Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 849/1987

Gjaldár 1986

Lög nr. 75/1981 — 61. gr. — 99. gr. — 100. gr. 8. mgr.  

Tekjuuppgjörsaðferð — Kærumeðferð — Framsendingarheimild ríkisskattanefndar — Frávísun — Tekjuuppgjör

Málavextir eru þeir, að skattstjóra barst hinn 4. júlí 1986 skattframtal kæranda árið 1986. Hvorki fylgdi ársreikningur né fylgiskjöl skattframtali þessu. Skattstjóri lagði skattstofna skv. gagni þessu til grundvallar við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1986. Með kæru, dags. 28. ágúst 1986, sendi umboðsmaður kæranda skattstjóra ársreikning árið 1985 og tilskilin fylgiskjöl skattframtalsins. Fór hann fram á, að skattstofnum kæranda yrði breytt til samræmis við gögn þessi og óskaði jafnframt eftir því að álagi yrði ekki beitt. Með kæruúrskurði, dags. 18. desember 1986, féllst skattstjóri á að haga álagningu opinberra gjalda kæranda gjaldárið 1986 í samræmi við hin innsendu gögn, þó þannig, að 15% álagi væri bætt við tekjuskattsstofn.

Kæruúrskurði skattstjóra hefur af hálfu umboðsmanns kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 16. janúar 1987. Krafa umboðsmannsins er sú, að kæranda verði leyft að nýta sér heimild 61. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og miða tekjuuppgjör rekstrarins við innborganir vegna seldrar þjónustu, enda sé ljóst, að kærandi uppfylli skilyrði nefndrar lagagreinar. Við innsendingu ársreiknings 1985 hinn 28. ágúst 1986 hafi láðst að fara fram á heimild þessa. í kærunni sundurliðar umboðsmaður kæranda útistandandi skuldir pr. 31. desember 1985 v/seldrar þjónustu og nemur heildarfjárhæðin 265.134 kr. Er þess farið á leit, að þessi fjárhæð verði dregin frá tekjuskattsstofni á framtali árið 1986 með vísan til 8. mgr. 100. gr. laga nr. 75/1981.

Með bréfi, dags. 5. október 1987, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:

„Að kærunni verði vísað frá ríkisskattanefnd þar sem ekki virðist liggja fyrir úrskurður skattstjóra um kæruatriðið, skv. 99. gr. laga nr. 75/1981, sem kæranlegur er til ríkisskattanefndar. Beiðni sú sem í kærunni felst, með vísan til 8. mgr. 100. gr. laga nr. 75/1981, er alfarið í höndum ríkisskattanefndar til ákvörðunar.“

Eigi liggur fyrir úrlausn skattstjóra um kæruefnið. Að svo vöxnu og eins og mál þetta er lagt fyrir þykir bera að vísa kærunni frá. Út af kærunni og kröfugerð ríkisskattstjóra skal tekið fram, að ákvæði 8. mgr. 100. gr. laga nr. 75/1981 eiga ekki við í máli þessu.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja