Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 109/1988
Gjaldár 1986
Lög nr. 75/1981 — 99. gr. — 101. gr. 3. mgr. —106. gr. 1. mgr. 1. ml.
Síðbúin framtalsskil — Álag vegna síðbúinna framtalsskila — Vanreifun — Endurákvörðunarheimild ríkisskattstjóra — Málsmeðferð ríkisskattstjóra — Rökstuðningur — Rökstuðningur kæru — Löggiltur endurskoðandi — Áritun löggilts endurskoðanda — Skattframtal ófullnægjandi — Rekstrartap — Yfirfæranlegt rekstrartap — Sönnun — Kæranleg skattákvörðun
Málavextir eru þeir, að af hálfu kæranda var ekki talið fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 1986. Við frumálagningu opinberra gjalda það ár sætti kærandi því áætlun skattstjóra á skattstofnum að viðbættu 25% álagi skv. heimildarákvæðum 1. ml. 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Þessi álagning var kærð til skattstjóra með kæru, dags. 27. ágúst 1986, og boðað, að rökstuðningur yrði sendur síðar. Með kæruúrskurði, dags. 28. október 1986, vísaði skattstjóri kærunni frá sökum vanreifunar með því að boðaður rökstuðningur hefði ekki borist, sbr. 1. ml. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.
Næst gerðist það í málinu, að umboðsmaður kæranda sneri sér til ríkisskattstjóra hinn 13. október 1986 og lagði fram skattframtal kæranda árið 1986 og fór fram á, að það yrði lagt til grundvallar álagningu opinberra gjalda kæranda gjaldárið 1986 í stað hinna áætluðu skattstofna. Ríkisskattstjóri tók erindið til úrlausnar hinn 24. nóvember 1986, sbr. 3. mgr. 101. gr. laga nr. 75/1981. Vísaði hann til áritunar löggilts endurskoðanda á ársreikning kæranda fyrir árið 1985, en þar segði svo m.a.: „Endurskoðunin leiddi í ljós að bókhaldi var í ýmsum atriðum ábótavant. Skuldaskilum vegna kaupa á brauðgerð er ekki lokið og geta af þessum sökum orðið breytingar á fjárhæðum í skammtímakröfum og skammtímaskuldum frá því sem birtist í ársreikningi. Með vísan til ofangreinds fyrirvara getum við ekki látið í ljós álit á rekstri félagsins á tímabilinu né efnahag þess 31. desember 1985." Með vísan til þessa tók ríkisskattstjóri fram, að skattframtal kæranda árið 1986 þætti ekki nægilega traust til þess að byggja álagningu opinberra gjalda á því og væri því hafnað sem slíku. Rétt þætti með vísan til niðurstöðu ársreiknings að fella niður áætlun um tekjuskatts- og eignarskattsstofn. Einnig þætti mega miða álagningu við innsent framtal til aðstöðugjalds að viðbættu 25% álagi. Að svo komnu yrði ekki tekin afstaða til yfirfæranlegs rekstrartaps, en það var tilfært 728.102 kr. í skattframtalinu.
Hinn 15. desember 1986 barst ríkisskattstjóra kæra kæranda vegna fyrrgreindrar endurákvörðunar. Var þess krafist, að skattframtal kæranda árið 1986 yrði tekið til greina. Gerði umboðsmaður kæranda grein fyrir því, að meginástæðan fyrir áritun hans á ársreikning kæranda, sbr. að framan, hefði verið úttekt hluthafa, sem áður hefði staðið fyrir rekstri kæranda, úr peningakassa. Ekki hefðu kvittanir verið gefnar fyrir þessum úttektum og hefðu þær verið bókaðar skv. upplýsingum starfsstúlkna í sölubúð. Hefðu þessar úttektir orðið tilefni deilna milli hluthafa í kæranda. Því sé hugsanlegt, að kærandi glati fjármunum, sé ekki unnt að sanna úttektir þessar. Þá var gerð grein fyrir því, að kærandi hefði verið stofnsettur í apríl 1985 í því skyni að yfirtaka rekstur A. Ekki væri óeðlilegt, að tap hefði orðið á rekstri kæranda á árinu, þar sem margir kostnaðarliðir væru úr öllu samræmi við umfang rekstrar. Við stofnun kæranda hefði verið hafist handa um niðurskurð útgjalda og koma lagi á reksturinn svo sem nánar var lýst. Við endurskoðun hefði ekkert komið fram, sem benti til annars en þetta væri rétt. Sá möguleiki væri fyrir hendi, að starfsfólk hefði getað nýtt sér fjármuni félagsins og sala hefði því í raun verið hærri. Eftir starfsmannaskipti hefði komið fram söluaukning, er styrkt hefði grun stjórnenda. Væri raunin þessi þá væri fé þetta tapað og því hluti taps félagsins á árinu. Vegna starfsloka þess, sem áður hefði staðið fyrir rekstri, síðla árs 1985 hefði verið tekið fyrir úttektir hans úr kassa. Þá var tekið fram af hálfu umboðsmanns kæranda, að allar leiðréttingar, er kynnu að koma fram síðar, yrðu að sjálfsögðu færðar í bókhaldi kæranda.
