Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 110/1988

Gjaldár 1986

Lög nr. 75/1981 — 31. gr. 1. tl. — 92. gr. — 99. gr. — 106. gr. 1. mgr. 1. ml.  

Síðbúin framtalsskil — Álag vegna síðbúinna framtalsskila — Vítaleysisástæður — Fyrirspurn skattstjóra — Rekstrarkostnaður — Vefenging skattframtals — Rökstuðningur — Rökstuðningur kæru — Rökstuðningur úrskurðar skattstjóra — Ólögmætt þvingunarúrræði — Launauppgjöf

Málavextir eru þeir, að af hálfu kæranda var ekki talið fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 1986. Við frumálagningu opinberra gjalda gjaldárið 1986 áætlaði skattstjóri kæranda því skattstofna til álagningar gjaldanna að viðbættu 25% álagi á hina áætluðu skattstofna, sbr. heimildarákvæði 1. ml. 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Með kæru, dags. 26. ágúst 1986, sendi umboðsmaður kæranda skattstjóra skattframtal kæranda árið 1986 og fór fram á, að það yrði lagt til grundvallar álagningu opinberra gjalda kæranda árið 1986 án álags vegna síðbúinna framtalsskila, þar sem annir á skrifstofu hans og mistök við tölvuvinnslu hefðu valdið því, að ógerlegt hefði verið að skila skattframtalinu fyrr. Á þessum töfum á framtalsskilunum ætti kærandi enga sök.

Með bréfi, dags. 12. mars 1987, krafði skattstjóri kæranda um ýmis gögn og upplýsingar varðandi skattframtalið, áður en kæran yrði tekin til úrlausnar með kæruúrskurði. Var gefinn 10 daga svarfrestur. Skattstjóri krafði kæranda um launa- og greiðslumiða til staðfestingar á eftirfarandi gjaldaliðum: 1) Greiddum launum í verslun og skrifstofu 8.384.816 kr. 2) Höfundalaunum 9.628.179 kr. 3) Sölulaunum 3.562.882 kr. 4) Aðkeyptri vinnu 861.160 kr. 5) Aðkeyptum akstri 1.024.020 kr. 6) Lögfræðilegri aðstoð 483.187 kr. 7) Húsaleigu 532.387 kr. 8) Reikningslegri aðstoð 795.000 kr. Þá krafðist skattstjóri launaframtals 1986 í samræmi við launagreiðslur kæranda, er væri útfyllt eins og form þess segði til um.

Ekki barst svar við bréfi þessu. Með kæruúrskurði, dags. 13. apríl 1987, féllst skattstjóri á að leggja hið innsenda skattframtal til grundvallar álagningu opinberra gjalda kæranda gjaldárið 1986 með ýmsum breytingum, sem tilgreindar eru í úrskurðinum. Skattstjóri lækkaði eftirstöðvar rekstrartapa frá fyrri árum og hækkaði stofn til álagningar sérstaks eignarskatts skv. lögum nr. 100/1985, um sérstakan skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði. Um þessar breytingar er ekki ágreiningur og hafa þær ekki verið kærðar til ríkisskattanefndar. Skattstjóri lækkaði fyrrgreinda 8 gjaldaliði um samtals 11.950.000 kr. og tilgreindi lækkunarfjárhæðir hvers þeirra um sig sem hér segir: 1) 4.000.000 kr. 2) 4.500.000 kr. 3) 1.700.000 kr. 4) 300.000 kr. 5) 550.000 kr. 6) 200.000 kr. 7) 350.000 kr. 8) 350.000 kr. Skattstjóri byggði á því að þessi gjaldaliðir væru óstaðfestir. Segir svo um þetta í kæruúrskurðinum: „Samkvæmt 99. gr. laga nr. 75/1981 skal kæra vera rökstudd og studd nauðsynlegum gögnum. Skýringar með ársreikningum vegna skattuppgjörs svo og áritun endurskoðanda þykja ekki veita þær upplýsingar varðandi réttmæti ofangreinds kostnaðar að á gjaldfærslu hans verði fallist að öllu leyti.“ Þá bætti skattstjóri 25% álagi við skattstofna kæranda skv. framtalinu að gerðum breytingum skattstjóra vegna síðbúinna framtalsskila, sbr. heimildarákvæði 1. ml. 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Vísaði skattstjóri til þess, að sú almenna regla gilti, að aðili gæti ekki öðlast meiri rétt með því að framselja rétt sinn eða skyldur til umboðsmanns og það að fela slíkum aðila að ganga frá og skila skattframtali geti ekki leitt til þess, að kærandi öðlist rýmri rétt til undanþágu frá beitingu álags en annars. Þá gætu síðbúin framtalsskil umboðsmanns verið bein afleiðing af háttsemi framteljandans og kæmu þá ýmis tilvik til skoðunar önnur en sein skil gagna til umboðsmanns. Þá vísaði skattstjóri til síðbúinna framtalsskila fyrri ára. Kærandi hefði sætt áætlun skattstofna gjaldárin 1983 og 1984. Skattframtal árið 1985 hefði borist 19. júní 1985 og skattframtal 1986, er dagsett væri 1. júlí 1986, hefði borist 28. ágúst 1986. Ekki verður séð, að álagsbeiting þessi sé kæruefni í málinu.

Af hálfu umboðsmanns kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 11. maí 1987. Er kæran svohljóðandi:

„Hinn 12. mars s.l. óskaði skattstjóri eftir, að lögð yrðu fram gögn til staðfestingar á greiddum launum í verslun og skrifstofu, svo og höfundalaunum, sölulaunum o.fl., þannig að úrskurða mætti kæru umbjóðanda míns dags. 26. ágúst á s.l. ári.

Umbjóðandi minn stóð í þeirri trú að launauppgjöf ársins, ásamt launamiðafylgiskjali, hafi fylgt kærunni er hún var lögð inn til Skattstofunnar í Reykjavík á sínum tíma. Þrátt fyrir mikla leit hefur umbjóðandi minn heldur ekki fundið afrit launauppgjafar, og af þeim sökum dróst að svara bréfi skattstjóra fyrr en um seinan, þannig að hann hefur þegar úrskurðað kæru umbjóðanda míns, en jafnframt stórlega lækkað frádráttarliði framtalsins af þessum sökum.

Af þessum sökum hefi ég séð mig tilneyddan til að láta vinna launauppgjöfina að nýju, en sökum mikilla anna hér á skrifstofu minni mun hún ekki berast ykkur fyrr en eftir tvo til þrjá daga.

Launauppgjöfin mun svara öllum fyrirspurnum Skattstofunnar öðrum en liðnum „aðkeyptur akstur“ og greidd „húsaleiga“. Því hefi ég látið prenta út þessa reikninga úr bókhaldi félagsins og fylgja þeir hér með. Eins og sjá má af yfirliti yfir „aðkeyptan akstur“ þá er hér um sendibílakostnað að ræða, vegna útkeyrslu á vörum frá ýmsum aðilum sem ekki nokkur kostur er að sundurliða. Inná yfirlitið yfir „húsaleigu“ hefi ég merkt hverjum hún var greidd.

Endurgerð launauppgjöf mun síðan berast ykkur nú næstu dagana, og vænti ég að Ríkisskattanefnd sjái sér fært að taka þessi gögn til gefa og þar með áður innsent skattframtal, og færi jafnframt álögð opinber gjöld til samræmis við gjaldstofna framtalsins.“

Með bréfi, dags. 8. febrúar 1988, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:

„Með vísan til framkominna skýringa og sundurliðunar á gjaldaliðunum „aðkeyptur akstur“ og „húsaleiga“, samtals 1.556.407 kr. er fallist á kröfu kæranda varðandi þann lið. Önnur atriði í hinum kærða úrskurði eru samkvæmt þessu enn óstaðfest og er þeim ómótmælt af kæranda hálfu. Er þess krafist að úrskurður skattstjóra standi óhaggaður um öll önnur atriði úrskurðar hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.“

Svo sem fram hefur komið hér á undan verður eigi annað ráðið af kærunni til ríkisskattanefndar en að einungis þeim þætti í kæruúrskurði skattstjóra, dags. 13. apríl 1987, er varðar lækkun fyrrgreindra átta gjaldaliða um alls 11.950.000 kr. sé skotið til nefndarinnar af hálfu umboðsmanns kæranda. Verður úrlausn málsins við það miðuð. Gögn þau, sem umboðsmaður kæranda boðar í kærunni til ríkisskattanefndar hafa eigi borist. Af bréfi skattstjóra, dags. 12. mars 1987, og kæruúrskurði hans, dags. 13. apríl 1987, verður eigi annað ráðið en lækkun hans á fyrrgreindum gjaldaliðum samtals um 11.950.000 kr. sé grundvölluð á því að launauppgjöf skorti. Framtalið bar eigi með sér, að efni væru til þess að vefengja þessa gjaldaliði sérstaklega og þykja athugasemdir skattstjóra í hinum kærða úrskurði um réttmæti fyrrnefndra kostnaðarliða eigi breyta neinu um þetta. Í þessu sambandi þykir rétt að fram komi, að lögfest eru sérstök úrræði til þess að knýja fram þau gögn og upplýsingar, sem skattstjóri gekk eftir. Að þessu athuguðu er lækkun skattstjóra alls að fjárhæð 11.950.000 kr. felld niður.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja