Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 733/1987

Gjaldár 1986

Lög nr. 75/1981 — 30. gr. 1. mgr. E-liður 1. tl. — 63. gr. 3. mgr. — 99. gr. — 100. gr   Lög nr. 60/1984 — VHI-kafli   Lög nr. 59/1973   Lög nr. 30/1970 — V-kafli  

Óvígð sambúð — Lögheimili — Sönnun — Sönnunargögn — Sambýlisfólk — Heimilisfesti — Samsköttun — Kærumeðferð — Úrskurðarvald ríkisskattstjóra — Íbúðarlán — Íbúðarhúsnæði — Vaxtagjöld — Húsbygging — Byggingarsamvinnufélag — Félagsmaður í byggingarsamvinnufélagi — Húsbyggjandi — Lántaki — Lögskýring — Leiðrétting skattframtals — Álagningarmeðferð skattstjóra

Málavextir eru þeir, að kærendur skiluðu staðfestu og undirrituðu skattframtali árið 1986 í viðbótarframtalsfresti það ár. í athugasemdadálki skattframtalsins óskuðu kærendur eftir skattlagningu eftir þeim reglum, sem gilda um skattmeðferð hjóna, þar sem þau hefðu búið saman í 5 ár og væru að kaupa íbúð. í fylgiskjali með skattframtalinu var gerð grein fyrir kaupum kærenda á íbúð í smíðum í Reykjavík, á vegum R, Reykjavík, en í það byggingarsamvinnufélag hefðu kærendur gengið hinn 7. júní 1985 og fest þá kaup á íbúðinni skv. kaupsamningi, dags. þann dag.

Með bréfi, dags. 25. júlí 1986, tilkynnti skattstjóri kæranda, X., að hann og Y. uppfylltu ekki skilyrði 3. mgr. 63. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, fyrir skattlagningu eftir þeim reglum, sem gilda um hjón og hefði þeim verið synjað um slíka skattlagningu skv. úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 30. maí 1985. Skattframtal sambýliskonu hefði verið sent skattstofu Reykjavíkur til álagningar.

Af hálfu kærenda var þessi höfnun skattstjóra kærð til hans með kæru, dags. 30. júlí 1986. Var þess krafist, að skattlagningu á kærendur yrði hagað eftir þeim reglum, sem um hjón gilda, enda fullnægðu þau skilyrðum 3. mgr. 63. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, þar sem þau hefðu verið í óvígðri sambúð í 5 ár. í kærunni var staðfesting E. og F. á staðhæfingu kærenda um sambúð sína. Þá var þess krafist í kærunni, að bréf, dags. 7. mars 1986, til skattstjóra yrði tekið til greina, en í því bréfi var farið fram á, að vaxtagjöld samtals að fjárhæð 96.971 kr. yrðu leyfð til frádráttar tekjum með vísan til yfirlits, er fylgdi bréfinu, yfir vaxtagjöld árið 1985 vegna byggingarflokks að A. og B. Hlutdeild kærenda í flokknum var 1,2%.

Skattstjóri tók kæruna til úrlausnar með kæruúrskurði, dags. 13. janúar 1987. Hafnaði hann kröfu kærenda um frádrátt vegna vaxtagjalda til R, þar sem um væri að ræða hækkun á umsömdu verði í kaupsamningi en ekki vexti af skuld eins og áskilið væri í 1. tl. E-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Þá hafnaði skattstjóri kröfu kærenda um skattlagningu eftir þeim reglum, sem gilda um hjón, með vísan til bréfs síns frá 25. júlí 1986, enda hefði enn ekki verið sýnt fram á með vottorði frá óvilhöllum aðilum, að um sambúð hefði verið að ræða, enda viðkomandi búsett hvort í sínu sveitarfélaginu.

Kæruúrskurði skattstjóra hefur af hálfu kærenda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, ódags., en móttekinni 23. janúar 1987. Ítreka kærendur kröfur sínar og leggja jafnframt fram vottorð G., H., I. og J., dags. 21. janúar 1987, um 5 ára sambúð þeirra.

Með bréfi, dags. 29. júní 1987, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu f.h. gjaldkrefjenda, að hinn kærði úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Skattstjóri synjaði kröfu kærenda um skattlagningu eftir þeim reglum, sem gilda um skattmeðferð hjóna á þeim forsendum, að kærendur uppfylltu eigi skilyrði þau, sem 3. mgr. 63. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, setur fyrir slíkri skattmeðferð sambýlisfólks og að þeim hefði verið synjað um slíka skattlagningu skv. úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 30. maí 1985 (sic). Í málinu liggur fyrir ljósrit af bréfi ríkisskattstjóra, dags. 30. maí 1986, til skattstjórans í Reykjanesumdæmi, sem er svar við bréfi skattstjórans, dags. 26. maí 1986, til ríkisskattstjóra „um skattlagningu og skattlagningarstað sambýlisfólks sem ekki átti lögheimili á sama stað í lok árs 1985“, eins og segir í nefndu bréfi ríkisskattstjóra, en bréf skattstjóra liggur ekki fyrir í máli þessu. Í 2. tl. þessa bréfs ríkisskattstjóra segir svo: „Ekki er fallist á að X. og Y„ verði skattlögð sem hjón við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1986, enda hafa ekki verið lögð fram gögn er sýni að sambúð þeirra hafi varað samfleytt í a.m.k. tvö ár.“ Í tilefni af bréfi þessu skal tekið fram, að hvorki með ákvæðum laga nr. 75/1981 né öðrum lagaákvæðum er ágreiningur um skilyrði fyrir þeirri sköttun sambýlisfólks, sem um getur í 3. mgr. 63. gr. laga nr. 75/1981, undanskilinn þeirri kærumeðferð, sem greinir í 99. og 100. gr. laganna, og lagður í úrskurðarvald ríkisskattstjóra. Hefur bréf ríkisskattstjóra því ekkert gildi í máli þessu og því eigi að neinu leyti litið til þess við úrlausn málsins. Var og eigi rétt af skattstjóra að byggja úrlausn sína alfarið á bréfi þessu sem bindandi um niðurstöðu málsins. Kærendur hafa stutt staðhæfingar sínar um sambúð vættisburðum sex aðila. Þykja þau hafa sýnt fram á, að þau uppfylli skilyrði 3. mgr. 63. gr. laga nr. 75/1981. Er krafa þeirra varðandi þetta kæruatriði tekin til greina. Bréf kærenda, dags. 7. mars 1986, varðandi vaxtagjöld til frádráttar var beiðni um leiðréttingu á áður innsendu skattframtali. Bar skattstjóra að veita beiðninni viðeigandi úrlausn í samræmi við það. Þess gætti hann eigi. Hvorki er deilt um fjárhæð þeirra vaxtagjalda, sem um ræðir í málinu né að kærendur hafi innt þau af hendi. Eftir því sem upplýst er í málinu voru umrædd vaxtagjöld af skuldum vegna kærenda sem félagsmanna í R, Reykjavík, vegna byggingar íbúðar. Að þessu virtu er fallist á vaxtagjöld þessi sem frádráttarbær vaxtagjöld í skilningi 1. tl. E-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. og ákvæði V. kafla laga nr. 30/1970, sbr. lög nr. 59/1973, og VIII. kafla laga nr. 60/1984. Með vísan til þess, sem að framan greinir, er fallist á kröfu kærenda um þetta kæruatriði.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja