt áritun hans á framtalið um móttöku þess. Með kæru, dags. 26. ágúst 1986, fór umboðsmaður kæranda þess á leit, að hið innsenda skattframtal yrði lagt til grundvallar álagningu opinberra gjalda kæranda gjaldárið 1986 án álags með vísan til 3. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, þar eð ógerlegt hefði reynst að ljúka framtalsgerð kæranda í lögmæltum framtalsfresti sökum vinnuálags á skrifstofu hans, umboðsmannsins. Þá var vísað til fyrri framkvæmdar skattstjóra í þessum efnum.
II.
Með kæruúrskurði, dags. 21. apríl 1987, féllst skattstjóri á að leggja skattframtalið til grundvallar álagningu opinberra gjalda kæranda gjaldárið 1986 að viðbættu 15% álagi á skattstofna samkvæmt því vegna síðbúinna framtalsskila, sbr. heimildarákvæði 2. ml. 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Tekur skattstjóri fram í kæruúrskurðinum, að óumdeilt sé, að skattframtalið hafi borist hinn 11. júlí 1986. Ekki hafi verið fyrir hendi nokkurt formlegt samkomulag varðandi móttöku skattframtala til álagningar án álags utan þeirrar formlegu heimildar, sem veitt hafi verið með bréfi ríkisskattstjóra, dags. 9. maí 1986, en skattframtöl skyldu hafa borist fyrir hádegi þann 20. júní 1986 samkvæmt þessu bréfi. Þá víkur skattstjóri að almennum og sérstökum varnaðarsjónarmiðum viðvíkjandi álagsbeitingu. Tekur hann fram, að heimild til álagsbeitingar hafi verið fyrir hendi þegar frá og með 20. júní 1986, þar eð um formlegan lokafrest hefði verið að ræða. Þá segir svo í þessum kæruúrskurði skattstjóra: „Eigi verður á það fallist að ríkisskattanefnd hafi gert óvirkt heimildarákvæði 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981 með því að móta þá réttarreglu, að álag skuli fella niður hverju sinni komi fram um það krafa byggð á þeim forsendum að annir hafi hamlað framtalsskilum. — Eigi verður heldur ráðið að þeir úrskurðir ríkisskattanefndar sem vísað er til hafi fordæmisgildi í máli þessu, þar eð nákvæmar forsendur fyrir niðurfellingu álags koma eigi fram, en niðurfelling álags rökstudd með orðasambandinu „eftir atvikum“.“ Síðan segir, að með vísan til framanritaðs verði hvorki á það fallist, að sönnuð hafi verið tilvist þeirrar réttarreglu, að armir umboðsmanns séu svo óviðráðanleg atvik að fella beri niður álag, sbr. ákvæði 3. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, né að fyrirsjáanlegar annir umboðsmanns séu einar sér orsök síðbúinna framtalsskila. Að lokum vísar skattstjóri til síðbúinna framtalsskila kæranda gjaldárið 1985, en þá hafi skattframtal borist 4. júlí þ.á. Með hliðsjón af því þætti ekki hafa verið sýnt fram á, að síðbúin framtalsskil árið 1986 væru einstakt, tilfallandi og óviðráðanleg tilvik. Hefði kæranda borið að gera viðeigandi ráðstafanir í tíma.
III.
Með kæru, dags. 25. apríl 1987, hefur umboðsmaður kæranda skotið kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar. Krafa umboðsmannsins er sú, að álag það (15%), sem skattstjóri bætti við skattstofna vegna síðbúinna framtalsskila, verði fellt niður. Er vísað til 1. og 3. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og athugasemda við þá grein í frumvarpi til laga um tekjuskatt og eignarskatt, er lagt var fram á 99. löggjafarþingi 1977 – 1978, og varð að lögum nr. 40/1978. Telur umboðsmaður að þarna komi skýrt fram, að löggjafinn ætlist til, að álagi sé því aðeins beitt, ef skattaðili beri sjálfur ábyrgð á því, sem aflaga hafi farið í framtalsgerð hans eða framtalsskilum, þ.e.a.s. að skattaðili vanræki framtalsskil sín af yfirlögðu ráði eða sýni af sér vítavert hirðuleysi. Þar sem ekki sé um slíkt að ræða í tilviki kæranda sé beiting viðurlaga ósanngjörn gagnvart honum. Vísað er til kærunnar til skattstjóra varðandi skýringar á þeim drætti, sem varð á framtalsskilunum. Þá víkur umboðsmaðurinn að misræmi í beitingu álags milli skattumdæma.
IV.
Með bréfi, dags. 30. maí 1987, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu, f.h. gjaldkrefjenda:
„Gerð er krafa um staðfestingu á álagsbeitingu skattstjóra. Ekki hefur verið sýnt fram á að tilvik kæranda sé þess eðlis að 3. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt geti átt við.“
V.
Skattstjóri ákvað að beita kæranda 15% álagi vegna síðbúinna framtalsskila skv. heimildarákvæðum 2.ml. 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, en óumdeilt er í málinu, að skattframtal kæranda árið 1986 hafi borist skattstjóra hinn 11. júlí 1986 og að seinkun á framtalsskilum hafi verið vegna atvika, er varða þann aðila, er annaðist framtalsgerð kæranda. Skattstjóri hefur talið, að hvorki kæmi til álita skylda til niðurfellingar álags skv. 3. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, enda ekki sýnt fram á þargreind atvik, né að efni væru til þess að falla frá beitingu heimildarákvæða 1. mgr. 106. gr. í tilviki kæranda. Virðist ákvörðun skattstjóra m.a. hvíla á því, að skattframtal kæranda árið 1985 hafi eigi borist, fyrr en að liðnum lögmæltum framtalsfresti. Skv. málsgögnum barst skattframtal þetta ár hinn 4. júlí 1985 og var lagt til grundvallar við frumálagningu opinberra gjalda gjaldárið 1985 án álags, en skilafrestur í tilviki kæranda þetta ár mun hafa runnið út 19. júní 1985. Rétt hefði verið, að skattstjóri hefði upplýst frekar fyrri framtalsskil kæranda. Í hinum kærða úrskurði er vikið að ákvörðunum skattstjóra varðandi framtalsfresti og beitingu álags gjaldárið 1986, en eigi verður séð, að í máli þessu sé málsástæðum þessa efnis haldið fram af hálfu kæranda. Eigi að síður þykir bera að hafa þessar ákvarðanir skattstjórans í Reykjavík í huga við úrlausn málsins. Að því athuguðu og að virtum málavöxtum að öðru leyti þykir eigi rétt, að kærandi sæti álagi gjaldárið 1986. Er það því niður fellt. Þá athugasemd verður að gera við hinn kærða úrskurð skattstjóra, að eigi verður séð, hvaða erindi umfjöllun og ályktanir um úrlausnir ríkisskattanefndar almennt í kærumálum vegna álagsbeitingar út af síðbúnum framtalsskilum eiga í hann, sbr. tilvitnun í úrskurð skattstjóra hér að framan. Kærandi hefur engum þeim málsástæðum haldið fram, sem gefa tilefni til þeirra ályktana, sem hér um ræðir. auk þess fá þessar ályktanir skattstjóra eigi staðist.