Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 11/1988

Gjaldár 1986

Lög nr. 75/1981 — 31. gr. 1. tl. — 41. gr. — 55. gr. — 55. gr. A  

Gjaldfærsla kostnaðarverðs lausafjár — Endingartími — Fyrning — Fyrnanleg eign — Fyrningarhlutfall — Lausafé — Eignarhluti í lausafé — Rekstrarkostnaður — Myndverk — Lögmaður — Skrifstofubúnaður — Eignasamstæða — Námskeið — Námskeiðskostnaður — Málþing — Vátryggingar — Líftryggingagjald — Kæranleg skattákvörðun — Vanreifun — Fjárfestingarsjóður — Fjárfestingarsjóðstillag — Álag á tekjufært fjárfestingarsjóðstillag

I

Kærðar eru til ríkisskattanefndar eftirgreindar breytingar, sem skattstjóri gerði á skattframtali kæranda árið 1986, sbr. bréf skattstjóra, dags. 15. maí 1986 og 25. júlí 1986, og svarbréf umboðsmanns kæranda, dags. 28. maí 1986, svo og kæru, dags. 22. ágúst 1986, er úrlausn fékk með kæruúrskurði skattstjóra, dags. 5. janúar 1987.

1. Gjaldfærsla tölvu. ljósritunarvélar og húsgagna. Samkvæmt rekstrarreikningi 1. maí — 31. desember 1985 fyrir M. er kærandi hóf að starfrækja á árinu 1985 í félagi við þrjá aðra aðila, var gjaldfærð tölva ásamt fylgihlutum samtals að fjárhæð 224.844 kr., ljósritunarvél að fjárhæð 179.390 kr., húsgögn í biðstofu og fundarherbergi o.fl. 232.816 kr. og myndverk að fjárhæð 52.600 kr. í skýringum með ársreikningi M. var þessara gjaldfærslna getið sem sameiginlegra kaupa á skrifstofubúnaði og jafnframt tekið fram, að gjaldfærsla á einstökum hlutum að verðmæti umfram lágmark (sic) það, sem greindi í 41. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, byggðist á því, að munirnir væru í sameign fjögurra aðila og hlutur hvers um sig undir nefndu lágmarki (sic). Jafnframt þessum sameiginlegu kaupum á skrifstofubúnaði var um að ræða sérkaup eignaraðila á slíkum búnaði, er einnig voru gjaldfærð og sundurliðun gefin í skýringum með ársreikningnum.

Í framhaldi af bréfi sínu, dags. 15. maí 1986, tilkynnti skattstjóri kæranda með bréfi, dags. 25. júlí 1986 að gjaldfærsla tölvu, ljósritunarvélar og húsgagna samtals að fjárhæð 637.050 kr. væri óheimil skv. 41. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt og væri því niður felld. Hins vegar færðist til gjalda 20% fyrning þessara eigna eða 127.410 kr. Þá teldust kaup á myndverkum ekki til rekstrarútgjalda og væri því gjaldfært kaupverð þeirra 52.600 kr. fellt niður. Byggði skattstjóri á því, sbr. m.a. kæruúrskurð hans, dags. 5. janúar 1987, að kostnaðarverð umræddra eigna væri yfir því hámarki, sem greindi í 41. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, en það hefði verið 61.200 kr. gjaldárið 1986. Skv. þessu lagaákvæði mætti færa kostnaðarverð einstakra eigna eða eignasamstæðna undir nefndu hámarki að fullu til gjalda á því ári, þegar þeirra væri aflað, þótt endingartími væri lengri en þrjú ár. Í þessu lagaákvæði væri hvergi getið um eignarhluta.

Af hálfu kæranda er því haldið fram að miða beri við verðmæti eignarhluta hans í umræddum eignum með tilliti til heimildar 41. gr. laga nr. 75/1981. Eignarhlutur hans í tölvu nemi 56.211 kr., í ljósritunarvél 44.847 kr. og í húsgögnum 58.204 kr. og sé gjaldfærsla í öllum tilvikum undir lögmæltu hámarki. Í kæru til ríkisskattanefndar er að finna svohljóðandi rökstuðning um þetta kæruatriði:

„Skattaðili rekur lögmannsskrifstofu í Reykjavík ásamt 3 öðrum aðilum.

Lögmannsskrifstofan er rekin sameiginlega af öllum aðilum en ekki skráð sem sérstakt fyrirtæki og er ekki sjálfstæður skattaðili. Til rekstrarins var keyptur ýmis sameiginlegur skrifstofubúnaður og meðal annars einstakar eignir eða eignasamstæður sem voru að kostnaðarverði yfir því hámarki sem tilgreint er í skattalögum (41. gr.) að leyfist að fullu til frádráttar. Við gerð sameiginlegs rekstrarreiknings voru tilteknar eignir hins vegar gjaldfærðar að fullu á þeirri forsendu að einstök eign eða eignasamstæða hvers einstaks skattaðila væri undir því hámarki sem heimilt væri að telja að fullu til gjalda samkvæmt 41. gr. laga nr. 75/1981.

Samkvæmt úrskurði skattstofunnar ber að miða gjaldfærslu skv. 41. gr. við verðmæti eignar eða eignasamstæðu sem einnar heildar en ekki miða við verðmætið í hendi einstaks skattaðila. Með bréfi þessu er andmælt þessum skilningi eins og hann kemur fram í úrskurðinum.

Í öllum tilvikum skattalaga nr. 75/1981 þegar fjallað er um tekjur og frádráttarliði skattaðila, svo og eignir og skuldir, þá eru lagagreinamar þess eðlis, að þau atriði sem hver einstök grein túlkar um skattskyldu, eru einstaklingsbundin um leið og þau eru almenns eðlis. Hér er átt við að skattskylda færist hvergi á milli eða breytist við það t.d. að fleiri en einn afla tekna saman, fleiri en einn eiga hlut saman o.s.frv. Þegar 2 eða fleiri skattaðilar eiga eign eða eignasamstæðu saman, þá er þeirri eign til skatts skipt á milli skattaðila í sömu hlutföllum og eignaraðild þeirra er. Þar er ótvírætt talið að eign eins skattaðila sé ekki meiri eða minni en eignarhlutdeild hans segir til um. Ekki verður séð að þessi staðreynd eigi að breytast við það hvað eign eða eignasamstæða kostar. Eignarhlutdeild í eign eða eignasamstæðu verður almennt séð aldrei meiri en svarar til framlags eignaraðila í hlutfalli af heildarverði. í því tilviki sem hér er kært, þá á skattaðili eignir (skrifstofubúnað) með 3 öðrum aðilum og þar sem kostnaðarverð einstakra eigna í eigu umbjóðanda míns er undir því hámarki sem ákvæði 41. gr. laga nr. 75/1981 ná til, þá var eignin gjaldfærð að fullu.

Um frekari rökstuðning vísast og til kæru til Skattstofu Reykjanesumdæmis, dags. 22.8. 1986, málsliður nr. 1.

Þá er ennfremur kært að Skattstofan leyfir ekki til frádráttar myndverk, kr. 52.600,-, sem eru hluti skrifstofubúnaðar, og voru keypt sameiginlega af 4 aðilum (kr. 13.150 á hvern skattaðila). Vísast hér til lokamálsgreinar í lið 1 í áðurgreindu kærubréfi dags. 22. 8. 1986.“

Varðandi gjaldfærslu myndverka þá kemur fram af hálfu kæranda í kæru til skattstjóra, dags. 22. ágúst 1986, að myndverk þessi séu hluti skrifstofubúnaðar og þjóni þeim tilgangi að gera starfsaðstöðu meira aðlaðandi. Sú ráðstöfun að kaupa nokkrar svartlistarmyndir í þessu skyni teldist útgjöld til teknaöflunar.

2. Kostnaður vegna námskeiða og málþings. Í rekstrarreikningi M. var meðal almennra rekstrargjalda gjaldfærður kostnaður að fjárhæð 23.300 kr. vegna námskeiða og málþings. Þennan gjaldalið felldi skattstjóri niður með því að hann teldist ekki vera til öflunar tekna í atvinnurekstri samkvæmt 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og væri hvergi í tekjuskattslögum að finna heimild til þessa frádráttar.

