Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 519/1987
Gjaldár 1986
Lög nr. 75/1981 — 30. gr. 1. mgr. E-liður 1. tl. — 61. gr.
Íbúðarhúsnæði — Íbúðarlán — Íbúðarsala — Verðbréf — Aföll — Verðbréfasala — Tekjuuppgjör rekstrar — Tekjuuppgjörsaðferð — Ákvörðun tekjuskattsstofns — Kerfis og forritunarþjónusta
I.
Málavextir eru þeir, að með bréfi, dags. 23. júlí 1986, tilkynnti skattstjóri að hann hefði með vísan til 1. mgr. 95. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt gert eftirfarandi breytingar á skattframtali kæranda 1986:
„Tekjur á rekstursreikningi hafa verið hækkaðar um kr. 134.676,- þ.e. ekki er fallist á frestun skattlagningar tekna skv. 61. gr. laga nr. 75/1981. Skilyrði greinarinnar til frestunarinnar að vinnuþáttur sé yfir 70% seldrar þjónustu og heimild skattstjóra þarf til frestunarinnar.
Hreinar tekjur verða kr. 238.643,-.
Afföll af seldu skuldabréfi kr. 43.810,- heimilast ekki til frádráttar tekjum, þar sem nefnd afföll uppfylla ekki skilyrði 1. tl. E-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981.“
Af hálfu kæranda var ofanrituðum breytingum mótmælt Í kærubréfi umboðsmanns hans, til skattstjóra, dags. 30. júlí 1986. Þar segir m.a: „Umbj. minn rekur kerfis- og forritunarþjónustu og er vinnuþáttur í slíkri starfsemi almennt yfir 70%. Umbj. minn telur sig uppfylla skilyrði þau sem krafist er og er þess farið á leit að honum verði heimilt að miða tekjuuppgjör sitt við innborganir vegna seldrar þjónustu í stað þess að miða við unna og bókfærða þjónustu.“ Þá var mótmælt útstrikun á afföllum af skuldabréfum á þeirri forsendu, að þau uppfylltu að fullu skilyrði 1. tl. E-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981.
II.
Með úrskurði, dags. 10. nóvember 1986, hafnaði skattstjóri kröfum kæranda. Taldi skattstjóri, að vinnuþáttur hinnar seldu þjónustu hjá kæranda væri undir 70% mörkum þeim, er tilgreind væru í 1. ml. 61. gr. laga nr. 75/1981. Samkvæmt rekstrarreikningi með skattframtali kæranda hefðu laun og launatengd gjöld á árinu 1985 numið 519.165 kr. Hlutfall launakostnaðar af heildartekjum, u.þ.b. 62%, væri því lægra en áðurnefnd mörk kvæðu á um. Af þeim sökum féllst skattstjóri ekki á að veita kæranda heimild til þess að miða tekjuuppgjör rekstrarins við innborganir vegna seldrar þjónustu í stað þess að miða við unna og bókfærða þjónustu. Varðandi kröfu um vaxtafrádrátt vegna affalla af seldum skuldabréfum tekur skattstjóri eftirfarandi fram í úrskurði sínum: „Fjármagnskostnaður kæranda, sá er um er deilt í máli þessu, er eigi vegna láns, sem kærandi hefur tekið vegna öflunar íbúðarhúsnæðis eins og áskilið er í 1. tl. E-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, heldur er um sölu á verðbréfaeign hans að ræða. Er kröfum kæranda því hafnað.“
III.
Úrskurði skattstjóra hefur af hálfu kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru umboðsmanns hans, dags. 9. desember 1986. Eru kæruliðir tveir. Um þann fyrri segir umboðsmaðurinn m.a.: „Í kæruúrskurði skattstjóra leitast skattstjóri við að rökstyðja að vinnuþáttur í seldri þjónustu umbj. míns sé undir 70% og hefur þá skattstjóri til viðmiðunar greidd laun og launatengd gjöld í rekstrarreikningi. Að áliti undirritaðs er viðmiðun skattstjóra röng. Umbj. minn rekur kerfis- og forritunarþjónustu og er vinnuþáttur í slíkri starfsemi almennt yfir 70%. Vinnuþáttur í seldri þjónustu umbj. míns er að jafnaði 100%. Með hliðsjón af framangreindu er þess farið á leit að umbj. mínum verði heimilt að miða tekjuuppgjör sitt við innborganir vegna seldrar þjónustu í stað þess að miða við unna og bókfærða þjónustu.“ Í síðari kærulið er ítrekuð krafan um, að afföll af skuldabréfum verði leyfð til frádráttar, með því að þau teljist uppfylla skilyrði 1. tl. E-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981 að áliti umboðsmannsins.
IV.
Ríkisskattstjóri hefur með bréfi, dags. 29. júní 1987, gert svohljóðandi kröfur í máli þessu fyrir gjaldkrefjenda hönd:
„Fallist er á kröfur kæranda skv. 1. lið kæru.
Varðandi 2. lið kæru er krafist staðfestingar á úrskurði skattstjóra með vísan til forsendna hans. Umrædd skuldabréf eru tilkomin vegna íbúðarsölu kæranda og er því um sölu á verðbréfaeign hans að ræða, sbr. úrskurð ríkisskattanefndar nr. 151/1983.“
V.
Með vísun til kröfugerðar ríkisskattstjóra er fallist á kröfu kæranda um það, að honum verði heimilt að miða tekjuuppgjör sitt við innborganir vegna seldrar þjónustu í stað þess að miða við unna og bókfærða þjónustu. Með því að fjármagnskostnaður kæranda er ekki vegna lána, er hann hefur tekið til öflunar íbúðarhúsnæðis, eins og áskilið er í 1. tl. E-liðs 1. mgr. 30. gr. skattalaga, heldur er um sölu á verðbréfaeign hans að ræða, er ekki fallist á síðari kröfulið kærunnar til ríkisskattanefndar.