Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 698/1987

Gjaldár 1986

Íbúðarhúsnæði — Íbúðarlán — Vaxtagjöld, frádráttarbærni — Makaskipti — Íbúðarsala — Eignarhald íbúðarhúsnæðis

Málavextir eru þeir, að kærandi færði 156.761 kr. sem vaxtagjöld til frádráttar tekjum í reit 87 í skattframtali sínu árið 1986. Í athugasemdum í skattframtalinu tók hann fram, að vaxtagjöld þessi væru af lánum, sem öll hefðu verið tekin vegna byggingar, sem kærandi hefði orðið að selja, sbr. fyrri framtöl. Með bréfi, dags. 25. júlí 1986, tilkynnti skattstjóri kæranda, að þessi frádráttarliður væri felldur niður, þar sem lagaheimild skorti fyrir honum.

Af hálfu kæranda var breyting skattstjóra kærð með kæru, dags. 25. ágúst 1986, og því haldið fram, að umrædd vaxtagjöld væru að fullu frádráttarbær í samræmi við ákvæði skattalaga um frádrátt vaxtagjalda vegna öflunar eigin húsnæðis. Kærandi gat þess, að hann hefði með skattframtali sínu árið 1984 gert grein fyrir byggingu einbýlishúss í Garðabæ. Síðla árs 1983 hefði hann sent beiðni til Landsbanka Íslands, Selfossi, um lengdan lánstíma af láni, sem hann hefði undirritað og þinglýst í Garðabæ, eig. X. hf., Selfossi, þar sem hann hefði álitið, að fyrirtækið hefði selt Landsbankanum á Selfossi umrætt bréf. Á þessum tíma hefði ríkisstjórnin beint þeim tilmælum til banka og sparisjóða, að lengdur yrði greiðslufrestur af lánum, sem tekin hefðu verið til öflunar íbúðarhúsnæðis. Þá gerði kærandi grein fyrir því, að hann hefði vegna fjárhagsörðugleika orðið að selja umrædda eign, en þrátt fyrir það skuldaði hann ennþá á aðra milljón króna vegna byggingarinnar. Vandi þeirra, sem í húsbyggingum stóðu á árunum 1982—1984 ætti ekki að koma skattyfirvöldum á óvart. Taldi kærandi vanda sinn engu minni en þeirra, sem tekist hefði að halda í eignirnar.

Með kæruúrskurði, dags. 12. desember 1986, hafnaði skattstjóri kröfu kæranda, þar sem skilyrði um eigin not íbúðarhúsnæðis væru ekki uppfyllt sökum sölu þess. Vísaði skattstjóri til úrskurðarríkisskattanefndar nr. 567/1986.

Kæruúrskurði skattstjóra hefur af hálfu kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 8. janúar 1987, og gerir hann sömu kröfur með þeim sömu rökum, er fram koma í kærunni til skattstjóra.

Með bréfi, dags. 11. september 1987, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu, að kæruúrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Hin umdeildu vaxtagjöld eru af skuldum vegna byggingar kæranda á einbýlishúsi í Garðabæ. Samkvæmt gögnum þeim, sem fyrir liggja í málinu, lét kærandi húseign þessa í makaskiptum fyrir fjögurra herbergja íbúð í Hafnarfirði, hinn 23. janúar 1984, sbr. ljósrit makaskiptasamnings, er dagsettur er þann dag. Umrædda íbúð seldi kærandi síðan með kaupsamningi, dags. 24. febrúar 1984, en ljósrit þess samnings liggur fyrir í málinu. Eins og fram kemur í málinu hefur kærandi eigi aflað sér íbúðarhúsnæðis að nýju. Að svo vöxnu þykir kærandi eigi uppfylla skilyrði 1. tl. E-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, fyrir frádráttarbærni vaxtagjalda gjaldárið 1986. Er kæruúrskurður skattstjóra því staðfestur að niðurstöðu til.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja