Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 815/1987
Gjaldár 1986
Lög nr. 75/1981 — 31. gr. 1. tl. — 54. gr. 1. mgr.
Fjárfestingarsjóðstillag — Námskostnaður — Rekstrarkostnaður
Kæruatriði máls þessa eru sem hér greinir:
1.Fjárfestingarsjóðstillag. Skattstjóri lækkaði frádrátt vegna fjárfestingarsjóðstillags úr 242.235 kr. í 194.000 kr. eða um 48.235 kr. Vísaði skattstjóri til þess, að skv. 1. mgr. 54. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 10. gr. laga nr. 8/1984, um breyting á þeim lögum, væri frádráttur þessi bundinn því skilyrði, að skattaðili legði a.m.k. 50% fjárfestingarsjóðstillagsins inn á bundinn reikning í innlendum banka eða sparisjóði fyrir 1. júní næst á eftir lokum þess almanaksárs, sem tillagið varðaði. Við athugun á reikningsyfirlitum frá innlánsstofnunum vegna fjárfestingarsjóðsreikninga hefði komið í ljós, að innlegg kæranda á reikning nr. við útibú X-banka hefði numið 97.000 kr. Hámark frádráttarbærs fjárfestingarsjóðstillags næmi því 194.000 kr.
Í kæru til yfirskattanefndar, dags. 23. febrúar 1987, krefst umboðsmaður kæranda þess, að breytingu skattstjóra verði hrundið og fjárfestingarsjóðstillagið verði látið óhaggað standa. Rökstuðningur umboðsmannsins er svofelldur:
„Frádráttur vegna tillags í fjárfestingarsjóð hefur verið lækkaður um kr. 48.235,- þar sem innlegg á fjárfestingarsjóðsreikning nr................... nam aðeins kr. 97.000,-. Við ákvörðun á innleggi 1986 var tekið tillit til þess, að árið 1985 var ofgreitt um 50% inná fjárfestingarsjóðsreikning nr................ og hefur umbjóðandi minn því uppfyllt kröfur um að 50% fjárfestingarsjóðstillegg er bundið á bankareikningi innan 5. mán. frá lokum lreikningsárs.
Tillegg í fjárfestingarsjóð 1985 kr. 49.832 innlagt 50.000
" " " 1986 " 242.235 " 97.000
292.058 " 147.000
Með hliðsjón af þessum upplýsingum, óska ég eftir að fjárfestingarsjóðstillegg verði leiðrétt.
Hjálagt fylgir ljósrit af stöðu beggja reikninga.
2. Námskostnaður. Á rekstrarreikningi sínum vegna „olíusöfnunar“ gjaldfærði kærandi námskostnað 10.400 kr. Þennan gjaldalið felldi skattstjóri niður á þeim forsendum, að ekki væri hér um frádráttarbæran rekstrarkostnað að ræða í skilningi 1. tl. 31. gr. laga nr. 75/1981.Í kæru til ríkisskattanefndar, dags. 23. febrúar 1987, krefst umboðsmaður kæranda þess, að umræddur gjaldaliður verði tekinn til greina með svofelldum rökum og skýringum:
„Umræddur námskostnaður er greiðsla fyrir „meiraprófsréttindi“ til aksturs. Þessi réttindi eru umbjóðanda mínum nauðsynleg, þar sem atvinnustarfsemi fyrirtækis hans felst í söfnun úrgangsolíu með tankbílum og sala og afgreiðsla á henni. Umbjóðandi minn er menntaður skipstjóri og má leiða líkur að því, að hann myndi snúa aftur til þeirra starfa ef hann hætti þessum atvinnurekstri. Á þeirri forsendu var umræddur kostnaður gjaldfærður í bókhaldi hans, þar sem þessi réttindi eru honum nauðsynleg eingöngu í þessum rekstri og forsenda fyrir hagkvæmni.
Ég vil því fullyrða, að útgjöld þessi falli undir ákvæði 1. tl. 31. gr. laga nr. 75/1981 þ.e. „gjöld sem eiga á árinu að ganga til að afla teknanna, tryggja þær og viðhalda“.“
Með bréfi, dags. 22. október 1987, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu, að hinn kærði úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.
Um 1. tl. Ákvæði 1. mgr. 54. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, verða eigi skýrð eða skilin svo, að þau girði fyrir hinn umkrafða frádrátt. Er krafa kæranda tekin til greina um þetta kæruatriði.
Um 2. tl. Kærandi þykir hvorki hafa sýnt fram á, að umræddur kostnaður sé frádráttarbær sem rekstrarkostnaður skv. 1. tl. 31. gr. laga nr. 75/1981 né að gjaldfærsla hans sé heimil af öðrum ástæðum í rekstri kæranda. Er úrskurður skattstjóra staðfestur að niðurstöðu til að því er þetta kæruatriði áhrærir.