Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 776/1987
Gjaldár 1984
Lög nr. 75/1981 — 2. gr. — 57. gr. 3. mgr. — 95. gr. — 96. gr. — 99. gr. 1. mgr. — 100. gr. 8. mgr.
Sameignarfélag — Síðbúin framtalsskil — Kæruúrskurður skattstjóra — Framsending ríkisskattanefndar til skattstjóra — Úrskurðarfrestur skattstjóra — Eignasala — Málamyndagerningur — Söluhagnaður — Frestun skattlagningar söluhagnaðar — Slit sameignarfélags — Yfirfærsla skattskylds söluhagnaðar — Ábyrgð á greiðslu opinberra gjalda — Lögskýring — Lagaheimild — Vanreifun — Frávísun
Málavextir eru þeir, að af hálfu kæranda, sem er sameignarfélag, var ekki talið fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 1984 og sætti harm því áætlun skattstjóra við frumálagningu opinberra gjalda gjaldárið 1984 að viðbættu 25% álagi á hina áætluðu skattstofna skv. heimildarákvæðum 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Af hálfu kæranda var álagningin kærð til skattstjóra með kæru, dags. 21. ágúst 1984, og boðað, að rökstuðningur yrði sendur síðar. Með kæruúrskurði, dags. 23. nóvember 1984, vísaði skattstjóri kærunni frá vegna vanreifunar, þar sem boðaður rökstuðningur hefði ekki borist, sbr. 1. ml. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981. Þessum frávísunarúrskurði var af hálfu kæranda skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 20. desember 1984 og boðað, að rökstuðningur yrði sendur síðar. Með úrskurði nr. 193 frá 9. maí 1985 vísaði ríkisskattanefnd kærunni frá sem vanreifaðri, þar sem boðaður rökstuðningur hefði ekki borist. Með bréfi, dags. 13. desember 1985, fór umboðsmaður kæranda fram á það, að fyrrnefndur frávísunarúrskurður yrði endurupptekinn og skattframtal árið 1984, er bréfinu fylgdi, yrði lagt til grundvallar álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1984 í stað hinna áætluðu skattstofna. Með úrskurði nr. 726 frá 20. desember 1985 vísaði ríkisskattanefnd kærunni ásamt skattframtali árið 1984 til skattstjóra til meðferðar og uppkvaðningar nýs kæruúrskurðar, sbr. 8. mgr. 100. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.
Skattstjóri kvað upp nýjan kæruúrskurð hinn 1. desember 1986. Hafnaði hann því að leggja innsent skattframtal kæranda árið 1984 til grundvallar álagningu opinberra gjalda það ár, þar sem framtalið væri í þeim mæli ófullnægjandi og tortryggilegt, að rétt álagning yrði ekki byggð á því. Forsendur skattstjóra fyrir þessari niðurstöðu eru svofelldar í kæruúrskurðinum:
„Rekstursreikningur sem fylgir innsendu framtali sýnir rekstur á tímabilinu 1.1. — 31.7. 1983. Engar eignir né skuldir eru taldar vera hjá félaginu í árslok 1983. Á rekstursreikningi er færður söluhagnaður að fjárhæð kr. 147.540,- án skýringa á því hvernig hann er ákvarðaður. Jafnframt er frestað skattlagningu söluhagnaðar sem nemur kr. 56.941,- þannig að tekjur og gjöld standast á.
Út frá bókfærðu verði innréttinga skv. fyrningarskýrslu, sem augsýnilega hafa verið seldar, má komast að þeirri niðurstöðu að söluverð seldra eigna hafi numið kr. 1.400.000,-Samkvæmt samningi dags. 27. júlí 1983 er skattstjóri hefur undir höndum er skyndibitastaðurinn X., seldur Y. og miðast sala við 30. júlí 1983. Seljandi skv. samningi þessum er sameignarfélagið A. og B. s/f (kærandi máls þessa) og undirrita eigendur firmans nöfn sín til staðfestingar samningnum. Söluverð samkvæmt samningnum er kr. 3.000.000,-. Samkvæmt upplýsingum er skattstjóra hafa borist frá þeim endurskoðanda er annast hefur framtalsgerð kæranda var samningur um sölu á X., gerður í nafni firmans A. og B. s/f en K. h/f, sem annar eigandi sameignarfélagsins er aðalhluthafi í, hafi áður átt að hafa keypt reksturinn.
Að ofanrituðu verður ekki annað ráðið en að eignir kæranda hafi verið seldar K. h/f á kr. 1.400.000,- en sömu eignir síðan seldar aftur í sama mánuði á kr. 3.000.000,-. Slíkur munur á söluverði eignanna með svo stuttu millibili hlýtur að teljast tortryggilegur og ber með sér að yfirfærsla eigna frá kæranda til K. h/f (áður L. hf.) sé málamyndagerningur. Verður ekki litið öðruvísi á en að verið sé að sýna söluhagnað verulega lægri hjá kæranda en hann væri ella ef um viðskipti milli óskyldra aðila væri að ræða. Þá þykir ekki fá staðist sá færslumáti kæranda að fresta skattlagningu hluta söluhagnaðar í ljósi þess að hann hefur selt L. h/f (nú K.h/f) allan rekstur, eignir og skuldbindingar 1. ágúst 1983 og sameignarfélagið jafnframt lagt niður skv. tilkynningu til firmaskrár Reykjavíkur þann 27. september 1984.“
Með kæru, dags. 23. desember 1986, hefur umboðsmaður kæranda skotið kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar. Er þess krafist aðallega, að skattframtal kæranda verði lagt til grundvallar álagningu opinberra gjalda hans gjaldárið 1984. Varðandi frestun söluhagnaðar hjá kæranda, sem er sameignarfélag og sjálfstæður skattaðili, þá er þess krafist, að hann verði yfirfærður á eigendur sameignarfélagsins við slit þess en komi ekki til skattlagningar hjá því, enda beri eigendur fulla ábyrgð á greiðslu opinberra gjalda og annars, sem félagið kann að skulda við slitin, sbr. m.a. 3. mgr. 57. gr. laga nr. 75/1981. Þá er því mótmælt að sala kæranda á fastafjármunum til K. h.f. fyrir kr. 1.400.000 sé á nokkurn hátt tortryggileg, þótt sömu eignir hafi stuttu síðar verið seldar fyrir kr. 3.000.000. Hér hafi lögmál markaðsaflanna einfaldlega verið á ferðinni. Umboðsmaðurinn kveður ástæðuna fyrir því, að seinni kaupsamningurinn hafi verið gerður í nafni kæranda, en ekki í nafni K. h.f. eins og átt hefði að vera að réttu lagi, vera þá, að ekki hefði verið búið að þinglýsa fyrri kaupsamningnum á nafn K. h.f., þannig að hagkvæmara hefði þótt að láta kaupsamning vera í nafni kæranda. Kæranda sé nú ljóst, að hér hafi ekki verið staðið lögformlega rétt að málum. Verði afrit beggja kaupsamninganna send ríkisskattanefnd um leið og tekist hefði að útvega þau. Þá er af hálfu kæranda talið, að skattstjóra hafi verið óheimilt skv. 96. gr. laga nr. 75/1981 að hafna skattframtalinu. Hann gerir þá varakröfu, að skattstjóra hafi borið að leggja skattframtalið óbreytt til grundvallar álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1984 sökum þess, að hann hafi ekki gætt ákvæða 8. mgr. 100. gr. laga nr. 75/1981 um 30 daga frests til uppkvaðningar nýs kæruúrskurðar. Með bréfi, dags. 2. apríl 1987, barst frá kæranda ljósrit kaupsamnings, dags. 1. júlí 1983, vegna sölu kæranda til L. h.f. á skyndibitastaðnum „X.". í málinu liggur fyrir ljósrit kaupsamnings, dags. 23. júlí 1983, um sölu kæranda á nefndum rekstri til Y.
Með bréfi, dags. 2. september 1987, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu, að hinn kærði úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið, sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.
Rétt þykir að víkja fyrst að málsástæðum kæranda varðandi formlega meðferð málsins af hendi skattstjóra, sbr. það m.a. er segir í varakröfu hans. Eigi verður á það fallist með kæranda, að það sem hann færir fram um formhlið málsins, hafi getað bundið hendur skattstjóra með þeim hætti, sem haldið er fram. Verða þá efnisatriði málsins tekin til úrlausnar. Krafa kæranda um meðferð söluhagnaðar á sér eigi lagastoð með því að kærandi er sjálfstæður skattaðili. Að virtum gögnum málsins, þ.á m. nefndum kaupsamningum, þykir eigi af hálfu kæranda hafa verið gerð viðhlítandi grein fyrir sölu þeirri, sem í málinu greinir og fjárhæð söluhagnaðar í því sambandi. Að svo vöxnu máli þykir bera að vísa kærunni frá.