Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 659/1987
Gjaldár 1986
Reglugerð nr. 182/1962 — 6. gr. Lög nr. 73/1980 — 10. gr. — 11. gr. — 36. gr. 2. mgr. 3. tl.
Landsútsvar — Aðstöðugjald — Aðstöðugjaldsskylda — Aðstöðugjaldsundanþága — Olíufélag — Lögskýring — Lögskýringargögn — Skattalagaframkvæmd — Kæra sveitarfélags
I.
Kærandi, Á.hreppur, hefur krafist þess að X. hf., Reykjavík, verði gert að greiða aðstöðugjald gjaldárið 1986 vegna starfsemi félagsins í hreppnum rekstrarárið 1985 og verði gjaldið lagt „á allan þann söluvarning sem ekki flokkast undir bensín og olíur.“ Til stuðnings þessari kröfu er á það bent að í lögum um tekjustofna sveitarfélaga varðandi undanþágu frá greiðslu aðstöðugjalds „er einungis talað um að olíufélög þau er flytji inn olíur og olíuvörur og annist dreifingu þeirra innanlands. Ekki er gert ráð fyrir að þau selji aðrar vörutegundir og fari þannig út fyrir sölusvið sitt sem olíufélög.“.
II.
Skattstjórinn í Reykjavík hafði í hinum kærða úrskurði, dags. 27. október 1986, hafnað framangreindri kröfu kæranda með svofelldum forsendum:
„Samkvæmt 10. gr. laga nr. 9/1985 um breytingu á D-lið 11. greinar laga nr. 73/1980 um tekjustofna sveitarfélaga, ber olíufélögum að greiða landsútsvar af „heildarsölu" annarri en sölu á gasolíu og svartolíu.
Samkvæmt 6. grein reglugerðar nr. 182/1962 um landsútsvör telst til heildarsölu „sérhver sala eða afhending vöru, vinnu og þjónustu eða annarra verðmæta.“
Samkvæmt framansögðu virðist ljóst, að greiðsla landsútsvars hjá olíufélögum er ekki bundin við ákveðnar vörutegundir, nema hvað varðar undanþágu vegna sölu á gasolíu og svartolíu, og er kæru um niðurfellingu á landsútsvari því synjað.
Grundvöllur fyrir álagningu aðstöðugjalds virðist samkv. framangreindu ekki vera fyrir hendi.“
III.
Með bréfi dags. 27. júlí 1987 krefst ríkisskattstjóri þess að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.
IV.
Samkvæmt 3. tl. 2. mgr. 36. gr. laga nr. 73/1980, um tekjustofna sveitarfélaga, eru olíufélög sem greiða landsútsvar undanþegin aðstöðugjaldsskyldu. Samkvæmt 10. og 11. gr. sömu laga með síðari breytingum skulu olíufélög greiða landsútsvar af heildarsölu sinni annarri en sölu á gasolíu og svartolíu, og samkvæmt 6. gr. reglugerðar nr. 182/1962 um landsútsvör telst til heildarsölu „...sérhver sala eða afhending vöru, vinnu og þjónustu eða annarra verðmæta...“. Þar sem á X. hf. er lagt landsútsvar skv. 10. og 11. gr. nefndra laga, þykir verða að álykta að félagið sem olíufélag sé undanþegið aðstöðugjaldsskyldu skv. 3. tl. 2. mgr. 36. gr. laganna, sbr. einnig lögskýringargögn, er skattur þessi var í fyrsta skipti lögtekinn hér á landi.
Þá hefur einnig verið litið svo á í skattalagaframkvæmd, sbr. t.d. úrskurð ríkisskattanefndar merktum A. nr. 4. dags. 12. maí 1964. Er af þessum ástæðum eigi fallist á kröfu kæranda í máli þessu.