Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 788/1987

Gjaldár 1984—1985

Lög nr. 75/1981 — 2. gr. 5. tl. — 91. gr. — 94. gr.   Lög nr. 14/1965  

Launaskattur — Launatengd gjöld — Launaskattsskylda — Gagnaöflunarúrræði — Lögaðili — Skattskylda — Framtalsskylda — Sératkvæði

Kærð er álagning launatengdra gjalda og launaskatts gjaldárin 1984 og 1985 vegna meintra launagreiðslna á árunum 1983 og 1984. Er þess krafist að gjöld þessi verði felld niður þar sem engin laun hefðu verið greidd á þessum árum.

Með bréfi dags. 7. ágúst 1987 gerir ríkisskattstjóri svofellda kröfu í máli þessu fyrir hönd gjaldkrefjenda: „Þar sem kærandi hefur enn ekki sinnt lagaskyldu sinni skv. 91. gr. laga 75/1981, sbr. 5. tl. 2. gr. s.l. ásamt því að rökstuðningur með kæru er að öðru leyti ófullnægjandi, er þess krafist að kærunni verði vísað frá ríkisskattanefnd, enda verður að álíta að málið sé vanreifað af hálfu kæranda.“

Atkvæði meirihluta:

Með bréfi skattstjóra dags. 17. mars 1986 sbr. bréf 31. júlí 1986 er krafist að kærandi skili framtölum, ársreikningum og tilheyrandi gögnum, þar á meðal launamiðum og vísað í því sambandi til 91. gr. laga 75/1981. Í framhaldi af því að kærandi skilaði ekki umbeðnum gögnum áætlaði skattstjóri kæranda launaskattsstofn fyrir árin 1984 og 1985. Ekki er á það fallist að lög um launaskatt nr. 14/1965 með síðari breytingum heimili framangreinda meðferð skattstjóra, enda kostur annarra úrræða sbr. 94. gr. laga 75/1981. Krafa kæranda er því tekin til greina.

Atkvæði minnihluta:

Hvorki skattstjóri né ríkisskattstjóri hafa hrakið þá staðhæfingu kæranda að hann hafi engin þau laun greitt á árunum 1983 og 1984 sem skapi honum skyldu til greiðslu hinna kærðu gjalda. Er því fallist á kröfu kæranda í máli þessu.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja