Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 744/1987

Lög nr. 130/1984 — 5. gr.   Lög nr. 75/1981 — 44. gr. 1. mgr. 2.ml. — 95. gr. — 96. gr. — 99. gr. — 100. gr.  

Álagningarmeðferð skattstjóra — Skattframtal, ófullnægjandi — Kærumeðferð — Rökstuðningur kæru — Sérstök fyrning — Skattstofn áætlaður vegna vantandi greinargerðar — Sérstakur eignarskattur

Málavextir eru þeir, að skattstjóra barst staðfest og undirritað skattframtal frá kæranda árið 1985, er skattstjóri lagði til grundvallar álagningu opinberra gjalda við frumálagningu gjaldárið 1985. Ekki fylgdi skattframtalinu ársreikningur vegna útleigu kæranda á atvinnuhúsnæði í Reykjavík, í félagi við annan mann og hefur skattstjóri skráð athugasemd um þetta á skattframtalið. Þá hefur skattstjóri við frumálagningu áætlað kæranda stofn til álagningar sérstaks skatts á verslunar- og skrifstofuhúsnæði vegna eignarhluta hans í umræddri fasteign. Af hálfu kæranda var álagningin kærð með kæru, dags. 21. ágúst 1985, og boðað, að nánari grein yrði gerð fyrir kærunni síðar. Með kæruúrskurði, dags. 22. október 1985, vísaði skattstjóri kærunni frá sökum vanreifunar með því að boðaður rökstuðningur hefði ekki borist, sbr. 1. ml. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Næst gerðist það í málinu, að með bréfi, dags. 23. október 1985, sendi umboðsmaður kæranda skattstjóra ársreikning fyrir árið 1984 ásamt fylgiskjölum vegna reksturs fasteignarinnar, og fór fram á, að skattframtal árið 1985 yrði leiðrétt með hliðsjón af honum. Gögn þessi bárust skattstjóra hinn 28. október 1985 samkvæmt áritun skattstjóra á þau um móttöku þeirra. Með bréfi, dags. 10. febrúar 1987, framsendi skattstjóri ríkisskattanefnd bréf kæranda ásamt gögnum þessum með því að þau hefðu borist í kærufresti til nefndarinnar, sbr. 100. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Með bréfi, dags. 22. október 1987, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu, að frávísunarúrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Eigi var rétt af skattstjóra að byggja frumálagningu opinberra gjalda gjaldárið 1985 á fyrirliggjandi skattframtali árið 1985 óbreyttu þrátt fyrir það, að fyrir lægi að ársreikning vegna nefnds rekstrar vantaði, sbr. 96. gr. laga nr. 75/1981. Þá hefur skattstjóri tekið bréf kæranda, dags. 23. október 1985, sem kæru til ríkisskattanefndar, en framsendir nefndinni bréfið ásamt meðfylgjandi gögnum eigi fyrr en 10. febrúar 1987. Verður eigi hjá því komist að gera athugasemd við þann mikla drátt, sem orðið hefur á afgreiðslu málsins af hálfu skattstjóra. Af hálfu ríkisskattstjóra er þess krafist í málinu, að hinn kærði frávísunarúrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans þrátt fyrir að hinn boðaði rökstuðningur liggi fyrir af hendi kæranda. Eigi verður séð, að þessi kröfugerð fái staðist, en engar efnislegar kröfur eru gerðar af hálfu ríkisskattstjóra og við hin innsendu gögn hefur hann engar athugasemdir fram að færa. Eins og mál þetta liggur fyrir þykir rétt að byggja á hinum innsendu gögnum og breyta álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1985 í samræmi við það. Þá leiðréttingu þykir bera að gera með vísan til 2. ml. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 75/1981, að þar um rædd fyrning lækkar að hlut kæranda úr 236.097 kr. í 142.186 kr. Samkvæmt þessu verða hreinar tekjur í reit 62 93.911 kr. Rétt þykir, að áætlun skattstjóra á sérstökum skatti á verslunar- og skrifstofuhúsnæði standi óhögguð, enda er af hálfu kæranda eigi gerð nein grein fyrir stofni til skatts þessa, sbr. 5. gr. laga nr. 130/1984, um sérstakan skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja