Úrskurður yfirskattanefndar

  • Álag
  • Framleiðsluréttur í landbúnaði

Úrskurður nr. 324/2015

Gjaldár 2014

Lög nr. 90/2003, 15. gr., 48. gr. 3. mgr., 108. gr. 2. mgr.  

Fallist var á kröfu kærenda um niðurfellingu 25% álags vegna óheimillar fyrningar búvéla á móti söluhagnaði framleiðsluréttar í landbúnaði.

I.

Málavextir eru þeir að skattframtali kærenda árið 2014 fylgdi landbúnaðarskýrsla (RSK 4.08) þar sem m.a. voru færðar til tekna 19.997.440 kr. vegna sölu á framleiðslurétti í mjólk. Í eignaskrá (RSK 4.01) með skattframtalinu voru færðar aukafyrningar að fjárhæð 2.895.531 kr. Á fyrstu síðu skattframtalsins var þess getið að aukafyrning búvéla væri færð á móti söluhagnaði framleiðsluréttar sem tekjufærður væri í landbúnaðarskýrslu.

Með bréfi, dags. 4. mars 2015, lagði ríkisskattstjóri fyrir kærendur með vísan til 1. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, að rökstyðja færslu aukafyrninga búvéla í skattframtali árið 2014 þar sem þær virtust umfram heimildir skattalaga. Kom fram að samkvæmt 4. mgr. 15. gr. laga nr. 90/2003 væri aðeins heimilt að fresta skattlagningu söluhagnaðar af landi bújarða og ófyrnanlegum náttúruauðæfum ef sams konar eignar væri aflað til eigin nota í stað hinnar seldu. Benti ríkisskattstjóri á að vélar teldust til fyrnanlegra eigna samkvæmt 33. gr. laganna, en framleiðsluréttur ekki.

Í svarbréfi kærenda, dags. 13. mars 2015, kom fram að fallist væri á afstöðu ríkisskattstjóra og þess óskað að umræddar aukafyrningar að fjárhæð 2.895.531 kr. yrðu felldar niður í landbúnaðarskýrslu og hreinar tekjur búsins hækkaðar um sömu fjárhæð.

Með bréfi, dags. 23. mars 2015, boðaði ríkisskattstjóri endurákvörðun opinberra gjalda kærenda gjaldárið 2014 þar sem fyrirhugað væri að fella niður í landbúnaðarskýrslu gjaldfærðar aukafyrningar að fjárhæð 2.895.531 kr. Vísaði ríkisskattstjóri til 15. gr. laga nr. 90/2003. Þá boðaði ríkisskattstjóri beitingu 25% álags samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 á hækkun tekjuskattsstofns og tók fram að vantaldar tekjur teldust slíkur annmarki á framtalsgerð að ekki stæðu rök til annars en að beita fyrrgreindri álagsheimild. Ekkert lægi fyrir um að óviðráðanleg atvik eða atvik sem kærendum yrði ekki um kennt og ætti 3. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 því ekki við.

Með bréfi, dags. 31. mars 2015, mótmæltu kærendur boðaðri álagsbeitingu ríkisskattstjóra. Kom fram að ekki væri um vísvitandi vantaldar tekjur að ræða heldur væri um að kenna vanþekkingu kærenda á reglum um meðferð söluhagnaðar. Væri því farið fram á að 25% álagi yrði ekki beitt.

Með úrskurði um endurákvörðun, dags. 21. apríl 2015, hratt ríkisskattstjóri hinum boðuðu breytingum í framkvæmd og endurákvarðaði opinber gjöld kærenda gjaldárið 2014 til samræmis að viðbættu 25% álagi samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003. Til stuðnings álagsbeitingu ítrekaði ríkisskattstjóri áður fram komin rök og tók fram að hvorki hefði verið sýnt fram á að atvikum væri svo farið að 3. mgr. 108. gr. ætti við né að tilefni væri til að falla frá álagsbeitingu að öðru leyti.

II.

