Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 642/1987
Gjaldár 1986
Lög nr. 75/1981 — 96. gr.
Skattframtal, tortryggilegt — Vefenging skattframtals — Framfærslueyrir
Málavextir eru þeir, að skattframtal kæranda árið 1986 barst skattstjóra innan tilskilins framtalsfrests það ár. Með bréfi, dags. 29. maí 1986, krafði skattstjóri kæranda skýringa á ætluðum óeðlilega lágum framfærslueyri, er reiknaðist 127.090 kr., og veitti 7 daga frest til svara. Svarbréf kæranda er dagsett 27. júní 1986 og barst skattstjóra 2. júlí 1986. Í bréfi þessu fýsir kærandi starfi sínu, sem eru veiðar í atvinnuskyni. Kvaðst hann hafa ráðið sig til selveiða við K.fjörð upp á veiðihlut og greiðslu frá Hringormanefnd. Þetta hafi þó dregist, þar sem frumvarp til laga um selveiðar hefði ekki náð fram að ganga. Á meðan hafi hann stundað refaleit, rotveiðar á útsel á strönd og hreindýraveiðar fyrir Y.hrepp. Þá gerði kærandi grein fyrir ráðstöfun bifreiða sinna vegna fyrirhugaðra veiðiverkefna.
Skattstjóri tók hið síðbúna svarbréf kæranda sem kæru og kvað upp kæruúrskurð hinn 3. desember 1986. Ekki féllst skattstjóri á að leggja skattframtalið til grundvallar álagningu opinberra gjalda kæranda gjaldárið 1986 en lækkaði áætlanir skattstofna nokkuð, en við frumálagningu opinberra gjalda gjaldárið 1986 hafði hann áætlað kæranda skattstofna. Skattstjóri tók fram, að í kæru kæmi ekki fram skýring á lágum framfærslueyri kæranda eða hvernig hann framfleytti sér á 127.090 kr. á árinu 1985. Kærandi teldi báðar bifreiðar sínar til eignar í árslok 1985 og væri einnig skuldlaus í lok ársins. Ekki teldi kærandi sér til tekna frítt fæði eða húsnæði, svo að álíta yrði, að hann hefði sjálfur staðið undir þeim kostnaði.
Með kæru, dags. 2. janúar 1987, hefur kærandi skotið kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar. Verður að telja kröfu hans þá, að framtalið verði lagt til grundvallar álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1986. Í kærunni segir svo:
„Ég held ekki svo nákvæma dagbók að ég geti greint skattstjóra hvernig ég fer að því að lifa, ég er ennþá lifandi. Hvað og hvar ég ét eða hvort mér er gefinn kaffisopi eða matur eða ég malla og veiði mér eitthvað til matar sem ég hef hingað til getað gert og hvar ég sef þessa og þessa nóttina. Hann skrifar um það að ég sé skuldlaus og virðist mér hann hissa á því, hann hefur líklega ekki fengið hótunarbréf frá því opinbera um að hafa ekki greitt gjöld á réttum tíma. Ég seldi bifreið mína sem ég ætlaði og notaði vegna starfa minna strax á árinu "86 vegna þess að ég var orðin peningalítill og bjargaði mér með því.“
Með bréfi, dags. 2. september 1987, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:
„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.“
Samkvæmt gögnum málsins byggði skattstjóri ákvörðun sína um höfnun framtalsins á því einu, að framfærslueyrir kæranda væri að hans mati óeðlilega lágur. Eigi liggur fyrir á hverju skattstjóri byggði þetta mat sitt. Að virtum málavöxtum svo sem þeir verða ráðnir af málsgögnum, þ.m.t. skýringum kæranda og hinum sérstöku aðstæðum hans, þykir þetta atriði eitt út af fyrir sig eigi nægja til höfnunar skattframtalsins. Af þessum sökum þykir bera að taka kröfu kæranda til greina og byggja álagningu opinberra gjalda hans gjaldárið 1986 á hinu fyrirliggjandi skattframtali.