Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 538/1987

Gjaldár 1986

Málavextir eru þeir, að með skattframtali kæranda árið 1986 fylgdi umsókn, dags. 9. febrúar 1986, um ákvörðun eftirstöðva námsfrádráttar vegna náms eftir 20 ára aldur, er lokið hefði á árinu 1981 (R3.07). Í umsókn þessari var greint frá því, að nám hefði verið stundað við Háskóla Íslands árin 1970 - 1975 í félagsfræði og lokið BA prófi í þeirri grein, við Háskólann í Osló árin 1975 - 1978 í félagsfræði og sögu og lokið cand. mag. prófi, ennfremur við Háskóla Íslands árin 1980 - 1981 (réttindanám).f athugasemdadálki var tekið fram, að árin 1971 - 1978 hefði kærandi átt lögheimili í Reykjavík. Þá væru meðfylgjandi ljósrit af prófskírteinum, er sýndu fram á inntak náms og námsáfanga kæranda. Árið 1981 hefði verið náð réttindum til að nýta það nám, sem áður hefði verið stundað. Teldust það því eðlileg námslok.

Með bréfi, dags. 16. maí 1986, tilkynnti skattstjóri kæranda, að beiðni um útreikning eftirstöðva námsfrádráttar hefði verið tekin til afgreiðslu. Námi hefði lokið 1978 og brysti lagaheimild til útreiknings nú átta árum síðar.

Með bréfi, dags. 14. júní 1986, ítrekaði kærandi beiðni sína og vísaði til þess, að námi til starfsréttinda hefði lokið árið 1981 en ekki árið 1978 eins og tekið væri fram í bréfi skattstjóra.

Skattstjóri tók bréf kæranda sem kæru vegna álagningar gjaldárið 1986 og kvað upp kæruúrskurð hinn 18. nóvember 1986. Hafnaði hann kærunni með þeim rökum, að ekki hefði verið sýnt fram á, að námskeið þau, sem kærandi hefði verið þátttakandi í á árunum 1980 og 1981, veittu rétt til námsfrádráttar í skilningi 1. mgr. 3. tl. C-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og þætti því rétt að líta svo á, að námi kæranda hefði lokið á árinu 1978. Brysti því heimild til útreiknings frádráttarins.

Kæruúrskurði skattstjóra hefur af hálfu kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 11. desember 1986. ítrekar kærandi kröfu sína um ákvörðun eftirstöðva námsfrádráttarins og bendir m.a. á, að nám það, sem stundað hafi verið á árunum 1980 - 1981, hefði verið viðurkennt með námsfrádrætti við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1982, enda hefði það nám veitt starfsréttindi, sem kærandi hefði ekki haft áður.

Með bréfi, dags. 27. apríl 1987, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur f.h. gjaldkrefjenda:

„Ríkisskattstjóri lítur svo á að námi kæranda hafi lokið árið 1978 og bresti því lagaheimild til að verða við kröfu kæranda.“

Líta verður svo á, að kærandi hafi með umsókn sinni, dags. 9. febrúar 1986, verið að fara fram á ákvörðun á eftirstöðvum námsfrádráttar fyrir næstu 5 ár eftir námslok eða gjaldárin 1982 - 1986 skv. kröfu kæranda og hugsanlega endurákvörðun opinberra gjalda gjaldárin 1982 - 1985 í því sambandi, sbr. 3. mgr. 101. gr. laga nr. 75/1981. Var því eigi rétt af skattstjóra að taka bréf kæranda, dags. 14. júní 1986, sem kæru út af álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1986 eingöngu og kveða upp kæruúrskurð vegna þess gjaldárs. Hugsanlegur frádráttur skv. 2. mgr. 3. tl. C-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981 gjaldárið 1986, sem kærumál þetta takmarkast við, verður eigi rofinn úr tengslum við fyrrnefnda ákvörðun, en rétt er að geta þess, að skv. málsgögnum hefur kæranda verið ákvarðaður námsfrádráttur skv. 1. mgr. 3. tl. C-liðs 1. mgr. nefndrar lagagreinar gjaldárið 1982 vegna hins umdeilda náms. Svo sem mál þetta liggur fyrir og málsatvikum er háttað þykir rétt að framsenda ríkisskattstjóra erindi kæranda til meðferðar.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja