Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 146/1988

Gjaldár 1987

Lög nr. 75/1981 — 95. gr. — 96. gr. — 99. gr. 1. mgr. l.ml. — 100. gr. 5. mgr. — 117. gr. 3. mgr.   Auglýsing nr. 13/1970, um samning milli Íslands og Danmerkur til að komast hjá tvísköttun og koma í veg fyrir undanskot frá skattlagningu á tekjur og eignir — 3. gr. 1. tl. b-liður  

Tvísköttun — Tvísköttunarsamningur — Tekjur erlendis — Milliríkjasamningur — Skattgreiðslur erlendis — Gildissvið tvísköttunarsamnings — Lækkunarheimild — Ríkisskattstjóri — Kröfugerð ríkisskattstjóra — Kæra síðbúin — Frávísun vegna siðbúinnar kæru — Kærufrestur — Andmælareglan — Tilkynning skattstjóra — Málsmeðferð áfátt

Málavextir eru þeir, að kærandi skilaði staðfestu og undirrituðu skattframtali árið 1987 í viðbótarframtalsfresti það ár. í athugasemdadálki framtalsins var þess getið, að kærandi hefði starfað í Færeyjum í 1 1/2 mánuð á árinu 1986. Laun hans þar hefðu numið dönskum krónum 43.563 og hefði hann greitt skatt af þessum tekjum í Færeyjum að fjárhæð d.kr. 21.078. Við frumálagningu gjaldárið 1987 hefur skattstjóri bætt þessum tekjum við tilfærðar tekjur kæranda í reit 21 í skattframtalinu og reiknað þær ísl.kr. 221.808. Ekki verður séð, að kæranda hafi verið tilkynnt um þessa breytingu eða honum yfirleitt gefinn kostur á að gæta hagsmuna sinna, áður en hún var ákveðin.

Með kæru, dags. 27. ágúst 1987, krafðist umboðsmaður kæranda þess, að skattframtalið yrði óbreytt lagt til grundvallar álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1987. Svo virtist, sem tekjum kæranda í Færeyjum d.kr. 43.563 hefði verið bætt við skattstofna á álagningarseðli og væri krafist leiðréttingar á því. Skattur hefði verið greiddur af þessum tekjum d.kr. 21.078.

Með kæruúrskurði, dags. 23. október 1987, vísaði skattstjóri kærunni frá sem of seint fram kominni. Skv. 1. ml. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, væri kærufrestur til skattstjóra 30 dagar frá og með dagsetningu auglýsingar skattstjóra um að álagningu skv. 1. mgr. 98. gr. laganna væri lokið. Slík auglýsing um lok álagningar árið 1987 hefði verið birt í Lögbirtingablaði föstudaginn 31. júlí 1987. Síðasti dagur kærufrests hefði því verið laugardagurinn 29. ágúst 1987. Á miðnætti 29. ágúst 1987, er kærufrestur hefði runnið út, hefði póstkassi skattstofu verið tæmdur. Bréf kæranda hefði verið í póstkassa mánudaginn 31. ágúst 1987. Skv. þessu væri kæran of seint fram komin og bæri því að vísa henni frá.

Með kæru, dags. 9. nóvember 1987, hefur umboðsmaður kæranda skotið frávísunarúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar. Er þess krafist, að kæran frá 27. ágúst 1987 hljóti efnismeðferð og er vísað til rökstuðnings, er þar sé tilgreindur. Þá fylgir kærunni til ríkisskattanefndar ljósrit af gagni frá „L.F.“, dags. 19. janúar 1987, um skattgreiðslur kæranda í Færeyjum.

Með bréfi, dags. 2. mars 1988, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:

„Með hliðsjón af framlögðum gögnum um skattgreiðslur kæranda í Færeyjum þykir rétt að fallast á kröfu hans að þessu sinni, þótt kærunni hafi réttilega verið vísað frá af hálfu skattstjóra.“

Kröfugerð ríkisskattstjóra í máli þessu verður eigi skilin öðruvísi en svo, að embættið fallist á, að efniskröfur kæranda í máli þessu komist að, þrátt fyrir frávísunarúrskurð skattstjóra. Að því virtu og málavöxtum að öðru leyti verður hin kærða breyting skattstjóra tekin til úrlausnar í úrskurði þessum. Hvorki gerði skattstjóri kæranda viðvart um hina kærðu breytingu né gaf honum kost á að gæta hagsmuna sinna, áður en hún var ákveðin. Þegar af þessari ástæðu þykir bera að fella breytinguna úr gildi. Vegna kröfugerða í máli þessu, bæði kæranda og ríkisskattstjóra, skal tekið fram, að eigi liggja fyrir nein ákvæði milliríkjasamnings, er gætu komið í veg fyrir tvísköttun umræddra tekna kæranda í Færeyjum. Til þess er að líta, að samningur milli Íslands og Danmerkur til þess að komast hjá tvísköttun og koma í veg fyrir undanskot frá skattlagningu á tekjur og eignir, sbr. auglýsingu nr. 13 frá 1. júní 1970, þar sem samningurinn er birtur, tekur eigi til Færeyja skv. skýru ákvæði b) liðs 1. tl. 3. gr. samningsins. Þessi samningur tekur því eigi til hinna umdeildu tekna kæranda í Færeyjum. Hins vegar þykir rétt að benda kæranda á þá heimild, sem ríkisskattstjóri hefur skv. 3. mgr. 117. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, til lækkunar skatta hérlendis með hliðsjón af skattgreiðslum erlendis.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja