Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 529/1987

Gjaldár 1986

Lög nr. 75/1981 — 30. gr. 1. mgr. E-liður 1. tl.  

Vaxtagjöld — Vaxtafrádráttur — Íbúðarhúsnæði — Hjón— Hámarksfjárhæð vaxtafrádráttar — íbúðarlán

Kærð er álagning opinberra gjalda gjaldárið 1986. Lýtur ágreiningsefnið að frádráttarbærum vaxtagjöldum við ákvörðun tekjuskattsstofns það ár. Þykir verða að skilja svo kæru kæranda að hann krefjist þess að vaxtagjöld að fjárhæð 731.959 kr. verði viðurkennd sem frádráttarbær í skilningi 1. tl. E-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, en þó að því hámarki sem þar greinir, sbr. í þeim efnum frágang skattframtals hans árið 1986. Gerir umboðsmaður kæranda grein fyrir kröfu þessari og styður hana gögnum þ.á m. kvittunum um greiðslu vaxta. Skattstjóri vefengdi umræddan framtalslið á þeim grundvelli að kærandi hefði þar m.a. fært vexti af lánum, sem ekki geti talist notuð til öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota eða endurbóta á því. Taldi skattstjóri eftir athugun sína að frádráttarbær vaxtagjöld næmu 429.158 kr. og lækkaði vaxtagjöld til frádráttar á framtalinu í þá fjárhæð úr 433.514 kr., sem er hámarksfrádráttur hjá hjónum samkvæmt nefndu lagaákvæði gjaldárið 1986.

Með bréfi dags. 18. maí 1987 gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í máli þessu fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Á grundvelli þeirra gagna sem liggja fyrir í málinu fellst ríkisskattstjóri á að kærandi fái sem frádráttarbær vaxtagjöld heimilað hámark eða kr. 433.514. Þau vaxtagjöld sem höfð eru þá í huga eru vaxtagjöld af sömu lánum og viðurkennd voru á skattframtali 1985, vaxtagjöld af láni sem yfirtekið var með kaupum á A., og hækkanir á lánum er fylgdu við sölu á H. en skv. framtalsgögnum virðast þær vera rangt reiknaðar. Bæði er það að kærandi keypti íbúðina að H. 25.04.1983 og yfirtekur þá veðdeildarlán (á 1. veðr.) sem síðan fylgir einnig við söluna nú. Einnig virðist ekki hafa verið tekið tillit til vísitöluhækkana á láni frá Byggingarsjóði ríkisins sem tilgreint er á kaupsamningi á 5. og 6. veðrétti né vaxtagjalda af því láni.

Ríkisskattstjóri fellst því á að kærandi fái heimilað hámark vaxtafrádráttar og er þá ekki tekin afstaða til vaxtagjalda af lánum sem stofnað var til á árinu 1985.1 því sambandi skal bent á að kærandi hefur ekki sýnt fram á hvaða lán séu nýtt til öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota eða endurbóta á því. Þegar virt eru framtalsgögn kæranda sést að kærandi virðist á árinu greiða kr. 456.600 vegna húsnæðisskiptanna og endurbótanna. Skuldaraukning kæranda virðist vera kr. 1.428.707 og er þá ekki tekið tillit til yfirtekinnar skuldar né ógreiddrar útborgunar og skuldabréfs vegna íbúðarinnar. Á það er einnig bent að launatekjur kæranda og eiginkonu hans virðast vera rúmlega 1.400 þúsund.“

Fallist er á að kæranda beri sá hámarksfrádráttur vaxtagjalda sem um getur í umræddu lagaákvæði og um hjón gilda. Verður þá ekki í þessu máli tekin afstaða til þess hvort honum kynni að hafa borið frekari frádráttur vaxtagjalda en þar greinir eða hvort öll þau lán sem tilfærð eru í skattframtali hans árið 1986 hafi sannanlega verið notuð til öflunar á íbúðarhúsnæði til eigin nota eða endurbóta á því.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja