Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 649/1987
Gjaldár 1986
Lög nr. 75/1981 — 4. gr. 5. tl. Lög nr. 73/1980 — 36. gr.
Hlutafélag — Skattskylda — Skattfrelsi — Skattfrjáls aðili — Aðstöðugjaldsskylda — Almenningsheill — Menningarstarfsemi — Atvinnustarfsemi — Aðstöðugjaldsstofn — Vanreifun — Frávísun
Kærandi, sem er skráð hlutafélag, var talið undanþegið tekjuskatti og eignarskatti gjaldárið 1986 á grundvelli 5. tl. 4. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. kæruúrskurð skattstjórans í Reykjavík, dags. 22. desember 1986. Hins vegar ákvað skattstjóri, að hlutafélagið væri aðstöðugjaldsskylt og var stofn til þess ákvarðaður 1.667.077 kr. Um álagningu þessa gjalds segir svo í úrskurði skattstjóra:
„Svo sem fyrr greinir skal félagið vera undanþegið greiðslu tekjuskatts og eignarskatts árið 1986 vegna menningarstarfsemi sinnar. Hins vegar er útleiga fasteigna ekki meginmarkmið félagsins og enda þótt hún sé í fjáröflunarskyni fyrir félagið, þá er hún eigi sá þáttur í starfsemi félagsins að hún falli undir ákvæði 36. gr. laga nr. 73/1980 varðandi undanþágu frá greiðslu aðstöðugjalds. Kröfu félagsins varðandi undanþágu frá greiðslu aðstöðugjalds er því hafnað. í ársreikningum félagsins er ekki gerður greinarmunur á kostnaði vegna atvinnustarfsemi félagsins og menningarstarfsemi þess. Álagt aðstöðugjald stendur því óbreytt.“
Með kæru, dags. 12. janúar 1987, hefur umboðsmaður kæranda skotið kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar. Fylgdi kærunni greinargerð um aðstöðugjaldsstofn gjaldárið 1986 „er sýnir skiptingu gjalda á milli atvinnustarfsemi og menningarstarfsemi félagsins“ eins og segir í kærunni. Er farið fram á, að aðstöðugjald gjaldárið 1986 verði ákvarðað í samræmi við greinargerðina.
Með bréfi, dags. 11. september 1987, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjanda:
„Að staðfestur verði úrskurður skattstjóra um að álagt aðstöðugjald standi óbreytt, enda verði sú aðferð umboðsmanns kæranda að draga styrk frá ríkissjóði frá rekstrartekjum ekki talin eiga sér lagastoð.“
Eigi er um það deilt, að kærandi sé aðstöðugjaldsskyldur aðili skv. 36. gr. laga nr. 73/1980, um tekjustofna sveitarfélaga. Eigi þykja fram komnar þær upplýsingar, að ástæða þyki til þess að hagga fjárhæð þeirri sem skattstjóri byggði á. Að svo vöxnu þykir rétt að vísa kærunni frá vegna vanreifunar.