Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 99/1988
Gjaldár 1984
Lög nr. 75/1981 — 13. gr. — 29. gr. — 31. gr. 1. tl. — 32. gr. — 33. gr. — 44. gr. 1. mgr. 1. ml.
Söluhagnaður — Fyrning — Fyrning, almenn — Fyrningartími eigna — Fyrning sérstök — Sérstök fyrning — íbúðarhúsnæði — Atvinnurekstrareign — Fyrnanleg eign — Rekstrarlok — Söluhagnaður fyrnanlegs lausafjár — Upphaf fyrningar
Kærð er endurákvörðun skattstjóra á opinberum gjöldum kæranda gjaldárið 1984. Er hinn kærði úrskurður skattstjóra svohljóðandi:
"Efni kæru:
Mótmælt er hækkun gjalda skv. úrskurði skattstjóra dags. 1. apríl 1985 og vísað í því sambandi í bréf dags. 20. nóvember 1985:
1. Samkvæmt 44. gr. laga nr. 75/1981 megi fyrna íbúðarhúsnæði sem notað sé til öflunar tekna í atvinnurekstri sérstakri fyrningu vegna söluhagnaðar. Íbúð sú, sem tekin hafi verið upp í söluverð verslunar hafi verið bein forsenda þeirra tekna, sem myndast hafi í atvinnurekstrinum við sölu eigna verslunarinnar.
Kærandi hafi ætlað með sölu verslunarinnar að breyta úr verslunarrekstri í fasteignarekstur. Erfitt hafi reynst að fá leigjendur vegna staðsetningar íbúðarinnar og hafi hún því verið seld án þess að til leigu hafi komið.
2. Tap á sölu íbúðarinnar hafi numið u.þ.b. kr. 500.000,- á verðlagi ársins 1985, sem sýni að hinn umdeildi söluhagnaður hafi verið óraunhæfur og verð eignanna, sem gengið hafi verið út frá í viðskiptum hafi verið allt of hátt.
Verði ekki fallist á kröfu skv. lið nr. 1 er gerð krafa um að söluhagnaður verði lækkaður í samræmi við ofangreindar forsendur (sjá útreikning í kæru) úr kr. 316.162,-. Verslunarhúsnæði að A. verði síðan fyrnt sérstakri afskrift sem nemi eftirstöðvum söluhagnaðar.
3. Leiðrétting á eignfærslu L. hafi þegar verið gerð á samræmingarblaði með framtali. Sjá ljósrit mfg. kæru.
4. Heimild til beitingar álags skv. 106. gr. laga nr. 75/1981 sé augljóslega ekki til staðar, þar sem um sé að ræða ágreining um lagatúlkun en ekki annmarka á framtali eða ranglega framtaldar tekjur eða eignir.
Úrskurður skattstjóra:
1. Um forsendur niðurfellingar fyrninga íbúðar vísast til rökstuðnings í bréfum skattstjóra dags. 13. nóv. 1984 og 1. apríl 1985.
Varðandi nýjar fullyrðingar í kæru um tengsl íbúðar við öflun tekna í atvinnurekstri skal eftirfarandi tekið fram:
Fyrning eigna má draga frá tekjum með heimild sem grundvallast á 29. og 1. tl. 31. gr. laga nr. 75/1981 þ.e. sem rekstrarkostnað — gjöld sem eiga á árinu að ganga til að afla teknanna, tryggja þær og halda þeim við. Samkvæmt þessari meginreglu er um að ræða ákveðin tengsl gjalda og tekna við tíma, þar sem gjöldin, eða ákvörðun um ráðstöfun fjármuna til tekjuöflunar kemur á undan tekjunum í tíma. Söluhagnaður sem tekjur verður til á þeim tímapunkti, sem sala á sér stað. Fram að þeim tíma á seljandi hið selda og kaupandi andvirði þess eða það sem látið verður af hendi vegna kaupanna, en eftir sölu hið gagnstæða. Seljanda er þar af leiðandi ómögulegt að nýta eitthvað það, sem hann á til öflunar þeirra tekna sem söluhagnaðurinn er. Síðari ráðstöfun eignarinnar (endurgjald) er ótengd söluhagnaðinum en myndar eftir atvikum grunn að nýrri tekjuöflun með tilheyrandi rétti til gjaldfærslu kostnaðar vegna þeirrar tekjuöflunar.
Enda þótt umrædd íbúð væri talinn vera eign í atvinnurekstri kæranda er ekki sjálfgefið að hún sé fyrnanleg eign í rekstrinum sbr. þann greinarmun sem gerður er í 11. og 14. gr. áður greindra laga varðandi söluhagnað af eignum. Samkvæmt upplýsingum, sem fram koma í kæru, hafði nefnd íbúð ekki verið tekin í notkun á árinu 1984. Skilyrði 33. gr. áðurnefndra laga um upphaf fyrningatíma er því ekki uppfyllt, og eignin því þegar af þeirri ástæðu ófyrnanleg.
Með vísan til framanritaðs er kröfum samkvæmt þessum lið kærunnar synjað.
2. Söluhagnaður af fyrnanlegum eignum telst til skattskyldra tekna á söluári. Hann er mismunur á söluverði og stofnverði eins og nánar er ákveðið í 10. til 27. gr. laga nr. 75/1981. Af ákvæðum þeirra greina er ljóst að þau atvik ein sem eiga sér stað fram að sölu skipta máli, en það sem gerist eftir sölu kemur ekki til skoðunar við ákvörðun söluhagnaðarins. Þannig hafa t.d. afföll af skuldabréfum, gengistap af inneignum eða verðrýrnun þeirra peninga sem inn hafa komið vegna sölunnar ekki áhrif á skattskyldan söluhagnað, þegar söluverð liggur fyrir. Á sama hátt hefur það ekki áhrif á skattskyldan söluhagnað að mat aðila á verðmæti eigna eða aðstæðum reynist rangt, eða, eins og hér virðist raunin, að almenn verðþróun eftir viðskiptin er öðrum aðilanum óhagstæð.
Ef taka ætti tillit til þeirra atvika sem gerast eftir sölu eða eftir lok söluárs væri ómögulegt að ákvarða söluhagnað við sölu eða við gerð skattframtals vegna söluársins, og ofangreind lagaákvæði óframkvæmanleg.
Af upplýsingum sem fram koma í framtali og kæru verður ekki annað ráðið en að áhöld og innréttingar verslunar hafi verið seld á kr. 1.050.000,- að söluhagnaður hafi numið kr. 894.956,- og að íbúð hafi verið keypt á kr. 1.200.000,-. Ekki hafa verið færð fyrir því rök né lögð fram gögn er sýni að hinar tilgreindu fjárhæðir séu ekki réttar.
Með vísan til framanritaðs er kröfu um lækkun söluhagnaðarins synjað.
Fallist er á að fyrna verslunarhús að A. um sem nemur eftirstöðvum fyrningargrunns þess þó þannig að eftir standi niðurlagsverð, sbr. ákvæði 45. gr. áðurnefndra laga. Fyrningin verður kr. 611.259,-; bókfært verð þ.e. niðurlagsverð kr. 135.032,- og eftirstöðvar söluhagnaðar sem koma til skattlagningar nú kr. 283.697,-
4. Í hinni kærðu endurákvörðun var beitt 25% álagi á vantalda gjaldstofna. Lagaheimild fyrir því er að finna í 2. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, en þar segir í fyrri málslið: „Séu annmarkar á framtali, sbr. 96. gr., eða einstakir liðir ranglega fram taldir má skattstjóri bæta 25% álagi við áætlaða eða vantalda skattstofna.“
Skattframtal kæranda 1984 ásamt rekstursreikningi er haldið þeim annmörkum að ekki verður á því byggð rétt álagning gjalda. Leiddu þeir til þess að gjaldstofnar kæranda voru vantaldir svo sem lýst er í bréfi skattstjóra dags. 13. nóvember 1984 og undir lið 1 hér að framan. Við þessa vantöldu stofna var í hinni kærðu endurákvörðun réttilega bætt 25% álagi.
Samkvæmt 3. mgr. greinarinnar skal (aðeins) fella niður álag á skattstofna ef skattaðili færir rök að því að honum verði ekki kennt um annmarka á framtali eða óviðráðanleg atvik hafi hamlað réttum skilum. Með hliðsjón af því sem rakið er undir lið 1 hér að framan verður ekki talið að þessi skilyrði séu uppfyllt í tilfelli kæranda, né að gallar á framtali hafi verið honum óviðráðanlegir.
Þessum lið kærunnar er því synjað með vísan til framanritaðs.“
Með bréfi dags. 15. apríl 1986 gerir ríkisskattstjóri þá kröfu í málinu að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.
Í desember 1986 barst ríkisskattanefnd myndrit af makaskiptasamningi, þeim sem um ræðir í máli þessu og dagsettur er 6. október 1983.
Þegar litið er til þess með hvaða hætti fasteign sú, sem um er fjallað í máli þessu, komst í eigu kæranda er fallist á að með hinn umrædda söluhagnað sé farið eftir ákvæðum 13. gr. 1. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, en eigi er deilt um fjárhæðir hins skattskylda söluhagnaðar. Þykir mega líta svo á að þessi meðferð söluhagnaðarins sé fólgin í aðalkröfu kæranda og er því fallist á hana þó með þeirri breytingu, að fyrning íbúðarinnar skv. 32. gr., sbr. 33. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, er þó eigi heimil með því að fyrningartími var eigi hafinn.