Af hálfu kæranda er þess krafist, að þessi gjaldaliður verði tekinn til greina, enda sé þessi kostnaður til öflunar tekna í atvinnurekstri. Fram hefur komið af hálfu kæranda, að kostnaður þessi sé vegna þátttöku eigenda og starfsmanna M. Í námskeiði vegna ritvinnslukerfis á tölvum, sem tekið hefði verið í notkun á árinu 1985, auk þess sem lögmennirnir hefðu sjálfir sótt málþing Lögmannafélags Íslands, er fjallaði um fagleg málefni.

3. Annað. Í niðurlagi kæru sinnar til ríkisskattanefndar, dags. 3. janúar (sic) 1987, segir svo: „I samantekt er því með kæru þessari mótmælt öllum þeim breytingum sem skattstofan gerði með bréfi dags. 25.07. 1986 og sem skattstjóri síðan hafnaði að gera nokkrar breytingar á, sbr. skattkæru dags. 22.08. 1986 og úrskurð dags. 05.01. 1987.“ Með bréfi sínu, dags. 25. júlí 1986, gerði skattstjóri þær breytingar, auk þess, sem greinir í 1. og 2. tl. hér að framan, að hann lækkaði gjaldfærðar vátryggingar um 24.351 kr. með því að gjaldfærsla líftrygginga væri óheimil. Þá lagði skattstjóri 10% álag á hluta af tekjufærslu fjárfestingarsjóðs, þ.e. á 48.036 kr., eða 4.803 kr. með vísan til 55. gr. A laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Ekki mótmælti kærandi lækkun gjaldfærslu vátrygginga í kæru til skattstjóra, dags. 22. ágúst 1986, en taldi þar, að fella bæri niður tekjufært álag á hluta fjárfestingarsjóðstillags, er tekið hefði verið tillit til krafna hans skv. 1. og 2. tl. hér að framan. í kæruúrskurði sínum, dags. 5. janúar 1987, hafnaði skattstjóri síðastnefndu kröfunni, og tók fram, að niðurfelling álagsins leiddi ekki af því að kröfur kæranda um hin tilgreindu atriði yrðu teknar til greina.

II

Með bréfi, dags. 22. október 1987, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu f.h. gjaldkrefjenda, að hinn kærði úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

III

Um 1. tl. Svo sem atvikum er hér háttað verður eigi á það fallist, að kæranda sé heimil sú gjaldfærsla, sem um ræðir í 41. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, að því er tekur til tölvu og fylgihluta hennar svo og ljósritunarvélar. Að því er varðar gjaldfærslu myndverka þá verður eigi talið, að hér sé um að ræða fyrnanlegar eignir. Þykir því bera að staðfesta hinn kærða úrskurð skattstjóra um þessi kæruatriði. Skattstjóri felldi niður gjaldfærslu húsgagna í biðstofu og fundarherbergi 232.816 kr. Af hálfu kæranda hefur engin sundurliðun verið lögð fram á þessum lið. Að svo vöxnu þykir bera að vísa kærunni frá, að því er tekur til þessa kæruatriðis.

Um 2. tl. Krafa kæranda er tekin til greina um þetta kæruatriði.

Um 3. tl. Með vísan til þess, sem fram kemur hér að framan varðandi lækkun gjaldfærðra vátrygginga, er kærunni vísað frá að því er þetta áhrærir, enda liggur enginn kæranlegur úrskurður fyrir af hendi skattstjóra um þetta. Þó þykir bera að gera þá leiðréttingu að 5.726 kr. eru færðar í reit 57 í framtalinu, þar sem skattstjóra hefur láðst að framkvæma breytingu sína skv. niðurlagi 3. tl. í bréfi sínu, dags. 25. júlí 1986. Með vísan til þess, sem fram kemur í framtalsgögnum kæranda og með skírskotun til ákvæða 55. gr. A laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. a-lið 12. gr. laga nr. 8/1984, um breyting á þeim lögum, þykir bera að staðfesta kæruúrskurð skattstjóra varðandi tekjufærslu 10% álags á hluta af tekjufærðum fjárfestingarsjóði.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja