Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 92/1988
Gjaldár 1986
Söluhagnaður — Söluhagnaður af íbúðarhúsnæði — Íbúðarhúsalóð — Söluhagnaður færður til lækkunar á stofnverði íbúðarhúsnæðis — Frestun skattlagningar söluhagnaðar — Stofnverð — Íbúðarlán — Vaxtagjöld — Afföll — Vaxtatekjur — Vaxtagjöld, frádráttarbærni — Lóð — Lóðarréttindi
Málavextir eru þeir, að af hálfu kærenda var ekki talið fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 1986. Við frumálagningu opinberra gjalda það ár sættu kærendur því áætlun skattstjóra á skattstofnum að viðbættu 25% álagi skv. heimildarákvæðum 1. ml. 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Skattframtal kærenda árið 1986 hafði borist skattstjóra hinn 10. júní 1986. Skattstjóri tók skattframtalið sem kæru, sbr. 2. ml. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981, og kvað upp kæruúrskurð hinn 2. mars 1987, þar sem hann féllst á að leggja hið innsenda skattframtal til grundvallar álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1986 án álags en með ýmsum breytingum, sem tilgreindar eru í kæruúrskurðinum og ágreiningur er um. Þær breytingar, sem kærðar hafa verið eru þessar.
1. Hagnaður vegna sölu byggingalóðar. Í greinargerð um eignabreytingar í skattframtalinu var þess getið, að kærendur hefðu selt lóðina H., Reykjavík, til Reykjavíkurborgar fyrir 480.000 kr. skv. skattframtali árið 1985, er fyrir liggur í málinu, var lóð þessi keypt árið 1984 af Reykjavíkurborg fyrir 401.537 kr. Skv. sama framtali var söluhagnaður vegna M. (íbúðarhúsnæðis), Reykjavík, færður til lækkunar á stofnverði lóðarinnar af fullu, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 75/1981. Ekki var gerð grein fyrir skattskyldum söluhagnaði vegna sölu lóðarinnar í skattframtali árið 1986 og enginn söluhagnaður tekjufærður. Skattstjóri taldi, að allt söluverð lóðarinnar 480.000 kr. bæri að telja til tekna sem skattskyldan söluhagnað með því að stofnverð lóðarinnar hefði verið fært niður í 0 kr. og færði þá fjárhæð í reit 76 í skattframtali kærenda árið 1986.
Í kæru til ríkisskattanefndar, dags. 31. mars 1987, er tekið fram, að láðst hefði að færa fjárhæð þessa 480.000 kr. til lækkunar á stofnverði T. (íbúðarhúsnæðis), Keflavík, en þá eign keypti kærandi, S., með kaupsamningi, dags. 9. ágúst 1985, sbr. fylgiskjal um kaup og sölu eigna, er fylgdi skattframtalinu, og var kaupverðið 1.000.000 kr. í fylgiskjali með kærunni til ríkisskattanefndar er gerð grein fyrir meðferð söluhagnaðar, annars vegar þess hluta söluhagnaðar af M., Reykjavík, sem frestað var skattlagningu á skv. skattframtali árið 1985 en sá hluti söluhagnaðarins nam óframreiknaður 649.787 kr. og hins vegar meðferð söluhagnaðar 480.000 kr. af umræddri lóð. Framreiknaður söluhagnaður vegna M., Reykjavík, 836.145 kr. er færður til lækkunar á stofnverði eignarinnar að T., Keflavík, 1.000.000 kr. og söluhagnaður af H, Reykjavík, færður til lækkunar á eftirstöðvum stofnverðsins 163.855 kr., en óskað frestunar á skattlagningu eftirstöðva söluhagnaðarins 316.145 kr. um tvenn áramót.
2. Vaxtagjöld. Skv. greinargerð um vaxtagjöld R 3.09, er fylgdi skattframtali kærenda árið 1986, námu vaxtagjöld til frádráttar 318.195 kr. færð í reit 87. í þann reit voru og færð afföll 95.191 kr. Samtals var frádráttur í reit 87 því 413.386 kr. Tekjur í reit 14 námu 281.765 kr. Vaxtagjöld og afföll til frádráttar tekjum í reit 60 námu því 131.621 kr. í kæruúrskurði sínum, dags. 2. mars 1987, segir skattstjóri svo: „Skuldir vegna öflunar húsnæðis til eigin nota eru samkvæmt framtali 2.845.668 kr. (sic) og vaxtagjöld til frádráttar vegna þeirra 318.195 kr. auk affalla v/sk. br. 95.195 kr. Á framtali 1985 voru skuldir vegna íbúðakaupa 994.496 kr. og hafa þær því hækkað á árinu um 1.851.172 kr. á meðan keypt er íbúð á 1.000.000 kr., seld byggingalóð á 480.000 kr., fengið greitt af útistandandi kröfum vegna sölu íbúðarhúsnæðis áætl. 410.695 kr. og vaxtatekjur 281.765 kr. Jafnvel þótt reiknað sé með greiðslu framtalinna vaxta 318.195 kr. þá er greiðslujöfnuður vegna þessa neikvæður um aðeins 145.735 kr., og er því ljóst að framtaldar skuldir geta aðeins að litlum hluta verið vegna öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota.“ Skattstjóri felldi vaxtagjöld 318.195 kr. skv. fylgiskjali R 3.09 niður til frádráttar í reit 87 og færði fjárhæðina í reit 88 sem önnur vaxtagjöld. Taldi skattstjóri ósannað og ólíklegt, að framtaldar skuldir og vaxtagjöld uppfylltu skilyrði 1. tl. E-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, fyrir frádráttarbærni vaxtagjalda frá tekjum.
Í kæru til ríkisskattanefndar, dags. 31. mars 1987, krefst umboðsmaður kærenda þess, að tilfærð vaxtagjöld til frádráttar verði látin óhögguð standa. Segir svo í kærunni um þetta:
„Skattstjóri gerir athugasemdir við vaxtagjöld vegna öflunar húsnæðis. Á skattframtali umbjóðanda okkar 1985 eru skuldir vegna íbúðarkaupa kr. 994.496.- og á framtali 1986 eru skuldir vegna íbúðakaupa orðnar kr. 1.888.752.-. Af ofanritaðri upphæð eru lán sem tekin voru á árinu 1981 — 1984 nú kr. 1.222.473. Mismunur kr. 666.279 eru lán sem umbjóðandi okkar tók hjá F. 1985 vegna fasteignakaupa af T., Keflavík upphaflega að nafnverði kr. 600.000. Með ofanrituðum skýringum er ljóst að vextir að upphæð kr. 318.195,- stafar af nefndum lántökum vegna fasteignaviðskipta til eigin nota.
3. Afföll. í reit 87 í skattframtalinu voru tilfærð afföll af skuldabréfum til frádráttar 95.191 kr. í fylgiskjali með skattframtalinu var gerð grein fyrir afföllum þessum. Afföll þessi felldi skattstjóri niður í kæruúrskurði sínum, dags. 2. mars 1987, og lækkaði jafnframt eign í reit 13 í framtalinu um eignfærð afföll af skuldabréfum 140.783 kr. Skattstjóri tók fram, að ekki kæmi fram, hvort um væri að ræða reiknuð afföll eða afföll vegna sölu og kaupendur væru ekki tilgreindir. Skv. því og forsendum fyrir niðurfellingu vaxtagjalda til frádráttar væri ekki á það fallist, að sýnt hefði verið fram á það, að heimild væri til frádráttar skv. 1. tl. E-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981 auk þess sem ekki væri uppfyllt skilyrði 1. ml. 2. tl. 1. mgr. 51. gr. sömu laga, þar eð kaupendur hefðu ekki verið nafngreindir.
Í kæru til ríkisskattanefndar, dags. 31. mars 1987, eru svofelldar upplýsingar um hin gjaldfærðu afföll:
„Gerðar eru athugasemdir um afföll af skuldabréfum vegna skorts á upplýsingum. Með framtalinu fylgir skrá yfir afföll. Ennfremur viljum við upplýsa að nefnd afföll skiptast þannig:
Af sölu bréfa á vegum F.,
nafnv. kr. 600.000,00 Afföll kr. 89.203,50
Af sölu bréfa á vegum I.
1981—1982 " kr. 5.987.14
Kr. 95.190.64“
Með bréfi, dags. 25. nóvember 1987, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:
„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.“
Um 1. tl. Byggt hefur verið á því, að um söluhagnað vegna umræddrar byggingarlóðar að H., Reykjavík, fari eftir ákvæðum 16. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og að kærandi hafi selt umrædda lóð eða lóðarréttindi á árinu 1985. Við þetta verður miðað við úrlausn málsins. Svo sem fram kemur hér á undan seldi kærandi íbúðarhúsnæði að M., Reykjavík, á árinu 1984 og nam skattskyldur hagnaður vegna þeirrar sölu 1.051.324 kr. Það sama ár keypti kærandi umrædda byggingarlóð eða lóðarréttindi fyrir 401.537 kr. og færði þetta stofnverð lóðarinnar niður a5 fullu á móti sömu fjárhæð umrædds söluhagnaðar. Fór kærandi fram á frestun á skattlagningu á eftirstöðvum hins skattskylda söluhagnaðar 649.787 kr. Við skattálagningu gjaldárið 1985 var byggt á þessari meðferð söluhagnaðar, er grundvallaðist á ákvæðum 16. gr. laga nr. 75/1981. Árið 1985 selur kærandi umrædda lóð eða lóðarréttindi og kaupir jafnframt íbúðarhúsnæði að T., Keflavík. Vill hann færa niður stofnverð þeirrar eignar á móti framreiknuðum eftirstöðvum söluhagnaðar af M., Reykjavík, 836.145 kr. og hluta af söluhagnaði H., Reykjavík, eftir því sem ráðið verður af kröfugerð hans í málinu. Jafnframt vill kærandi fresta skattlagningu eftirstöðva söluhagnaðar af H., Reykjavík, 316.145 kr. um tvenn áramót. Eins og meðferð skattskylds söluhagnaðar þeirra eigna, sem í málinu greinir, hefur verið háttað verður að telja kæranda þetta heimilt, sbr. ákvæði 16. gr. laga nr. 75/1981. Eru kröfur hans varðandi þetta kæruatriði teknar til greina.
Um 2. tl. Að virtum öllum málavöxtum, þ.á m. öflun þess íbúðarhúsnæðis, sem í málinu greinir, en það er eina íbúðarhúsnæðið í eigu kæranda og þeim skuldum, sem hin gjaldfærðu vaxtagjöld eru sprottin af, þykir eigi hafa verið sýnt fram á það af hálfu kæranda, að hann eigi rétt á vaxtagjöldum til frádráttar, er séu umfram vaxtatekjur í reit 14 í skattframtali, sbr. 1. mgr. 1. tl. E-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981.
Um 3. tl. Kærandi þykir eigi hafa sýnt fram á frádráttarbærni umræddra affalla. Er kröfu hans um þetta kæruatriði hafnað.