Í kæruúrskurði sínum, dags. 25. febrúar 1987, hafnaði ríkisskattstjóri kröfu kæranda og ákvarðaði, að tap til yfirfærslu vegna rekstrar á árinu 1985 væri og yrði ekkert. Taldi ríkisskattstjóri, að meginforsenda hans fyrir synjun um ákvörðun á yfirfæranlegu tapi væri enn fyrir hendi. Telja yrði að verulegir annmarkar hefðu verið á tekjuskráningu kæranda og að bókhald hans og reikningsskil hefðu ekki verið með þeim hætti, að fullnægt væri skilyrðum skattalaga þannig að skattákvörðun yrði byggð á bókhaldinu.
Með kæru, dags. 4. mars 1987, hefur umboðsmaður kæranda skotið kæruúrskurði ríkisskattstjóra til ríkisskattanefndar og gerir þá kröfu, að yfirfæranlegt tap verði ákvarðað 728.102 kr. eins og tilgreini í skattframtali. Rökstuðningur umboðsmannsins er svofelldur:
„Ekki er sannað, hvorki af okkur né ríkisskattstjóra, að úttekt eins af hluthöfum hafi orðið til þess að bókfærð sala hafi orðið lægri en raunveruleg sala. Hins vegar skráðu starfsstúlkur úttektir viðkomandi á lausa miða, til afstemmingar kassa, án kvittunar og gerði hann ágreining um þessa úttekt. Meirihluti stjórnar félagsins krafðist þess, að úttekt yrði ekki lækkuð, og þá jafnframt tekjur, og er ársreikningur félagsins gerður í samræmi við þessa kröfu stjórnar.
Hafi úttekt verið hærri en bókhald segir til um, þá yrðu gjöld fyrirtækisins væntanlega hærri á móti aukinni sölu, þar sem engar sönnur væri hægt að færa fyrir þessum úttektum og því ekki hægt að krefja um endurgreiðslu og féð þar af leiðandi tapað.
A. neyddist til að selja hluta af rekstri sínum vegna taprekstrar, enda var kostnaður ekki í neinu samræmi við umfang starfseminnar.
B. hf. sem stofnað var til að taka við rekstri A., erfir hluta af fyrri vandamálum. Samkomulag hluthafa um vinnuskyldu var ekki haldið og ennfremur var ágreiningur um fjölda vinnustunda, sem laun voru greidd eftir.
Allt útlit var fyrir að málaferli fylgdu í kjölfarið og af þeim sökum gat leikið vafi á að ársreikningurinn væri lýsandi fyrir rekstur og efnahag félagsins. Bókfært tap félagsins gat þó einungis aukist, en ekki minnkað ef til málaferla hefði komið.
Önnur ágreiningsefni gátu ennfremur haft áhrif í þessu tilliti. Af ofanrituðu má ljóst vera, að ekki var hægt að láta í ljós álit á ársreikningi B. hf.
Synjun álits helgaðist hins vegar einvörðungu af því að við töldum allverulegar líkur á, að tap félagsins á árinu 1985 væri vanskráð og ójafnað tap samsvarandi vanbókað. Það er nú ljóst að bókfærð krafa félagsins á hendur A. er töpuð þar sem ekkert vinnuframlag mun koma fyrir hana, né fjárhagsstaða A. þess eðlis að hún sé krefjanleg.“ Með bréfi, dags. 2. mars 1988, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:
„Að úrskurður ríkisskattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun hans.“
Þegar ríkisskattstjóra barst erindi umboðsmanns kæranda hinn 13. október 1986 lá fyrir skattstjóra kæra umboðsmannsins, dags. 27. ágúst 1986, er eigi hafði þá sætt úrlausn skattstjóra, en erindið var í reynd sá rökstuðningur, sem boðaður hafði verið í kærunni. Réttara hefði því verið, að ríkisskattstjóri hefði framsent skattstjóra erindi þetta til afgreiðslu í hinu óafgreidda kærumáli í stað þess að neyta heimildar 3. mgr. 101. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Þrátt fyrir þetta þykja eigi efni til þess að ómerkja ákvarðanir ríkisskattstjóra í málinu. Ljóst þykir vera af áritun umboðsmanns kæranda á ársreikning hans fyrir árið 1985 og greinargerðum hans í máli þessu, að grundvöllur skattframtals kæranda árið 1986 er eigi svo traustur sem skyldi. Í kæru til ríkisskattanefndar vill umboðsmaður kæranda skýra synjun álits síns í áritun á ársreikninginum svo, að hún hafi helgast einvörðungu af þeim líkum, að tap kæranda árið 1985 væri vanskráð. Málatilbúnaður hans sýnist lúta að því, að umkrafin tapsfjárhæð sé síst offærð. Að virtum öllum málavöxtum þykir mega byggja á því, að umkrafin taps- fjárhæð sé eigi hærri en efni standa til. Er því fallist á kröfu kæranda.