Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 151/1988

Gjaldár 1986

Lög nr. 75/1981 — 30. gr. 1. mgr. E-liður 1. tl. — 106. gr. 2. mgr  

Vaxtagjöld — Íbúðarlán — Íbúðarhúsnæði — Kaupsamningur — Stofnverð íbúðar — Kaupverð — Húsbyggjandi — Álag vegna vantalins skattstofns

Málavextir eru þeir að kærandi keypti raðhús af A. hf. 22. maí 1984. Samkvæmt fylgiskjali um kaup og sölu eigna, er fylgdi skattframtali kæranda 1985, nam kaupverðið 2.225.000 kr. sem skiptist þannig: Útborgun á kaupári 1.473.170,50 kr., útborgun á næsta ári 350.000 kr. og útgefið skuldabréf 401.829,50 kr. Á skattframtali sínu 1986 færði kærandi vaxtagjöld til frádráttar 87.187 kr. Skv. gögnum málsins voru vaxtagjöldin af uppgreiddri skuld við A. hf. upphaflega að fjárhæð 350.000 kr. Skattstjóri sendi kæranda fyrirspurnarbréf, dags. 10. nóvember 1986, og fór fram á að lögð yrðu fram gögn til samræmis við fyrrgreind vaxtagjöld sbr. kvittanir, skuldaviðurkenning og kaup- eða byggingarsamningur. Svar barst ekki við fyrirspurn skattstjóra og með bréfi, dags. 13. mars 1987 lækkaði skattstjóri vaxtagjöld til frádráttar um 87.187 kr. auk 25% álags. Í kæru til skattstjóra, dags. 9. apríl 1987, var lækkun vaxtafrádráttarins mótmælt. Fram kom að vaxtagreiðslur til A. hf. hefðu verið tilkomnar vegna greiðslna samkvæmt kaupsamningi, í júlí 1985 200.000 kr. og í desember 1985 150.000 kr. Samkvæmt kaupsamningi voru vextir af þessum greiðslum eftirágreiddir víxilvextir sem reiknuðust frá 1. ágúst 1984 til greiðsludags. Með kærunni fylgdi ljósrit af kaupsamningi og kvittun fyrir greiðslu hinna umdeildu vaxta. Með úrskurði, uppkveðnum 27. apríl 1987 synjaði skattstjóri kröfu kæranda. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum væru fyrrgreindir vextir vegna hluta útborgunar kaupverðs íbúðar. Virtist þeim ætlað að koma í stað verðtryggingar meðan beðið væri eftir úthlutun Húsnæðismálastjórnarláns. Væri því ekki fallist á að umrædd fjárhæð gæti verið frádráttarbær til tekjuskatts.

Kærandi hefur skotið úrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 26. maí 1987. Er þess krafist að úrskurði skattstjóra verði hnekkt. Með kærunni fylgja afrit af gögnum málsins.

Kröfugerð ríkisskattstjóra, dags. 8. febrúar 1988, er á þá leið að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Með hliðsjón af gögnum málsins og framkomnum skýringum er fallist á það með kæranda, að hin umdeildu vaxtagjöld séu frádráttarbær til tekjuskatts.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja