Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 497/1987

Gjaldár 1986

Lög nr. 75/1981 — 53. gr.  

Atvinnurekstur — Peningaeign — Verðbreytingarfærsla — Eignir við útreikning verðbreytingarfærslu

Málavextir eru þeir, að skattstjóri gerði m.a. þá breytingu á skattframtali kæranda árið 1986 að lækka tilfærða peningaeign á efnahagsreikningi, sem fylgdi framtalinu, úr 283.963 kr. í 78.310 kr. og færði mismuninn 205.653 kr. til eignar á persónuframtali í reit 03. Taldi skattstjóri, að peningaeign í rekstri hefði verið óeðlilega há og langt umfram þarfir rekstrarins fyrir laust fé.

Í kæru til ríkisskattanefndar, dags. 2. desember 1986, segir umboðsmaður kæranda m.a.:

„Í efnahagsreikningi 31.12. 1985 er talin peningaeign kr. 283.963. Skattstofan hefur hafnað þessu sem peningaeign í árslok skv. úrskurði sínum 10.11. Meðfylgjandi sendum við ljósrit af launayfirliti þar sem fram kemur að útborgun á kr. 283.962.90 er dagsett 31.12. 1985 og var öll þessi upphæð fyrir hendi í lok ársins. í þessu sambandi ber að hafa í huga, að þessi upphæð er innifalin í tekjum 1985 skv. rekstrarreikningi. Af þessum ástæðum verður ekki annað séð en tilgreind peningaeign skv. efnahagsreikningi 31.12. 1985 hafi verið fyrir hendi og ástæða þessarar kæru að fá staðfestingu á því vegna stofns til verðbreytingarfærslu.“

Af hálfu ríkisskattstjóra var með bréfi, dags. 13. júní 1987, fallist á kröfur kæranda. Með vísan til kröfugerðar ríkisskattstjóra er fallist á kröfu kæranda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja