Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 97/1988
Söluskattur jan.-júní 1986
Reglugerð nr. 486/1982 —16. gr. 2. mgr. — 17. gr. 2. mgr. 2. tl. Lög nr. 10/1960 — 8. gr. — 21. gr. 2. mgr. 2. tl.
Söluskattur — Uppgjörsaðferð til söluskatts — Söluskattsskyld velta — Aðgreining skattfrjálsra og skattskyldra viðskipta til söluskatts — Söluskattsskil — Söluskattsálag — Bókhald — Rýrnun
Kærð er endurákvörðun skattstjóra á sölugjaldi kæranda vegna söluskattstímabilanna janúar til og með júní árið 1986. Byggði skattstjóri þá ákvörðun sína á því að við söluskattsskil fyrir nefnt tímabil hafi kærandi reiknað saman útsöluverð keyptra söluskattsfrjálsra vara og fært til frádráttar frá heildarveltu á söluskattsskýrslunum en án þess að draga frá sannanlega rýrnun. Sé það ekki í samræmi við uppgjörsaðferð þá er kærandi noti og heimiluð sé í 2. tl. 2. mgr. 17. gr. reglugerðar nr. 486/1982 um söluskatt. Miðaði skattstjóri við að hæfileg rýrnun teldist vera 1,5% á reiknað söluverð söluskattsfrjálsra vara. Hækkaði söluskattsskyld velta vegna þessa og sölugjald til samræmis. Þá tók skattstjóri tillit til álags skv. 1. tl. 2. mgr. 21. gr. laga nr. 10/1960, um söluskatt, með síðari breytingum. Af hálfu kæranda hefur ákvörðun skattstjóra verið mótmælt og þess krafist að hún verði að fullu felld niður. Er í kærunni til ríkisskattanefndar gerð grein fyrir þeirri kröfu m.a. með svofelldum rökum:
„Í allri framkvæmd við bókhald og söluskattsskil, er af hálfu Kaupfélagsins, fylgt fyrirmælum samkvæmt reglugerð og leiðbeiningum þar um. Skal í þessu sambandi vísað til 2. mgr. 16. gr. og 2. mgr. 17. gr. reglugerðar nr. 486/1982, um hvernig skráningu skuli hagað í bókhaldi. Sú tafla sem fram kemur í bréfi þessu er því tekin beint úr bókhaldinu. í reglugerð og leiðbeiningum vegna söluskattsskila er tekið fram, að útsöluverð söluskattsfrjálsra vara skuli „reiknað saman og fært til frádráttar frá heildarveltu á söluskattsskýrslu tímabilsins, að frádreginni sannanlegri rýrnun.“ Þrátt fyrir þá niðurstöðu um „plús-rýrnun“ sem fram kemur í töflunni hér að framan, þá er ljóst — og skal ekki mótmælt — að rýrnun á sér stað. Hins vegar er sú niðurstaða sem ofangreind tafla sýnir — og er samhljóða uppgjörum yfir lengra tímabil — að vöruverðshækkanir á einstökum tímabilum hafa meira en unnið upp þá rýrnun sem hefur átt sér stað.
Á tímum mikilla og tíðra verðbreytinga, sbr. ástand hérlendis um mörg undanfarin ár, þá eru meiri líkur á að verðhækkanir vinni á móti rýrnun, en á tímabilum stöðugra verðlags. Hinar bókhaldslegu niðurstöður og sannanlegar staðreyndir um tölulega rýrnun og/eða „plús-rýrnun“ hafa því um árabil legið að baki þeirri ákvörðun Kaupfélagsins, að skila frádráttarlið söluskattsfrjálsra vara án rýrnunar.“
Með bréfi dags. 25. nóvember 1987 gerir ríkisskattstjóri svofellda kröfu í máli þessu fyrir hönd gjaldkrefjenda: „Að úrskurðir skattstjóra verði staðfestir með vísan til forsendna hans sem fram koma í úrskurði dags. 15.09. 1986 og vísað er til í hinum kærðu úrskurðum.“
Í kæru til ríkisskattanefndar eru tilgreindar fjárhæðir úr bókhaldi og ársuppgjörum kæranda vegna áranna 1985 og 1986. Samkvæmt þeim upplýsingum átti engin vörurýrnun að hafa átt sér stað hjá kæranda á þessum árum heldur hafi þá verið um „plús-rýrnun“ að ræða. í þeim útreikningum er liggja að baki þeirri niðurstöðu hefur ekki verið tekið tillit til þeirra verðhækkana á vörubirgðum er áttu sér stað á þessum árum. Verður því ekki af þeim gögnum er fyrir liggja í þessu máli ráðið, að engin raunveruleg vörurýrnun hafi átt sér stað hjá kæranda á nefndum árum. Þá hefur kærandi við útfyllingu fylgiskjala með söluskattsskýrslum mánuðina janúar til og með júní 1986 ekki tilgreint neina verðfellingu eða afslátt til frádráttar við útreikning reiknaðs útsöluverðs söluskattsfrjálsra vara. Í kærunni til ríkisskattanefndar er upplýst að verðfellingar og afslættir bókaðir á útsöluverði hafi á árinu 1986 numið 4.547.844 kr. Með hliðsjón af framanrituðu þykir kærandi ekki hafa sýnt fram á, að honum hafi með hinum kærða úrskurði verið gert að greiða of hátt sölugjald. Þykir því bera að vísa kærunni frá að svo stöddu vegna vanreifunar af kæranda hálfu.