Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 893/1987
Gjaldár 1984
Lög nr. 75/1981 — 30. gr. 1. mgr. E-liður 1. tl.
Vaxtagjöld — Dráttarvextir — Verðbætur — Útreikningsaðferð dráttarvaxta — Íbúðarhúsnæði — Byggingarsamningur
Kærð er endurákvörðun skattstjóra á opinberum gjöldum kæranda gjaldárið 1984. Var sú endurákvörðun á því byggð að skattstjóri taldi að kærandi hefði offært vaxtagjöld til frádráttar í skattframtali árið 1984 um 50.367 kr. Taldi skattstjóri að hér væri um að ræða verðbætur „á umsamdar greiðslur skv. byggingarsamningi sem miðast hafa við greiðsludag.“ Af hálfu kæranda er þessari afstöðu skattstjóra mótmælt og fullyrt að nefnd fjárhæð sé í raun greiðsla dráttarvaxta vegna vanskila kæranda reiknaðir og greiddir í samræmi við tilgreint ákvæði í samningi kæranda við nefnt byggingarfélag. Er þess krafist að endurákvörðun skattstjóra verði felld úr gildi.
Með bréfi dags. 27. mars 1987 gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í máli þessu fyrir hönd gjaldkrefjenda:
„Að ríkisskattanefnd vísi kærunni frá.
Í verklagsreglum ríkisskattstjóra varðandi kaup- og verksamninga kemur fram að verðbætur á kaup- eða samningsverð teljist ekki vera vextir af skuld og séu því ekki frádráttarbærar frá tekjum. Er ljóst að ekki er ágreiningur um þetta atriði. Í framhaldi af þessu segir í nefndum verklagsreglum að sama gildi um svokallaða vexti sem reiknaðir eru í stað verðbóta eða ásamt verðbótum, svo og vexti er reiknast á ógreiddar verðbætur skv. slíkum samningi. Eigi verður annað séð en að dráttarvexti, sem um er deilt í máli þessu, verði að telja „vexti er reiknast á ógreiddar verðbætur skv. slíkum samningi" og því eigi frádráttarbæra. Á það er þó fallist að dráttarvextir sem kunna að hafa fallið á samningsbundnar greiðslur frá þeim tíma er verksali hafði efnt verksamning að sínu leyti (15. sept. 1983) séu frádráttarbærir. Fjárhæð þessara „hugsanlegu“ dráttarvaxta liggur ekki fyrir og er því gerð krafa um að kærunni verði vísað frá.
Fallist ríkisskattanefnd á sjónarmið kæranda í máli þessu er á það bent að dráttarvextir frá árinu 1982 virðast að einhverju leyti meðtaldir í hinni umþrættu fjárhæð, kr. 50.367.“
Svo sem mál þetta liggur fyrir þykja ekki efni til annars en fallast á kröfu kæranda.