Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 721/1987

Gjaldár 1985-1986

Lög nr. 75/1981 —10. gr. — 15. gr.  

Bifreiðaviðskipti — Söluhagnaður — Skattskyldur söluhagnaður — Stofnverð — Ákvörðun söluhagnaðar — Skattfrelsi — Gróðaskyn — Lausafé — Söluhagnaður ófyrnanlegs lausafjár

Málavextir eru þeir, að kærandi færði sér til tekna í reit 76 í skattframtölum sínum árin 1985 og 1986 hagnað vegna sölu bifreiða 20.000 kr. fyrra árið og 14.000 kr. síðara árið. Árið 1984 keypti kærandi 8 bifreiðar en seldi 7 skv. gögnum um þessi viðskipti, er fylgdu skattframtalinu. Hann taldi aðeins hagnað vegna sölu bifreiðar af gerðinni Toyota Cressida, árg. 1977, 20.000 kr. skattskyldan. Árið 1985 keypti kærandi 5 bifreiðar, og seldi 5 bifreiðar. Hann reiknaði sér skattskyldan hagnað vegna sölu tveggja bifreiða, Mazda 929, árg. 1978 8.000 kr. og Toyota Cressida árg. 1979 6.000 kr. eða alls 14.000 kr.

Með bréfi, dags. 29. júlí 1986, tilkynnti skattstjóri kæranda, að fyrirhugað væri að taka skattframtöl hans árin 1985 og 1986 til endurálagningar og hækka söluhagnað vegna bifreiðaviðskipta um 19.915 kr. eða í 33.915 kr. á skattframtali árið 1986 og um 180.528 kr. eða í 202.528 kr. á framtali 1985.

Með kæru, dags. 10. ágúst 1986, mótmælti kærandi hinum fyrirhuguðu tekjuhækkunum. Taldi kærandi, að ekki kæmi til álita að líta á bifreiðaviðskipti hans sem atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi. Að því er varðar hagnaðarsjónarmið þá gerði kærandi grein fyrir ástæðum sínum með bifreiðaviðskiptunum, er væri áhugi á bifreiðum. Hann hefði fært sér til tekna söluhagnað af bifreiðum, sem hann hefði átt í mjög skamman tíma eða ekki keypt í ákveðnum tilgangi. Hann þyrfti á bifreið að halda í starfi að ósk vinnuveitanda og eiginkona hans þyrfti aðra bifreið til að aka á til og frá vinnu. Þá hefðu bifreiðar verið keyptar sérstaklega til þess að ferðast á í sumarfríum. Ekki stæðist skv. lögum að skattleggja söluhagnað af einkabifreiðum og vinnubifreiðum. Fór kærandi fram á, að tilfærður söluhagnaður til skatts yrði a.m.k. látinn óhaggaður standa, en hugsanlega væri réttara að fella hann alveg niður.

Með bréfi, dags. 26. september 1986, tilkynnti skattstjóri kæranda um framkvæmd hinna boðuðu breytinga og endurákvörðun áður álagðra opinberra gjalda gjaldárin 1985 og 1986 í því sambandi. Rök kæranda þættu ekki þess eðlis, að fallið yrði frá hinum boðuðu breytingum. Af hálfu umboðsmanns kæranda var kært til skattstjóra með bréfi, dags. 25. október 1986. Var farið fram á, að litið yrði á nokkurn hluta bifreiðanna sem einkabifreiðar. Kærandi hefði ekki kaup og sölu bifreiða að atvinnu. Hann stundaði fasta atvinnu hjá Mosfellshreppi og þyrfti á einkabifreið að halda í því starfi, sbr. ökutækjastyrk. Sömu sögu væri að segja um eiginkonu hans. Með kæruúrskurði, dags. 22. desember 1986, ákvað skattstjóri, að hin kærða endurákvörðun hans skyldi óbreytt standa, enda kæmi ekkert fram í kæru, sem ekki hefði áður legið fyrir.

Kæruúrskurði skattstjóra hefur af hálfu umboðsmanns kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 19. janúar 1987. Er aðalkrafan sú, að úrskurði skattstjóra verði breytt til samræmis við þær óskir, er fram hefðu komið í kæru til skattstjóra, dags. 25. október 1986. Til vara er sú krafa gerð, að viðurkenndur verði kostnaður við öflun þeirra tekna, sem skattstjóri hafi áætlað kæranda, fyrir árin 1985 og 1986. Varðandi varakröfuna fylgdi rekstrarreikningur kærunni fyrir árin 1984 og 1985, þar sem ýmsir gjaldaliðir eru færðir á móti þeim söluhagnaði, sem skattstjóri ákvarðaði. Er sagt, að hér sé um að ræða kostnað, er kærandi teldi sig hafa orðið fyrir við bifreiðamar umfram það, sem hann hefði gjaldfært í skýrslu vegna ökutækjastyrks.

Með bréfi, dags. 5. október 1987, krefst ríkisskattstjóri þess f.h. gjaldkrefjenda, að hinn kærði úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem tilefni geti gefið til breytinga á ákvörðun skattstjóra.

Kærandi þykir eigi hafa gert það glögga grein fyrir aðalkröfu sinni, að telja megi sýnt fram á það af hans hálfu, að söluhagnað vegna einhverra umræddra bifreiða skuli eigi telja honum til skattskyldra tekna á grundvelli ákvæða 2. mgr. 15. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Rétt þykir að vísa aðalkröfunni frá. Varakrafa kæranda varðar fjárhæð söluhagnaðar í heild, en í rekstraryfirlitum þeim, er kærunni fylgdu, eru greindir ýmsir kostnaðarliðir, ósundurgreint eftir bifreiðum. Í meginatriðum er þar um að ræða ýmsan rekstrarkostnað bifreiða, sem eigi kemur til lækkunar á söluhagnaði, sbr. 10. og 1. mgr. 15. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Eftir öllum atvikum og að virtri greinargerð kæranda þykir þó rétt að lækka fjárhæð söluhagnaðar um sölulaun og umskráningargjöld alls 22.385 kr. gjaldárið 1985 og 6.840 kr. gjaldárið 1986. Fjárhæð skattskylds söluhagnaðar verður því 180.143 kr. á skattframtali 1985 og 27.075 kr. á skattframtali 1986.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja