Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 583/1987
Gjaldár 1986
Lög nr. 121/1985 — 7. gr. Lög nr. 9/1984 — 2. gr. 2. mgr. B-liður — 2. gr. 2. mgr. C-liður — 11. gr. Lög nr. 75/1981 — 30. gr. 1. mgr. B-liður 4. tl
Frádráttur — Frádráttarheimild — Hlutafélag — Hlutabréfakaup — Fjárfesting manna í atvinnurekstri — Frádráttarbærni — Lögskýring — Greinargerð með lagafrumvarpi — Tilgangur lagaákvæðis — Fjárlög — Ríkisskattstjóri
Málavextir eru þeir, að kærandi greindi frá því í greinargerð um eignabreytingar í skattframtali sínu árið 1986, að hann hefði á árinu 1985 keypt hlutabréf í R. h.f., að nafnverði 100.000 kr. og hefði kaupverð bréfanna verið 357.000 kr. Frádrátt vegna þessarar fjárfestingar færði hann í reit 83 í skattframtali sínu árið 1986, sbr. 4. tl. B-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, að því hámarki er þar greinir eða 68.000 kr. gjaldárið 1986, sbr. 121. gr. nefndra laga með síðari breytingum og 7. gr. laga nr. 121/1985, fjárlaga, fyrir árið 1986.
Með bréfi, dags. 25. júlí 1986, tilkynnti skattstjóri kæranda, að sú breyting hefði m.a. verið gerð á skattframtali hans árið 1986, að fyrrnefndur frádráttur hefði verið felldur niður „þar sem R. h.f. er ekki á skrá yfir þau hlutafélög sem ríkisskattstjóri hefur veitt staðfestingu, sbr. 11. og 24. gr. laga nr. 9/1984.“
Að hálfu umboðsmanns kæranda var þessi breyting skattstjóra kærð til hans með kæru, dags. 26. ágúst 1986, og þess krafist, að umræddur frádráttur yrði leyfður með vísan til C-liðs 2. mgr. 2. gr. laga nr. 9/1984, um frádrátt frá skattskyldum tekjum vegna fjárfestingar manna í atvinnurekstri, með síðari breytingum, þar sem heimilaður væri frádráttur vegna kaupa á hlutabréfum í öðrum félögum, sem ekki fullnægðu skilyrðum skv. III. og V. kafla laganna. Með kæruúrskurði, dags. 12. desember 1986, hafnaði skattstjóri kröfu kæranda með sömu röksemdum og greinir í bréfi hans, dags. 25. júlí 1986, sbr. að framan.
Með kæru, dags. 29. desember 1986, hefur umboðsmaður kæranda skotið kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar og gerir sömu kröfur og í kæru til skattstjóra og færir fram sömu röksemdir. Tekur hann fram, að svo virðist sem skilyrði það, sem nefnt sé í hinum kærða úrskurði eigi ekki við um frádrátt skv. C-lið 2. mgr. 2. gr. laga nr. 9/1984.
Af hálfu ríkisskattstjóra eru með bréfi, dags. 24. ágúst 1987, gerðar svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:
„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur, enda lítur ríkisskattstjóri svo á að skýra beri C-lið 2. mgr. 2. gr. laga nr. 9/1984 með hliðsjón af 3. mgr. sömu greinar“
Kærandi færði hinn umdeilda frádrátt á grundvelli 4. tl. B-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. C-lið 4. gr. laga nr. 8/1984, um breyting á þeim lögum, en um frádrátt þennan fer að lögum nr. 9/1984, um frádrátt frá skattskyldum tekjum vegna fjárfestingar manna í atvinnurekstri með síðari breytingum.Skattstjóri byggði niðurfellingu sína á umræddum frádrætti á því, að hlutafélag það, sem kærandi keypti hlutabréf í, uppfyllti eigi þau skilyrði, sem gerð væru til hlutafélaga skv. síðastnefndu lögunum, sbr. B-lið 2. mgr. 2. gr. og 11. gr. þeirra og skrá ríkisskattstjóra, dags. 18. febrúar 1986, yfir staðfest hlutafélög skv. nefndri 11. gr. laganna, er gilti á árinu 1985. Af hálfu kæranda er því út af fyrir sig eigi mótmælt, að þessum skilyrðum sé eigi fullnægt, en hann vill byggja frádráttinn á C-lið 2. mgr. 2. gr. laga nr. 9/1984, er hann telur heimila frádrátt vegna kaupa á hlutabréfum í öðrum félögum, er eigi uppfylli nefnd skilyrði. Eigi verður fallist á þennan skilning kæranda og er þá litið til ákvæða umræddrar 2. gr. í heild sinni, sbr. og athugasemdir við frumvarp það, er varð að lögum nr. 9/1984. Er úrskurður skattstjóra því staðfestur að niðurstöðu til.