Með kæru, dags. 5. júní 2015, hafa kærendur skotið úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 21. apríl 2015, til yfirskattanefndar. Er þess krafist að álagsbeiting ríkisskattstjóra verði felld niður. Í kærunni er greint frá málsatvikum og tekið fram að kærendur hafi rekið blandaðan búskap með kúm og sauðfé til ársins 2013 þegar mjólkurframleiðslu hafi verið hætt og framleiðsluréttur seldur. Vegna vanþekkingar á viðeigandi skattareglum hafi aukafyrning fyrnanlegra eigna búrekstrarins að fjárhæð 2.895.531 kr. verið reiknuð fyrir mistök og sú fjárhæð færð til gjalda með öðrum fyrningum í landbúnaðarskýrslu. Ekki séu gerðar athugasemdir við hækkun skattstofna vegna niðurfellingar reiknaðra aukafyrninga. Aftur á móti sé óréttmætt að beita 25% álagi, m.a. vegna þess að vanþekking á reglum og heimildum um færslu aukafyrninga á móti söluhagnaði hafi valdið mistökunum en ekki viljandi undandráttur á tekjum. Allar upplýsingar um málið hafi komið ljóslega fram í skattskilum kærenda umrætt ár og ekkert verið undan dregið. Sé því ekki um vantaldar tekjur að ræða. Þá hafi umræddir fyrningarstofnar verið nýttir að fullu með hinni ranglega reiknuðu aukafyrningu sem hafi komið í veg fyrir nýtingu þeirra síðar. Til lengri tíma litið hafi aukafyrningin því ekki orðið kærendum til hagsbóta miðað við óbreytt form skattlagningar. Þá hafi kærendur allt frá ábendingu ríkisskattstjóra í bréfi, dags. 4. mars 2015, samþykkt leiðréttingu skattframtalsins.

III.

Með bréfi, dags. 20. júlí 2015, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn um kæruna og krafist þess að álagsbeiting embættisins verði staðfest, enda hafi ekki verið sýnt fram á að tilvik kærenda sé þess eðlis að 3. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, geti átt við.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 15. júlí 2015, var kærendum sent ljósrit af umsögn ríkisskattstjóra í málinu og þeim gefinn kostur á að tjá sig um hana og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

IV.

Samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, má ríkisskattstjóri bæta 25% álagi við áætlaða eða vantalda skattstofna séu annmarkar á framtali, sbr. 96. gr., eða einstakir liðir ranglega fram taldir. Bæti skattaðili úr annmörkum eða leiðrétti einstaka liði á framtali áður en álagning fer fram, má ríkisskattstjóri þó eigi beita hærra álagi en 15%. Samkvæmt 3. mgr. sömu lagagreinar skal fella niður álag samkvæmt greininni ef skattaðili færir rök að því að honum verði eigi kennt um annmarka á framtali eða vanskil þess, að óviðráðanleg atvik hafi hamlað því að hann skilaði framtali á réttum tíma, bætti úr annmörkum á framtali eða leiðrétti einstaka liði þess.

Eins og greinir í kafla I hér að framan voru aukafyrningar búvéla að fjárhæð alls 2.895.531 kr. skýrlega tilgreindar í eignaskrá (RSK 4.01) með skattframtali kærenda árið 2014. Þá kom fram í athugasemdalið í skattframtalinu að greindar fyrningar væru færðar á móti tekjufærðum söluhagnaði framleiðsluréttar. Samkvæmt þessu verður að byggja á því að þessar upplýsingar hafi legið fyrir ríkisskattstjóra fyrir lok almennrar álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2014. Þegar til þessa er litið og að virtri heimild ríkisskattstjóra til leiðréttinga á einstökum liðum skattframtals, sbr. 1. mgr. 95. gr. laga nr. 90/2003, svo sem það ákvæði hefur verið skilið og skýrt í úrskurðaframkvæmd, verður naumast talið að hin kærða ákvörðun ríkisskattstjóra um beitingu álags samkvæmt heimildarákvæði 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 sé nægilega rökstudd. Að því athuguðu og að virtum fram komnum skýringum kærenda þykir mega fallast á kröfu kærenda um niðurfellingu álags.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Hið kærða álag fellur niður.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja