Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 732/1987
Gjaldár 1986
Lög nr. 75/1981 — 2. gr. 1. mgr. 5. tl. — 53. gr. — 66. gr. — 80. gr. 2. mgr.
Dánarbú — Sjálfstæður skattaðili — Verðbreytingarfærsla — Tekjufærsla vegna verðbreytingar — Ívilnun — Valdsvið ríkisskattanefndar — Frávísun
Málavextir eru þeir, að af hálfu kæranda, sem er dánarbú, var talið fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 1986. Eignir voru tilgreindar í íbúð í Reykjavík og vaxtaaukareikningur við X-banka. Engar skattskyldar tekjur voru taldar hafa fallið til skv. skattframtalinu.
Með bréfi, dags. 23. júlí 1986, tilkynnti skattstjóri kæranda, að sú breyting hefði verið gerð á skattframtalinu, að tekjur af fasteigninni hefðu verið hækkaðar um 57.105 kr., er væri 2,7% af fasteignamatsverði eignarinnar, sbr. ákvæði 2. mgr. 2. tl. C-liðs 7. gr. og 116. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Skv. gögnum málsins hefur skattstjóri byggt álagningu eignarskatts á skattframtalinu, en auk framangreindra tekna vegna fasteignarinnar hefur skattstjóri talið vaxtatekjur 127.344 kr. af fyrrnefndum sparifjárreikningi við X-banka til tekjuskattsstofns, þannig að sá stofn hefur verið ákvarðaður 184.449 kr. við frumálagningu opinberra gjalda gjaldárið 1986.
Af hálfu umboðsmanns kæranda var álagningin kærð með kæru, dags. 27. ágúst 1986. Var þess krafist, að álagður tekjuskattur yrði felldur niður. Dánarbúið hefði engar tekjur haft af fasteigninni árið 1985. Hún hefði staðið ónotuð með innbúi búsins, meðan á skiptum stóð. Bæri því að fella niður hinar reiknuðu leigutekjur, en öðrum tekjum væri ekki til að dreifa. Þá var farið fram á ívilnun í tekjuskatti og eignarskatti skv. ákvæðum 66. og 80. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Kærunni fylgdu ljósrit skiptagagna, þar sem m.a. kom fram, að greiddur hefði verið erfðafjárskattur að fjárhæð 193.178 kr. hinn 23. júlí 1986.
Skattstjóri tók kæruna til úrlausnar með kæruúrskurði, dags. 1. desember 1986. Féllst hann á niðurfellingu reiknaðra húsaleigutekna 57.105 kr. Hins vegar tók hann nú fram, að eins og fram kæmi á skattframtali dánarbúsins hefðu vaxtatekjur af vaxtaaukareikningi numið 127.344 kr., er væru skattskyldar skv. 3. tl. C-liðs 7. gr., sbr. 1. tl. 8. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og skattlegðust skv. 72. gr. sömu laga. Þá hafnaði skattstjóri ívilnunarbeiðni umboðsmanns kæranda.
Með kæru, dags. 29. desember 1986, hefur umboðsmaður kæranda skotið kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar. Er þess krafist, að álagður tekjuskattur og eignarskattur á kæranda gjaldárið 1986 verði niður felldir. Er gerð grein fyrir því, að arfleifandi, R., hafi andast 1. mars 1984, en hún hafi setið í óskiptu búi eftir eiginmann sinn, Ó. er látist hafi hinn 1. mars 1983. Gerð er grein fyrir eignum dánarbúsins, högum erfingja og drætti, er hafi orðið á búskiptum. Þá segir svo í kærunni:
„Ég vil mótmæla þeirri ákvörðun skattstjóra að skattleggja dánarbúið sem lögaðila. Leiðir það til bersýnilegrar ósanngjarnrar niðurstöðu, sem hefir varla verið vilji löggjafans. Dánarbúið sem slíkt hefur enga eðlilega frádráttarliði eða skattahagræði sem lögaðilar hafa venjulega, enda hefur engin „starfsemi“ átt sér stað hjá þessum „lögaðila“. Ég vil því óska eftir að beitt verði 66. gr. 1. um tekju- og eignarskatt til niðurfellingar á álögðum eignarskatti.
Að lokum óska ég eftir því að beitt verði ákvæði 1. tl. B-liðs 2. mgr. 30. gr. 1. um tekju- og eignarskatt um að felld verði niður skattlagning af vaxtatekjum búsins þar sem ekki er um að ræða atvinnurekstur. Er enda augljóst að vaxtatekjur búsins hafa ekki einu sinni náð því að halda í við verðbólgu, hvað þá að skapa raunverulegar tekjur. Ætti því alla vega að beita verðbreytingafærslum um vaxtatekjumar.“
Með bréfi, dags. 24. ágúst 1987, krefst ríkisskattstjóri þess, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.
Kærandi, sem er dánarbú undir skiptum, er sjálfstæður skattaðili skv. 5. tl. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Verður því eigi fallist á það með kæranda, að tilhögun skattlagningar á hann sé í meginatriðum röng. Skattstjóri hefur breytt skattframtali kæranda á þann veg, að hann hefur talið vexti að fjárhæð 127.344 kr. til skattskyldra tekna án þess að kæranda væri gert viðvart um þessa breytingu. Þá er til þess að líta, að dánarbúið stofnaðist á árinu 1984, en búskiptum lauk á árinu 1986 og varð þessi breyting skattstjóra því eigi framkvæmd nema kæranda gæfist færi á að reikna verðbreytingarfærslu skv. 53. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, svo sem umboðsmaður kæranda víkur raunar að í kærunni til ríkisskattanefndar. Af þessum sökum þykir verða að fella hina kærðu tekjuskattsálagningu niður. Álagning eignarskatts og eignarskattsauka grundvallast á skattframtali kæranda árið 1986 og ber að láta hana óhaggaða standa. Krafa um niðurfellingu eignarskatts er byggð á heimild þeirri til lækkunar stofns þess skatts, sem um ræðir í 2. mgr. 80. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Það er eigi á verksviði ríkisskattanefndar að fjalla um ívilnanir skv. 66. gr. og 2. mgr. 80. gr. laga nr. 75/1981, heldur ber það undir skattstjóra og ríkisskattstjóra. Er kærunni því vísað frá að svo miklu leyti, sem hún varðar slíkar beiðnir.