Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 734/1987
Gjaldár 1986
Lög nr. 75/1981 — 30. gr. 1. mgr. C-liðar 3. tl.
Námsfrádráttur — Nám — Námsmaður — Grunnskólanám — Námstími
Málavextir eru þeir að á skattframtali sínu 1986, tilfærði kærandi námsfrádrátt í reit 51, 43.357 kr. vegna náms í skóla. Með bréfi, dags. 25. júlí 1986, tilkynnti skattstjóri kæranda að fyrrgreindur námsfrádráttur hefði verið felldur niður, þar sem grunnskólanám uppfyllti ekki skilyrði 3. tl. C-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um námsfrádrátt. Í kæru til skattstjóra, dags. 28. ágúst 1986, kom fram að kærandi hefði lokið grunnskólanámi í maí 1985 og hafið nám að nýju í ársbyrjun 1986. Kvaðst kærandi því eiga rétt á námsfrádrætti er samsvaraði 5 mánaða námi á árinu 1985 eða 36.131 kr. Kærandi mótmælti túlkun skattstjóra á 3. tl. C-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Þar sem kærandi væri orðinn sextán ára og hefði stundað nám á tekjuárinu væru skilyrði lagagreinarinnar uppfyllt um námsfrádrátt. í kæruúrskurði uppkveðnum 5. janúar 1987, synjaði skattstjóri kröfu kæranda með vísan til fyrra bréfs síns um ágreiningsefnið.
Úrskurði skattstjóra hefur verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 3. febrúar 1987. Er þess krafist að námsfrádráttur verði leyfður til frádráttar tekjum með sömu röksemdum og frá greinir í kæru til skattstjóra.
Kröfugerð ríkisskattstjóra f.h. gjaldkrefjenda, dags. 22. október 1987, er á þá leið að fallist verði á kröfur kæranda um námsfrádrátt vegna náms í 5 mánuði með vísan til 3. tl. C-liðar 1. mgr. 30 gr. laga nr. 75/1981.
Fallist er á kröfur kæranda í máli þessu.