Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 703/1987

Gjaldár 1986

Lög nr. 75/1981 — 7. gr. A-liður 1. tl. — 30. gr. 1. mgr. A-liður 6. tl.  

Launatekjur — Atvinnurekstur — Frádráttarbærni verkfærakostnaðar — Frádráttarheimild — Verkfærafrádráttur — Vinnusamningur

Málavextir eru þeir, að kærandi færði til frádráttar tekjum í skattframtali sínu árið 1986 39.047 kr. í reit 35 sem verkfærakostnað vegna atvinnu. í sérstöku fylgiskjali með skattframtalinu gerði kærandi grein fyrir þessum frádráttarlið. Var þar vísað til þess, að skv. samningum hans við Námsgagnastofnun, dags. 7. október 1983 og 30. janúar 1986, ynni hann að gerð námsefnis í aukavinnu. Hljóðuðu samningarnir upp á 7 1/2 mánaðar vinnu frá því í október 1983 þar til í desember 1986, þar af 3 1/2 mánuð á árinu 1986. Þá var gerð grein fyrir skyldum kæranda skv. samningsákvæðunum svo og nauðsyn fjárfestingar í tækjum til textavinnslu. Stofnkostnaður 1985 vegna námsefnisgerðar (tölvubúnaður) næmi 90.920 kr., er eðlilegt þætti að dreifa til frádráttar á 3 ár á skattframtölum 1986—1988 30.307 kr. hvert ár. Þá var bent á kostnað vegna tilraunakennslu námsefnisins (síma- og ferðakostnað). Þessi kostnaður næmi 5.330 kr. árið 1985. Að viðbættum disklingum 1.000 kr. og tölvupappír 2.350 kr. næmi rekstrarkostnaður árið 1985 8.740 kr. Frádráttarfjárhæð á framtali árið 1986 næmi því 39.047 kr. Ljósrit umræddra samninga fylgdu skattframtalinu.

Með bréfi, dags. 25. júlí 1986, tilkynnti skattstjóri kæranda, að fyrrnefndur frádráttur 39.047 kr. hefði verið felldur niður, þar eð verkfærafrádráttur væri aðeins heimill launþegum í löggiltum iðngreinum, sbr. 6. tl. A-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981 og leiðbeiningar ríkisskattstjóra við útfyllingu skattframtala.

Af hálfu kæranda var þessi breyting kærð með kæru, dags. 27. ágúst 1986, með vísan til greinargerðar, er fylgdi skattframtalinu. Taldi kærandi að ekki gæti staðist, að kostnaður hans vegna tiltekins verkefnis í þágu ríkisins væri ekki frádráttarbær. Með kæruúrskurði, dags. 22. desember 1986, hafnaði skattstjóri kröfu kæranda. Um væri að ræða frádrátt frá launatekjum, sbr. launamiða frá vinnuveitendum, en tekjumar bæri að færa í reit 21 í skattframtali skv. 1. tl. A-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981 án nokkurs frádráttar.

Kæruúrskurði skattstjóra hefur af hálfu kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 21. janúar 1987. Vísar kærandi til greinargerðar með skattframtali, kæru sinnar til skattstjóra og fyrrnefndra samninga, er sýni, að hann hafi mikinn beinan kostnað af verkefninu, „sem ekki er endurgreiddur af Námsgagnastofnun en tekið tillit til þessa kostnaðar í greiðslum fyrir verkið“, eins og segir í kærunni.

Með bréfi, dags. 12. október 1987, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:

„Kærandi sendir með til stuðnings kæru sinni ljósrit tveggja samninga sem hann hefur gert við Námsgagnastofnun.

Annar samningurinn er gerður 30.01. 1986 og varðar tekjur sem falla til á árinu 1986 sbr. 3. gr. samningsins. Er hann því óviðkomandi hinum kærða úrskurði.

Fyrri samningur þessara aðila er gerður 7. okt. 1983 og skv. 4. gr. hans er kæranda skylt að skila handriti í samræmi við meðfylgjandi reglu um skil handrita. Téðar reglur fylgja ekki gögnum málsins. Auk þess kemur fram í 3. gr. samningsins að kærandi skuli vera „ráðgjafi um brot og högun verksins svo og annan frágang þess.“ Þykir fyrrgreint ekki benda til þess að kæranda hafi verið nauðsyn að leggja sér til hin umdeildu tæki, svo skilyrðum 3. mgr. 30. gr. hafi verið fullnægt. Þá er á það að líta að skv. 5. gr. greinds samnings var miðað við að greitt skyldi fyrir verkið í áföngum og áttu 3/4 hlutar að vera greiddir í mars 1984, varðar því samningur þessi mögulega ekki nema að hluta tekjum ársins 1985, sem er hið kærða gjaldár (sic).

Með vísan til framangreinds þykir sýnt að kærandi á ekki rétt á að færa til frádráttar hinn umdeilda kostnað og er þess því krafist að úrskurður skattstjóra verði staðfestur." Á það er fallist með skattstjóra, að kærandi geti eigi byggt frádrátt vegna þess kostnaðar, sem hann telur sig hafa haft af verkefni því, sem í málinu greinir á ákvæðum 6. tl. A-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Skv. þeim samningsákvæðum, sem liggja til grundvallar því verkefni, sem kærandi tók að sér fyrir Námsgagnastofnun, sbr. samning, dags. 7. október 1983, er varðar tekjuárið 1985, tókst kærandi á hendur að semja tiltekið námsefni, vera til ráðgjafar um frágang þess og vinna að nokkru við tilraunakennslu þess. Auk þessa selur kærandi með samningi þessum Námsgagnastofnun útgáfurétt á efninu í 10 ár frá árinu 1985 að telja. Að samningstíma loknum á Námsgagnastofnun forkaupsrétt að útgáfurétti að námsefninu og skal þá m.a. semja um þóknun til höfundar. Skv. 5. gr. samningsins er mælt fyrir um greiðslur til kæranda vegna gerðar námsefnisins vegna gerðar þess og þeirrar vinnu annarrar við það, sem fyrr greinir. Er miðað við að þessi vinna séu 4 mannmánuðir, er greiðist skv. reglum Menntamálaráðuneytisins varðandi launaflokk. Ekki er kveðið á um sérstaka þóknun vegna útgáfuréttar á samningstímabilinu. Að þessu athuguðu og málsatvikum að öðru leyti þ.á m. því, að kærandi er að aðalstarfi prófessor við skóla, þykir verða að byggja á því, að greiðslur til kæranda á árinu 1985 teljist launatekjur skv. 1. tl. A-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, svo sem raunar er tilgreint í launauppgjöf greiðanda. Brestur því lagaheimild til frádráttar kostnaðar á móti þessum tekjum. Skv. þessu verður að hafna kröfum kæranda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja