Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 14/1988
Gjaldár 1985 og 1986
Lög nr. 75/1981 — 31. gr. 8. tl. — 99. gr. 1. mgr. 1. ml. Lög nr. 32/1978 — 37. gr. 3. mgr. — 145. gr. 2. mgr. —147. gr.
Arður — Arðsfrádráttur — Hlutafélag — Hlutafé — Hlutafélagaskrá — Nafnverð hlutafjár — Hámark arðsfrádráttar — Jöfnunarhlutabréf — Tillaga um arðsúthlutun — Ársreikningur — Ársskýrsla — Tilkynning til hlutafélagaskrár — Hlutafjárhækkun — Lögreglustjóri — Bæjarfógeti — Kærufrestur — Póstlagningardagur — Frávísun vegna síðbúinnar kæru — Kæra síðbúin
Málavextir eru þeir, að kærandi færði til frádráttar tekjum til skatts arð til hluthafa á skattframtölum árin 1985 og 1986 183.759 kr. hvort ár, sbr. 8. tl. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Arðsfjárhæðir þessar námu 10% af hlutafé, er tilgreint var 1.837.590 kr. í ársreikningum fyrir árin 1984 og 1985, eða hámarki lögleyfðs frádráttar.
Með bréfi, dags. 18. nóvember 1986, tilkynnti skattstjóri kæranda, að fyrirhugað væri að lækka gjaldfærða arðgreiðslu gjaldárið 1985 úr 183.759 kr. í 81.492 kr. en skv. 8. tl. 31. gr. laga nr. 75/1981 væri hámarksfrádráttur 10% af nafnverði hlutafjár. Skv. hlutafélagaskrá 28. október 1986 væri skráð hlutafé kæranda einungis 814.920 kr. en ekki 1.837.590 kr. og yrði það leiðrétt í ársreikningnum. Með bréfi, dags. sama dag, tilkynnti skattstjóri kæranda, að fyrirhugað væri að fella niður gjaldfærða arðgreiðslu 183.759 kr. gjaldárið 1986, þar sem engin ákvörðun hefði verið tekin um úthlutun arðs í ársskýrslu kæranda. Þá gerði skattstjóri sömu athugasemd í bréfi þessu varðandi fjárhæð skráðs hlutafjár í kæranda og gerð var í fyrrnefnda bréfinu.
Með bréfi, dags. 25. nóvember 1986, mótmælti umboðsmaður kæranda hinum ráðgerðu breytingum skattstjóra og krafðist þess, að skattframtölin yrðu látin standa óhögguð. Tók hann fram, að skv. ákvörðun hluthafafundar næmi hlutafé í kæranda 1.837.590 kr. Endanlegur frágangur og stimplun jöfnunarhlutabréfa hefði farið fram á árinu 1985. Í því sambandi hefði verið gefið vottorð til bæjarfógetans á Ólafsfirði, er fylgdi með í ljósriti. Skv. þessu gagni, er fyrir liggur í málinu og dags. er 13. júní 1985, staðfestir lögg. endurskoðandi, með vísan til 21. gr. laga nr. 36/1978 (sic) að skv. ársreikningi kæranda fyrir árið 1984 hefði hlutafélagið gefið út jöfnunarhlutabréf á árinu að fjárhæð 1.022.670 kr. og sé hlutafé félagsins eftir útgáfuna 1.837.590 kr. Útgáfan hafi byggst á heimild í 9. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Umboðsmaður kæranda greindi frá því, að stjórn kæranda hefði láðst að tilkynna til firmaskrár (sic) um hækkun hlutafjár með útgáfu jöfnunarhlutabréfa. Það hefði nú verið gert. Ekki væri á það fallist, að skattstjóri hefði heimild til að ógilda ákvörðun aðalfundar og þegar útgefin hlutabréf. Það sem á hefði skort varðandi tilkynningar, væri nú búið að lagfæra. Umboðsmaðurinn gat þess, að í ársreikningi fyrir árið 1985, er skattframtal árið 1986 byggðist á væri arðgreiðsla 10% af hlutafé fært, sbr. skýringu 10 með ársreikningnum. Rétt væri, að í ársskýrslu með reikningnum væri ekki formlega gerð tillaga um úthlutun á arði. Stjórn félagsins vitnaði hins vegar í þeirri áritun til ársreikningsins í heild og þar með úthlutunar arðs. Aðalfundur hefði síðan staðfest, að arður skyldi greiddur.
Með bréfi, dags. 5. desember 1986, tilkynnti skattstjóri kæranda, að áður álögð opinber gjöld hans gjaldárin 1985 og 1986 hefðu verið tekin til endurákvörðunar vegna lækkunar tilfærðs arðsfrádráttar úr 183.759 kr. í 81.492 kr. hvort ár og hækkunar eignarskattsstofns um 1.022.670 kr. hvort ár, sem væri mismunur bókfærðs hlutafjár 1.837.590 kr. og skráðs hlutafjár 814.920 kr. Væri breyting þessi gerð með vísan til 3. mgr. 37. gr. laga nr. 32/1978, um hlutafélög, sbr. bréf skattstjóra, dags. 18. nóvember 1986. Fallast mætti á þá skýringu kæranda, að í ársreikningi fyrir árið 1985 hefði verið gerð óformleg tillaga um arðgreiðslu með færslu arðs í reikninginn, enda þótt hans hefði ekki verið getið í ársskýrslu.
Af hálfu kæranda var þessum breytingum mótmælt með kæru, dags. 3. janúar 1987. Var vísað til bréfs kæranda til skattstjóra, dags. 25. nóvember 1986, og jafnframt tekið fram, að skv. upplýsingum hlutafélagaskrár 16. desember 1986 hefði nú verið gengið frá öllum formsatriðum varðandi útgáfu jöfnunarbréfanna. Það sé alkunn staðreynd, að talsverður misbrestur hafi verið á tilkynningum til hlutafélagaskrár í þessum efnum um land allt. Verði að teljast hæpin aðferð að beita óbeinum sektaraðferðum á grundvelli skattalaga til að áminna fyrirtæki að uppfylla ákvæði hlutafélagalaga eins og aðgerð skattstjóra verkaði í raun. Með tilliti til þess, hversu fljótt stjórn kæranda hefði brugðist við athugasemdum skattstjóra yrði að telja eðlilegt, að hann félli frá tilkynntum breytingum.
Með kæruúrskurði, dags. 12. janúar 1987, vísaði skattstjóri kærunni frá sem of seint framkominni. Kærufrestur væri 30 dagar frá póstlagningardegi tilkynningar um endurákvörðun, sbr. 1. ml. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981. Tilkynning um endurákvörðun hefði verið póstlögð 5. desember 1986, en kæran til skattstjóra póstlögð 6. janúar 1987. Væri kæran skv. því of seint fram komin.
Með kæru, dags. 6. febrúar 1987, hefur kærandi skotið kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar og krefst þess, að breytingum skattstjóra verði hrundið. Um hefði verið að ræða yfirsjón stjórnar kæranda að senda ekki tilkynningu til hlutafélagaskrár, en úr því hafi verið bætt um leið og bent hefði verið á þennan ágalla. Hlutafjármiðar hefðu verið sendir með framtölum til skattstjóra og öllum ákvæðum skattalaga fylgt í þessum efnum.
Með bréfi, dags. 22. október 1987, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu f.h. gjaldkrefjenda, að hinn kærði frávísunarúrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.
Eftir atvikum þykir mega taka kröfu kæranda til efnisúrlausnar. Skattstjóri hefur byggt hinar kærðu breytingar á því, að sú hækkun hlutafjár með útgáfu jöfnunarhlutabréfa, sem um ræðir í málinu, hafi ekki verið tilkynnt til hlutafélagaskrár með lögformlegum hætti, sbr. 3. mgr. 37. gr. laga nr. 32/1987, um hlutafélög, en þar segir, að slík hlutafjárhækkun sé ekki gild, fyrr en ákvörðun hefur verið skráð, sbr. og 147. gr. sömu laga um mánaðarfrest til þess að tilkynna breytingar á félagssamþykktum og öðru því, sem tilkynnt hefur verið, til hlutafélagaskrár og gögn, er slíkum tilkynningum skulu fylgja. Fyrir liggur, að slík tilkynning fór eigi fram árið 1984. Verður því að staðfesta breytingar skattstjóra að því er tekur til gjaldársins 1985. Í málinu liggur fyrir ljósrit af bréfi lögg. endurskoðanda, dags. 13. júní 1985, til Bæjarfógetans á Ólafsfirði, varðandi hlutafjárhækkun þá, sem í málinu greinir, sbr. að framan. Í bréfi kæranda til skattstjóra, dags. 25. nóvember 1986, kemur fram, að þessi tilkynning hafi verið gerð að undangenginni ákvörðun hluthafafundar um hlutafjárhækkun þessa. Skv. 2. mgr. 145. gr. laga nr. 32/1978, um hlutafélög, má senda tilkynningar, slíkar sem hér um ræðir til lögreglustjóra í því lögsagnarumdæmi, sem tilkynnandi á heimili. Lögreglustjóri skal þegar framsenda slíka tilkynningu til hlutafélagaskrár, enda öðlast tilkynning ekki gildi, fyrr en við skráningu þar. Óumdeilt er í málinu, að tilkynning um þessa hlutafjárhækkun hafi ekki borist hlutafélagaskrá, fyrr en á árinu 1986. Þrátt fyrir það þykir með vísan til fyrrnefndrar tilkynningar til Bæjarfógetans á Ólafsfirði og eins og mál þetta er vaxið mega byggja á hlutafjárhækkun þessari í skattalegu tilliti gjaldárið 1986. Eru kröfur kæranda teknar til greina varðandi það gjaldár.