Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 693/1987

Gjaldár 1984

Innlánsstofnun — Viðskiptabanki — Lífeyrisskuldbindingar — Eftirlaunasjóður — Rekstrarkostnaður — Vísitala — Áfallnar verðbætur — Áfallnar verðbætur á höfuðstól skulda — Skuldir í erlendum verðmæli — Afskriftarreikningur útlána — Útlán — Niðurfærsla viðskiptaskulda

Kærð er endurákvörðun ríkisskattstjóra á tekjuskatti og eignarskatti álögðum á kæranda gjaldárið 1984.

I.

Meðal málsgagna eru eftirtalin gögn: 1) skattframtal kæranda árið 1984 ásamt ársreikningi fyrir árið 1983, 2) afrit af bréfi ríkisskattstjóra til kæranda dags. 29. apríl 1985, 3) afrit af svarbréfi kæranda dags. 15. maí 1985, 4) afrit af bréfi ríkisskattstjóra til kæranda dags. 21. október 1985, 5) svarbréf kæranda dags. 14. nóvember 1985, 6) afrit af endurákvörðun ríkisskattstjóra dags. 15. nóvember 1985 á tekjuskatti og eignarskatti kæranda gjaldárið 1984, 7) kæra kæranda til ríkisskattstjóra dags. 13. desember 1985, 8) afrit af kæruúrskurði ríkisskattstjóra dags. 14. mars 1986, 9) kæra kæranda til ríkisskattanefndar dags. 10. apríl 1986, 10) kröfugerð ríkisskattstjóra f.h. gjaldkrefjenda dags. 13. júní 1986 og 11) mat á skuldbindingum kæranda vegna áunninna lífeyrisréttinda starfsmanna hans pr. 31. desember 1983, dags. 16. febrúar 1984.

II.

II.1.

Í kærunni til ríkisskattanefndar eru ágreiningsefnin þrjú

a) Í fyrsta lagi hvort kæranda sé heimilt í skattskilum sínum að færa til frádráttar við ákvörðun skattstofna gjaldársins 1984 skuldbindingar sínar til greiðslu áunninna lífeyrisréttinda starfsmanna sinna á rekstrarárinu 1983, sem eru umfram þær skuldbindingar að greiða iðgjöld til eftirlaunasjóðs starfsmanna á móti framlögum starfsmanna, og hækkun þeirra skuldbindinga milli ára svo sem lýst er í gögnum málsins. Telur kærandi að hér sé um rekstrarkostnað að ræða í skilningi 1. tl. 31. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt. Ríkisskattstjóri telur hins vegar lagaheimild skorta fyrir þessum frádrætti.

b) Í öðru lagi er ágreiningur með aðilum máls þessa um það hvort kæranda hafi verið heimilt í skattuppgjöri sínu gjaldárið 1984 að nota gildandi vísitölu 1. janúar 1984 við mat á verðtryggðum útlánum í árslok 1983. Telur ríkisskattstjóri að kæranda hefði borið að nota gildandi vísitölu í árslok 1983

c) Í þriðja lagi bendir kærandi á að við skattstofnaútreikning hafi ríkisskattstjóri ekki tekið tillit til „erlendra útlána 236.857.500 kr. í árslok 1983 þegar hann reiknar 1% tillag í afskriftareikning útlána.“ Um þetta segir svo í kröfugerð ríkisskattstjóra: „Umrædd fjárhæð, kr. 236.857.500, er færð í ársreikning undir „Erlendar eignir" sem skuldabréf en ekki undir „Útlán“. Ef umboðsmaður kæranda gerir nánari grein fyrir því að hér sé um að ræða „útlán“ í erlendri mynt er fallist á að umrædd fjárhæð komi til útreiknings niðurfærslu.“

II.2.

Verði eigi á framannefnda aðalkröfu kæranda fallist hefur hann uppi þá varakröfu að fjárfestingarsjóðstillag verði hækkað til samræmis við hækkun ríkisskattstjóra en verði þeirri kröfu hafnað til þrautavara að heimilað verði tillag í skattalegan varasjóð. Ríkisskattstjóri krefst þess að kröfum þessum verði hafnað.

III.

Um II. 1. a) hér að framan:

Rétt þykir að líta svo á að lífeyrisskuldbindingar þær sem um ræðir í máli þessu hafi fallið á kæranda á rekstrarárinu 1983, þ.á m. hækkun þeirra frá ársbyrjun til ársloka þess árs vegna eldri skuldbindinga, og teljist hafa verið rekstrarkostnaður hans á því ári í skilningi 1. tl. 31. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt. Er því fallist á kröfu kæranda undir þessum kærulið en eigi er ágreiningur með aðilum um fjárhæðir.

Um II. 1. b) hér að framan:

Á það þykir bera að fallast með ríkisskattstjóra að í skattskilum sínum nefnt gjaldár hefði kæranda borið í skilningi nefndra skattalaga að nota gildandi vísitölu í árslok 1983 við mat á áföllnum verðbótum á útlán. í hinni kærðu endurákvörðun ríkisskattstjóra er eigi gætt samræmis við notkun vísitölu við mat á verðtryggðum innlánum og útlánum, en um slíkt samræmi verður að vera að ræða, þegar litið er til samkvæmni í skattalögunum. Að svo vöxnu verður eigi hjá öðru komist en vísa þessu kæruatriði frá ríkisskattanefnd.

Um II. 1. c) hér að framan:

Eigi eru efni til annars en fallast á kröfu kæranda undir þessum kærulið.

Um II.2. hér að framan:

Fallist er á það sem fram kemur í kæruúrskurði ríkisskattstjóra að kærandi fullnægi eigi skilyrðum nefndra skattalaga fyrir varakröfu sinni. Þá er einnig fallist á það með ríkisskattstjóra, sbr. kröfugerð hans fyrir ríkisskattanefnd, að lagaheimild skorti fyrir þrautavarakröfu kæranda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja