Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 87/1988

Gjaldár 1986

Lög nr. 75/1981 — 7. gr. C-liður 8. tl. — 18. gr. — 30. gr. — 31. gr.  

Söluhagnaður — Söluhagnaður eignarhluta í sameignarfélagi — Sameignarfélag — Sjálfstæður skattaðili — Rekstrartap — Frádráttarbærni rekstrartaps á móti söluhagnaði — Einstaklingsfyrirtæki

Málavextir eru þeir að kærandi seldi hlut sinn í sameignarfélagi sem er sjálfstæður skattaðili árið 1985. Færði hann söluhagnaðinn 424.837 kr. sem tekjur með einkarekstri er hann stofnaði til sama ár. Rekstrartap af þeim rekstri var síðan fært til frádráttar fyrrgreindum söluhagnaði af eignarhlut hans í sameignarfélaginu. Að undangengnum bréfaskiptum tilkynnti skattstjóri kæranda í bréfi, dags. 17. október 1987, að eignartekjumar 424.837 kr. hefðu verið færðar í reiti 76 og 59 í skattframtali kæranda 1986. Vísaði skattstjóri í 8. tl. C-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Ekki væri heimilt að draga frá söluhagnaðinum tilkostnað við eigin atvinnurekstur. í kæru til skattstjóra, dags. 14. nóvember 1986, vísaði umboðsmaður kæranda til fyrrgreindra laga nr. 75/1981 og taldi þar hvergi að finna ákvæði þess efnis að óheimilt væri að láta rekstrartap ganga upp í söluhagnað af eignarhlut í sameignarfélagi. 118. gr. nefndra laga kvæði einungis á um áhrifaleysi eignarhaldstíma slíks eignarhluta við sölu og á hvern hátt skuli reikna hagnað af sölu slíkra eignarhluta, en ekkert væri að finna um áhrif annarra rekstrartekna og/eða gjalda á slíkan söluhagnað. Var þeirri málsmeðferð alfarið mótmælt að taka söluhagnaðinn út úr rekstrarreikningi kæranda og skattleggja hann sérstaklega án tillits til rekstrargjalda á árinu 1985. Með úrskurði uppkveðnum 26. febrúar 1987 synjaði skattstjóri kröfu kæranda og ítrekaði þær röksemdir sem frá greinir í bréfi hans frá 17. október 1986. Frá umræddum söluhagnaði væri einungis heimilt að draga gjöld skv. 30. gr. laga nr. 75/1981. í því sambandi breytti það engu, þótt söluverðið hefði verið notað til að koma á fót eigin atvinnurekstri.

Úrskurði skattstjóra hefur af hálfu umboðsmanns kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með svofelldri kæru, dags. 26. mars 1987:

„Málavextir eru þeir að umbj. m. var ásamt öðrum aðila eigandi prentsmiðjunnar P. sf. Dag nokkurn og án nokkurra undangenginna umræðna kom meðeigandi hans og vildi annað hvort selja umbj. m. hlut sinn eða, sem var meðeigandanum meira áhugamál, kaupa hlut umbj. m. í prentsmiðjunni og var með til staðar tvo væntanlega meðeigendur sína að félaginu. Við frekari umræður og eins og aðstæðum var háttað reyndist þó einungis fær sú leið að umbj. m. seldi hlut sinn í félaginu. Umbj. m. stofnaði því til atvinnurekstrar í eigin nafni og notaði söluverðið til að koma þeim atvinnurekstri á fót og færði söluhagnað eignarhlutarins til tekna í rekstrarreikningi sínum. Umbj. m. telur að í lögum nr. 75/1981 sé hvergi að finna ákvæði þess efnis að óheimilt sé að færa slíkan söluhagnað í rekstrarreikning. 18. gr. nefndra laga kveður einungis á um áhrifaleysi eignarhaldstíma slíks eignarhlutar við sölu og á hvern hátt skuli reikna hagnað af sölu slíkra eignarhluta, en engin ákvæði um áhrif annarra rekstrartekna og/eða gjalda á slíkan söluhagnað. C-liður 7. gr. laga nr. 75/1981 sem skattstjóri vitnar til með skattlagninguna kveður ekki á um að þær tekjur sem þar eru taldar upp skuli skattleggjast án tillits til ósamkynja gjalda og afkomu rekstrar enda er þar að finna dæmi um hið gagnstæða. Umbj. m. telur að frá þeim tekjum sem um ræðir í C-lið 7. gr. laganna sé heimilt að draga frádrátt samkvæmt 31. gr. laganna.

Krafa umbj. m. er því sú að skattlagning söluhagnaðarins verði felld niður.“

Kröfugerð ríkisskattstjóra f.h. gjaldkrefjenda, dags. 13. nóvember 1987, er á þá leið að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Eigi er deilt um fjárhæð söluhagnaðar þess sem um ræðir í máli þessu. Lagaheimild er eigi fyrir hendi til þess frádráttar frá söluhagnaðinum sem um ræðir í máli þessu. Er því kröfu kæranda hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja