Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 523/1987
Gjaldár 1986
Lög nr. 75/1981 — 31. gr. 3. tl. — 74. gr. 5. tl. 2. mgr.
Viðskiptakrafa — Niðurfærsla útistandandi viðskiptakrafna — Lögskýring — Greinargerð með lagafrumvarpi — Framtalsaðferð niðurfærslu — Leiðrétting framtalsaðferðar
I.
Málavextir eru þeir, að á niðurfærslu- og samanburðarblaði R4.04 með skattframtali sínu 1986 taldi kærandi m.a.:
5% niðurfærslu útistandandi viðskiptaskulda í árslok 1985 nema kr. 1.454 en
5% " " " í “ 1984 " " 1.794
Breyttist niðurfærslan því til lækkunar um 340 kr. Í rekstrarreikningi með skattframtalinu 1986 gjaldfærði kærandi 1.454 kr. sem niðurfærslu viðskiptaskulda, þ.e. fjárhæð niðurfærslunnar í árslok 1985. Með bréfi, dags. 23. júlí 1986, tilkynnti skattstjóri kæranda m.a., að sú breyting hefði með vísan til 95. gr. laga nr. 75/1981 verið gerð á skattframtali hans að telja lækkun á niðurfærslu viðskiptaskulda 340 kr. til tekna. Breytingu þessari mótmælti kærandi með kærubréfi til skattstjóra, dags. 27. júlí 1986. Taldi kærandi, að 3. tl. 31. gr. laga nr. 75/1981 heimilaði sér 5% gjaldfærslu af útistandandi viðskiptaskuldum miðað við stöðu þeirra í árslok 1985.
II.
Með úrskurði, dags. 13. október 1986, synjaði skattstjóri kröfu kæranda. Í úrskurðinum segir m.a.:
„Ljóst er að fyrir hverja útistandandi kröfu er aðeins um eina 5% gjaldfærslu að ræða og þá aðeins um ein áramót. Þannig að standi ákveðin krafa óbreytt um tvenn eða fleiri áramót kemur gjaldfærsla einungis einu sinni, eða í hlutum. Að öðrum kosti væri mögulegt að eyða kröfunni að mestu á nógu löngum tíma.
Til þess að ekki verði um slíka offærslu að ræða er á hverju ári einungis gjaldfærð aukning niðurfærslu og lækkun niðurfærslu færð til tekna. Í raun má segja, og leiðir til sömu niðurstöðu, að niðurfærsla hvers árs sé færð til tekna næsta ár og ný niðurfærsla reiknuð. Framsetning útreiknings niðurfærslunnar á eyðublaðinu R4.04, sem kærandi lét fylgja framtali sínu útfyllt, fylgir þessum sjónarmiðum.
Af ársreikningi 1985 með framtali kæranda verður ekki séð hvernig niðurfærslu frá fyrra ári hefur verið ráðstafað, og ekki verður heldur séð að um tap á útistandandi kröfum hafi verið að ræða. Kærandi virðist því ekki hafa tekið tillit til niðurfærslu frá fyrra ári í framtalsskilum sínum 1986 og ljóst að gjaldfærsla vegna niðurfærslu viðskiptaskulda hefur verið oftalin sem henni nemur.“
III.
Kærandi hefur skotið úrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 18. október 1986. Gerir hann þá kröfu, að úrskurður um lækkun á niðurfærslu viðskiptaskulda skuli teljast til tekna með 340 kr. verði dreginn til baka. Í kærunni telur kærandi það að reikna lækkun niðurfærslu viðskiptaskulda til tekna og hækkun niðurfærslunnar til gjalda eigi ekki stoð í lögum um tekjuskatt og eignarskatt nr. 75/1981. Einnig telur hann eyðublað R4.04 vera villandi og nefnir í því sambandi m.a. 4. og 5. tl. B liðar, sem hann telur að ekki ættu að fyrirfinnast á eyðublaðinu.
IV.
Ríkisskattstjóri hefur með bréfi, dags. 2. mars 1987, gert svofellda kröfu í málinu fyrir gjaldkrefjenda hönd:
„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.“
V.
Í kærumáli þessu er deilt um skilning og framkvæmd á ákvæðum 3. tl. 1. mgr. 31. gr. og 2. mgr. 5. tl. 74. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Telur kærandi, að samkvæmt 3. tl. 1. mgr. 31. gr. nefndra laga hljóti honum að vera heimilt að miða fjárhæð niðurfærslu viðskiptaskulda við 5% af útistandandi viðskiptaskuldum eins og þær stóðu í árslok 1985. Bendir hann í því sambandi á, að í þessari lagagrein séu ekki fyrirmæli um að taka skuli tillit til fjárhæðar niðurfærslu í árslok ársins á undan þegar fundin er sú fjárhæð niðurfærslunnar, sem færa megi í rekstrarreikning viðkomandi tekjuárs. Telur kærandi hina kærðu breytingu skattstjóra á skattframtali hans 1986 skorta lagastoð og því beri að fella hana úr gildi. í fyrrnefndum 3. tl. 1. mgr. 31. gr. laga nr. 75/1981 er vísað til 2. mgr. 5. tl. 74. gr. sömu laga. í skýringum með frumvarpi til breytinga á lögum um tekjuskatt og eignarskatt nr. 40/1978, er varð að lögum nr. 7/1980 (sbr. c-lið 36. gr. þeirra laga) segir svo um 5. tl. 74. gr. núgildandi skattalaga:
„Í 5. tl. er einnig það nýmæli að heimilt er að lækka nafnverð áhvílandi (sic) skulda í lok hvers reikningsárs um 5% og mynda mótreikning til að mæta töpum á útistandandi skuldum. Niðurfærslan færist til lækkunar á skattskyldum tekjum og hefur þannig hliðstæð áhrif og niðurfærsla vörubirgða. Þegar heimild þessi er notuð í fyrsta sinn færist niðurfærslan öll til frádráttar tekjum en síðan færist aðeins árleg breyting niðurfærslunnar til lækkunar eða hækkunar skattskyldum tekjum eftir því sem við á.“
Í ofanritaðri tilvitnun er að finna ótvíræða túlkun löggjafans á þeim lagagreinum, sem um er deilt í kærumáli þessu. Með hliðsjón af því sem fram kemur í tilvitnuninni, þykir krafa kæranda eigi hafa lagastoð og er kröfu hans því hafnað. Varðandi reikningsskil kæranda með skattframtali hans 1986 er það m.a. að athuga að aukning niðurfærslu vörubirgða á árinu 1985 að fjárhæð 1.620 kr. er gjaldfærð í rekstrarreikningnum innifalin í efnisnotkun að fjárhæð 25.124 kr. Auk þess færði kærandi í sama reikningi niðurfærslu vörubirgða að fjárhæð 2.020 kr. sem sér gjaldalið. Þessari fjárhæð er því ofaukið í rekstrarreikningi kæranda með skattframtali 1986 og var ekki leiðrétt af skattstjóra, er hann breytti framtalinu. Þá gjaldfærði kærandi niðurfærslu viðskiptaskulda að fjárhæð 1.454 kr. í margnefndum rekstrarreikningi. Þá fjárhæð láðist skattstjóri einnig að leiðrétta. Þykir eigi verða hjá því komist að gera þessar leiðréttingar á framtalsskilum kæranda.