Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 149/1988
Gjaldár 1985
Lög nr. 75/1981 — 102. gr. Lög nr. 51/1968 Lög nr. 10/1960 — 25. gr. — 26. gr.
Skattsektir — Skattrannsókn — Skattrannsóknarstjóri — Bókhald — Söluskattur — Söluskattsskyld velta
Með bréfi, dags. 22. september 1987, hefur skattrannsóknarstjóri sent ríkisskattanefnd til sektarmeðferðar mál X. h.f. Er í því bréfi svofelld greinargerð:
„Málavextir eru þeir að rannsóknardeild ríkisskattstjóra framkvæmdi athugun á bókhaldi og söluskattsskilum gjaldanda fyrir rekstrarárið 1985. Skýrsla um athugunina var tekin saman þann 23. apríl 1986 og send gjaldanda með bréfi dags. 29. sama mánaðar. Í bréfinu var gjaldanda veittur frestur til 14. maí 1986 til að koma skriflegum skýringum á framfæri.
Í skýrslunni kemur fram að gjaldandi er hlutafélag stofnað árið 1976. Er starfsemin fólgin í rekstri....
Með því að bera saman hreyfingalista úr fjárhagsbókhaldi og innsendar söluskattsskýrslur, kom í ljós talsvert misræmi milli mánaða á áðurnefndum hreyfingalista og söluskattsskýrslna. Reyndist söluskattsskyld velta vera vantalin um kr. 229.487,29 og heildarvelta var vantalin um kr. 506.263,29.
Engar athugasemdir bárust frá gjaldanda. Var skýrsla rannsóknardeildarinnar því lögð óvéfengd til grundvallar í máli þessu.
Í úrskurði ríkisskattstjóra dags. þann 14. júlí 1986 var gjaldanda gert að greiða viðbótarsölugjald af vanframtalinni söluskattsskyldri veltu ásamt álagi.
Hækkun ríkisskattstjóra var eftirfarandi:...
Kæra barst frá umboðsmanni gjaldanda þann 24. júlí 1986, þar sem þess var krafist að viðurlög þau sem gjaldanda var gert að sæta skv. fyrrnefndum úrskurði ríkisskattstjóra, yrðu felld niður eða lækkuð verulega.
Í kæruúrskurði dags. 28. október 1986 var kröfum umboðsmanns gjaldanda synjað og hin kærði úrskurður staðfestur.
Skv. gögnum málsins er ljóst, að söluskattsskyld velta gjaldanda er vanframtalin, og greiddi hann þar af leiðandi lægra sölugjald en honum bar.
Brot gjaldanda þykir varða hann sektum skv. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 10 frá 1960 sbr. 4. gr. laga nr. 33 frá 1982.“
Engin sjálfstæð rannsókn skattrannsóknarstjóra hefur farið fram í máli þessu. Við ákvörðun þess viðbótarsölugjalds, sem í málinu greinir, var einvörðungu byggt á skýrslu gjaldanda. Að svo vöxnu þykja eigi hafa verið efni til þess að krefjast sektarmeðferðar í máli þessu.